Stúdentahreyfingin Öskra

Haukur hóf nám í Heimspeki við Háskóla Íslands haustið 2008. Hann lauk því ekki enda þótti honum meirihluti stúdenta og margir kennarar líka vera illa hugsandi. Hann sagðist hafa meira gagn afþví að ræða heimspeki og stjórnmál við vini sína en að sitja undir sjálfsbirgingslegu frjálshyggjuhjalinu í Hannesi Hólmsteini, sem tók þó, að Hauks sögn, öðrum kennurum fram í því að hvetja til umræðna og sjálfstæðrar hugsunar.

Fáum mun koma á óvart að Haukur var virkur liðsmaður Öskru, hreyfingar byltingasinnaðra stúdenta. Öskruliðar höfnuðu hefðbundinni stúdentapólitík síðustu áratuga. Í stað þess að setja upp framboðslista til Stúdentaráðs og lofa að þrýsta á um hærri námslán eða önnur sérhagsmunamál stúdenta, einbeittu Öskruliðar sér að beinum aðgerðum og vitundarvaknngu um samfélagsmál utan þess verndaða vinnustaðar sem þau álitu Háskólann orðinn.

Öskra beitti sér meðal annars gegn því að stúdentar þyrftu að greiða leigu fyrir kennslustofur til þess að halda fundi og sinna öðrum verkefnum sem ekki voru á stundaskrá. Í því skyni tóku þau einfaldlega stofur þegar þau þurftu þess með. Öskra átti einnig farsælt samstarf við Anarkistaledhúsið um samfélagsverkefnið „Gámu“ en það fólst í því að bjóða upp á endurgjaldslauar máltíðir fyrir framan matsöluna Hámu á Háskólatorgi, sem miðaði verðlag sitt frekar við tekjur útskrifaðra sérfræðinga en þarfir tekjulausra stúdenta.

Við vitum ekki hver tók myndina og viljum gjarnan fá upplýsingar um það

Share to Facebook

Samfélagsmiðlar eru líka án landamæra
Hvar er Haukur - fréttaumfjöllun