Kúrdar eru stærsta ríkislausa þjóð veraldar. Þeir búa á landsvæði sem spannar svæði í fjórum löndum; Íran, Írak, Sýrlandi og Tyrklandi. Í Rojava í Sýrlandi hafa Kúrdar komið á stjórnskipulagi sem byggir á hugmynd um lýðræði án ríkisvalds. Vera Íslamska ríkisins á svæðinu hefur reynst Kúrdum dýrkeypt og þeir hafa gegnt lykilhlutverki í því að brjóta Islamska ríkið á bak aftur.

Flestir kannast við ólýsanleg grimmdarverk Islamska ríkisins en færri þekkja hugmyndafræðina sem Kúrdar í Rojava vinna eftir.

Þetta myndband skýrir í grófum dráttum stjórnmálakerfi Kúrda í Rojava. Í myndbandi sem birt var eftir að fall Hauks var tilkynnt, segist hann telja anarkí óraunhæfan grundvöll fyrir stóru samfélagi en tilraun Kúrda til lýðræðis án ríkisvalds geti verið farvegur fyrir grundvallarhugmyndir anarkismans.

Í júlí 2017 ferðaðist Haukur til Sýrlands með grísku anarkistahreyfingunni RUIS. Hann gekk til liðs við hersveitir Kúrda og tók þátt í vopnaðri baráttu gegn Islamska ríkinu í Raqqah.  Hann ráðgerði að koma heim í janúar 2018 og halda áfram í mannfræðinámi sínu við Háskóla Íslands. För hans tafðist vegna ólöglegrar innrásar Tyrkja í Afrín og svo fór að Haukur fór til Afrín í því skyni að reyna að verjast þar til hjálp bærist frá alþjóðasamfélaginu. Sú hjálp barst aldrei.

Hauks var saknað eftir loftárás á Afrín í febrúar 2018. Líklegast er að hann hafi látist en tilraunir aðstandenda til að fá staðfestingu á því og upplýsingar um það hvað varð um líkið hafa engan árangur borið. Haukur er fyrsti Íslendingur í sögu lýðveldisins sem talið er að hafi fallið sem bardagamaður í stríði.

Share to Facebook