Sonur minn Byltingin helgaði líf sitt andófi gegn ríkisvaldi, auðvaldi og hervaldi. Hann stóð fyrir og tók þátt í beinum aðgerðum gegn umhverfisspjöllum, kapítalisma og fasisma, bæði á Íslandi og erlendis.

Hann var virkur liðsmaður Saving Iceland í baráttunni gegn Kárahnúkavirkjun, sjálfboðaliði í Palestínu, meðlimur í Heimssambandi verkafólks, virkur í hústökuhreyfingum á Íslandi og í Grikklandi.

Hann var frumkvöðull í baráttu fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi og vann að björgun flóttamanna í Grikklandi.


Haukur gekk til liðs við varnarsveitir Kúrda í Sýrlandi í júlí 2017 og tók þátt í vopnaðri andspyrnu gegn Islamska ríkinu í Raqqa. Hann fór þaðan til Afrín til þess að sporna gegn ólöglegri innrás Tyrkja. Hans var saknað eftir loftárás á Afrín í febrúar 2018.  Líklegast er að Haukur hafi látist en tilraunir aðstandenda til að fá staðfestingu á því og upplýsingar um það hvað varð um líkið hafa engan árangur borið. Haukur er fyrsti Íslendingur í sögu lýðveldisins sem talið er að hafi fallið sem bardagamaður í stríði.

Atktívismi Hauks fólst ekki bara í uppreisn gegn yfirvaldi heldur líka í aðgerðum sem gera mannlegt samfélag örlítið betra. Hann tíndi rusl á víðavangi frá þvi að hann var smábarn. Hann varði þá sem voru lagðir í einelti í barnaskóla þótt hann væri hræddur við hrekkjusvínin. Þegar hann bjó í hústöku í Aþenu eftirlét hann margsinnis flóttamönnum svefnpláss sitt til að leyfa þeim að hvílast eina nótt og svaf á götunni sjálfur. Ef hann var með klink í vasanum setti hann tíkall í stöðumæli ef tíminn var útrunninn, þótt hann vissi ekkert hver eigandi bílsins væri. Hann skýrði það með því að ef því að ef allir hjálpuðust að á þann hátt þyrfti enginn að borga sekt þótt hann yrði örlítið seinn fyrir. En bara einn tíkall samt, þvi hugmyndin var ekki sú að leyfa einhverjum að halda stæði allan daginn.Og Haukur leit ekki á takmarkanir sem vandamál, t.d. bauð hann sig fram til þess að aðstoða fatlaða skólafélaga við að taka glósur þótt hann væri sjálfur greindur með lesblindu.

Hvar varðar veraldlega hluti var Haukur nægjusamasta manneskja sem ég hef kynnst. Hann keypti sér aldrei neitt ef var hægt að fá það notað. Það var ekki bara til að spara peninga heldur líka til draga úr sorpmengun. Hann gekk nánast aðeins í notuðum fatnaði  af öðrum. Einu sinni veiddi hann upp úr ruslinu náttkjól sem ég hafði hent af því að hann var gatslitinn svo ég gat ekki sett hann í Rauða Krossinn. „Þessi fíni bolur“ sagði hann og gekk í honum í 2 ár eftir það. Samt var eini tilgangurinn sem hann sá í því að leggja fyrir sá að eiga sjóð til að ferðast eða bjarga einhverjum úr vandræðum.  Og hann var örlátur á það litla sem hann átti. Þegar hann var 12 ára tæmdi hann sparibaukinn sinn til þess að kaupa lítil páskaegg handa þeim sem hann elskaði mest. Ég veit til þess að hann greiddi skólagjöld, húsaleigu og flugmiða fyrir aðra. Samgöngur voru það eina sem hann taldi til nauðsynja sem hann gat ekki hirt úr ruslinu en að því undanskildu sem hann eyddi í ferðalög hugsa ég að hann hafi eytt meira fé í aðra en sjálfan sig.


Þótt Haukur sé best þekktur sem anarkisti og aktívisti var hann svo miklu meira en það. Hann var ákaflega vel lesinn, góður penni og skrifaði ljóð og söngtexta, spilaði á ýmisskonar flautur og harmónikku og samdi lög. Haukur var ekki fullkominn frekar en annað fólk. Hann var oft hrikalega utan við sig, týndi öllu sem hægt var að týna, hafði enga reiðu á draslinu í kringum sig og vildi helst engar langtímaskuldbindingar. En hann var stórkostlegur karakter. Hlýr og elskulegur en um leið ólgandi af réttlætiskennd. Ákveðinn í því að láta engan vaða yfir sig en alltaf tilbúinn til að hlusta á sjónarmið annarra. Hans er sárt saknað, sem sonar, bróður, unnusta, vinar og einstaks baráttumanns fyrir betri heimi.

Share to Facebook