Þann 8. ágúst 2008 var alþjóðlegur samstöðudagur með frelsisbaráttur Tíbeta. Birgitta Jónsdóttir hafði haldið utan um samstöðuhreyfinguna Vinir Tíbets á Íslandi og staðið fyrir reglulegum mótmælum við Kínverska sendiráðið.

Í Reykjavík var haldin kertaathöfn á Lækjartorgi til merkis um samstöðu á degi Tíbets. Sama dag komu stuðningsmenn um allan heim fyrir kyndlum uppi á háum hæðum eða háum byggingum. Svo vildi til að verið var að gera við ytra byrði Hallgrímskirkju og að kertaathöfninni lokinni notaði Haukur tækifærið og klifraði upp í turninn. Þar kom hann fyrir kyndli og fána Tíbets.

Ég var auðvitað dauðhrædd um hann en það var ómögulegt að fá hann ofan af þessu. Hann skottaðist upp með lítinn bakpoka og ég beið niðri ásamt nokkrum vinum. Það var gott veður og fullt af túristum fyrir utan kirkjuna sem tóku eftir því að við vorum að fylgjast með einhverju þarna uppi. Eftir smá stund var kominn hópur fólks sem stóð fyrir framan kirkjuna og góndi upp í turninn. Rétt eftir að við sáum logann heyrði ég í sírenum. Löggan á leiðinni.

Þar sem þeir voru á leiðinni og myndu örugglega koma áður en hann kæmist niður tók Haukur sér góðan tíma í að koma fyrir fána og klifraði svo niður í mestu rólegheitum. En löggan kom ekki. Hann komst niður heilu og höldnu og varð steinhissa á því að sjá hvorki löggur né bæjarstarfsmenn. Túristar sem voru þarna að taka myndir hafa sennilega bara haldið að þetta væri gerningur á vegum borgarinnar. Sírenurnar tengdust þessu greinilega ekkert.

Hér fyrir neðan er skjáskot af frétt Vísis.

 

Share to Facebook