Fitubollublogg

Ég veit ekki hvernig í andskotanum ég gat leyft þessu að fara svona langt, hélt í alvöru að ég væri týpan sem þyrft aldrei að fara í „megrun“ og mundi taka á svona málum áður en ég yrði alltof feit. Ég held líka að ég hafi ekki upplifað mig eins feita og ég í rauninni er, hélt bara að ég væri grennri. Eiginlega svipað og mér finnst ég ekkert hrukkótt, fyrr en ég lít í spegil.

Þannig að núna er tíminn til að gera eitthvað í málunum.
Komum úr Ítalíu fríinu okkar í gær, þar sem við gengum samtals 140,97 km sem eru 226.002 skref. Á þessu labbi okkar fórum við upp 565 hæðir og eyddi samt ekki nema 40.749 kkal. ég hélt grínlaust að ég hefði grennst! En nei nei aldeilis ekki!

Í morgun þegar ég steig á vigtina var smá vonarneisti í hausnum á mér sem lét mig halda að ég væri samt ekki svona svakalega feit. En þarna blasti hún við mér talan sem ég vona að verði til þess að ég taki mig saman og missi 18 til 20 kg! Jamm ég var 74 kg.

Nú vilja sennilega eihverjir meina að ég sé með fordóma gagnvart feitu fólki. Ég er ekki með neina fordóma, finnst fita bara ekki falleg og veit að of mikið af henni í of langan tíma getur leitt af sér alskonar fylgikvilla. Svo finnst mér mörköggla áferð á lærum og handleggjum og slappir vöðvar er bara ekkert sérlega eftirsóknarvert á mitt heimili. Þessvegna þarf Eiki líka að grenna sig. Svo eru náttúrulega bein óþægindi að vera með svona mörg aukakíló.  Það er beinlínis vont að geta ekki gengið berleggjaður í stuttu pilsi því lærin á manni eru komin í svo mikla yfirstærð að þau nuddast saman og geta valdið nuddsári. Þess vegna tók ég á það ráð að ganga með fæturna pínulítið aðskilda og það skal ég segja ykkur er ekki kynæsandi göngulag!

Ég tók nú líka nokkrar jógaæfingar á pallinum við litla krúttlega fjallakofann í Mið-Toscana og átti erfitt með sérstaklega eina æfingu því maginn á mér tekur svo mikið pláss!

Svo eru bara allar hreyfingar orðnar stirðbussalegar og ég finn alltof vel hvað ég er orðin þung á mér. Bara að kúra er orðið klunnalegt svo ég tala nú ekki um en nánari samskipti!

EN það sem er jákvætt við þetta alltsaman er að nú get ég talað um fitubollur án þess að vera þessi mjóa sem er alltaf að gagnrína feita fólkið. Feitt fólk er nefnilega það eina sem má tala um annað feitt fólk. Hérna í DK er samt ekki vel séð að maður kalli hlutina sínu réttu nöfnum. Nei maður talar um kraftalegt fólk þó að fita komi kröftum akkúrat ekkert við.

Og þegar ég tala um að ég þurfi að missa nokkuð mörg kíló segir fólk týpiskt; „nei nei hvaða vitleysa þú lítur svo vel út. Þú ert nú búin að eiga 5 börn“ Og hvað? Það er ekkert samasemmerki milli þess að eignast börn og vera fitubolla, nákvæmlega ekkert. Auðvitað fær maður ekki aftur 16 ára lúkkið og það er heldur ekki það sem ég sækist eftir. Langar bara að vera í kjörþyngd og styrkja mig og umfram allt langar mig ofsalega að losna við allt sem heitir mörkögglar.

Annað sem er jákvætt (ekki samt við að vera feit) er að ég fékk Fitbit charge 2 frá krökkunum mínum og það skráir alla hreyfingu og minnir mig á ef ég er eitthvað að gleyma mér upp í sófa. Svo hefur allt þetta labb um Toscana gert það að verkum að þolið mitt hefur aukist talsvert. Fór í labbitúr upp að myllum í gær og hef yfirleitt þurft að hvíla mig í fokking brekkunni sem liggur upp að þeim, en í gær kvöldi óð ég þetta upp á móti, með öll mín auka kíló án þess að blása úr nös (lýg þvi reyndar, er með astma).

Og það síðasta jákvæða er að ég er ekki ein feit, Eikinn minn er líka alltof feitur. Hann þarf líka að losa sig við 20 kg. Þegar ég bauð honum í keppni hver yrði fyrstur að losa sig við 10 kg svaraði hann „You know you will lose, but you still be the winner cause you will get me thinner“.

Ég er búin að hugsa um þetta voða lengi, en eins og með svo margt annað sem maður ætlar að gera og veit að maður þarf hugsanlega að leggja eitthvað á sig, hef ég ýtt þessu á undan mér og alltaf fundið eitthvað sem veldur því að ég verð að fresta þessu smá. Næturvaktir á fæðingargangi þar sem allt er fljótandi í nammi, sunnudagur framundan, gestur um helgina, kósýkvöld planlagt eftir 2 vikur, út að borða með stelpunum úr vinnunni eða með vinkonu, sumarfrí, bara eitthvað til að þurfa ekki að taka ábyrgð á fitubollunni strax. Og fitubollan bara stækkar.

Akkúrat núna er lika fullt framundan. Eins og alltaf. Æskuvinkona mín er að koma á laugardaginn, garðveisla þar sem dóttir mín fagnar 30 árunum sínum og allt fullt af góðum gestum grilluðu svíni og víni. Svo er skólinn að byrja hjá mér með tilheyrandi kökuáti og svo er ég búin að leigja mér litla holu með skólasystur minni og það verður sennilega stærsta áskorunin. Að búa með annari stelpu sem líka elskar mat og sukk og ég hef ekki hugmynd um hvort hún sé innstillt á matinn sem ég er að hugsa um að elda handa henni 🙂 Svo eru náttúrulega jólin framundan.

En ég verð að gera eitthvað, og það núna, og þar sem ég er búin að vera að velta þessu fyrir mér í þó nokkuð langan tíma veit ég líka hvað ég ætla að gera.

  1. Taka fyrstu 3 til 4 vikurnar á ströngu LKL. Veit að það virkar og mér líður ofsalega vel á því fæði. Auk þess hrynja kílóin hratt af fyrstu vikurnar og ég þarf á því að halda til að sjá árangur strax!
  2. Taka myndir einu sinni í mánuði. Já af mér á typpinu og tattúinu. Annars veit ég að ég á eftir að hugsa : „ahhh ég var nú ábyggilega ekkert svo feit“.
  3. Halda áfram þeirri hreyfingu sem ég er búin að „venja mig á“ síðustu rúmar tvær vikurnar á Ítalíu sem sagt allavega hálftíma ganga á dag og ekki undir 10.100 skref daglega. Jafnvel bæta inn sundi eða annari hreyfingu. Langar meiri að segja smá í líkamsrækt.
  4. Vigta mig daglega, því það virkar fyrir mig, og birta tölurnar einu sinni í viku.
  5. Mæla þá líkamsparta sem ég vill grenna og birta þær tölur líka. Held samt að það verði mánaðarlegt.
  6. Þar sem ég er kolvetnisfíkil dauðans ætla ég yfir í miðjarðarhafs-mataræðið ef LKL-ið verður of erfitt eftir að ég byrja í skólinum.
  7. Langar að stefna á 1 kg á viku en held að það sé ekki alveg raunhæft, þannig að ég helminga það og segi hálft kg á viku. Það þýðir að um jól ætti ég að sjá töluna 64 á vigtinni og ég er sátt við það.
  8. Vera komin í kjörþyngd á afmælinu mínu sem er 8. maí
  9. Skrifa hérna allavega annan hvern dag.

Ætla mér að vinna og verða grönn aftur 😊
Vona að ég sé ein af þessum 3-5% sem Tara Margrét talar um að geti grennt sig. 😊

 

Deila færslunni

Share to Google Plus