UM AÐGERÐIR SAMTAKA HERNAÐARANDSTÆÐINGA GEGN VOPNABURÐI LÖGREGLU

Þegar ég var leitandi unglingur gerði ég næstum því það glappaskot að ganga í Samtök hernaðarandstæðinga (SHA). Það hefðu verið skiljanleg mistök í ljósi þess að varla var annan vettvang að finna fyrir andóf gegn NATO og stríðsrekstri (stríðin í Afghanistan og Írak voru þá nýhafin) – eða stigvaxandi greddu íslenska ríkisins gagnvart hernaðarhyggju.

Í gegnum tíðina hef ég margoft sótt mótmæli samtakanna og innan þeirra á ég ágætis kunningja, enda eðlilegt að í litlu landi verði samtök sem helga sig afmörkuðum málstað leiðandi í almennum fjöldasamkomum sem tengjast honum. Þetta eru yfirleitt fyrirferðalitlar samkomur þar sem gamlir vinstri sinnar þjappa sér saman um einfaldan málstað, hlusta á leiðtoga sinn segja eitthvað mannúðlegt og fara heim „með eplakinnar og góða samvisku“ eins og félagi í samtökunum hefur orðað það.

Minna fer fyrir þeirri róttækni sem samtökin urðu upphaflega þekkt fyrir. Ekki svo að skilja að það komi mér beinlínis á óvart. Vonbrigði mín með SHA voru helsta ástæða þess að ég að gekk aldrei til liðs við þau og í sannleika sagt hefur umbótasinnuð og löghlýðin forysta þeirra þegar verst lætur beinlínis tekið þátt í ofbeldi ríkisins gegn friðaraktífistum. Besta dæmið er hvítþvottur þáverandi formanns SHA, Stefáns Pálsonar á lögreglunni eftir handtökur og lögregluofbeldi sem átti sér stað í mótmælum samtakanna gegn veislu fyrir gesti NATO-þingsins, við Hótel Nordica þann 28. janúar 2009. Á sama augnabliki og formaðurinn kom fram í fjölmiðlum og talaði um mótmælin sem vel heppnaða aðgerð var lögreglan að þjösnast á aðgerðarsinnum við Hótel Nordica. Síðar lýsti hinn sami formaður ofbeldinu sem aulaskap lögreglumanna sem væru yfirkeyrðir af þreytu. (Nánari lýsingu á framgöngu hernaðarandstæðinga í þeim mótmælum má lesa á bls. 10-11 í Dagfara, 2. tbl. 2009.)

Skortur samtakanna á róttækni og viljaleysi þeirra til beinna aðgerða hefur alla tíð angrað mig, sérstaklega í ljósi þess að félagsmenn eru duglegir við að rifja upp forna frægð; Keflavíkurgöngur, innrásir í herstöðina og óeirðir á Austurvelli.

Engu að síður hefur asninn hann ég aldrei alveg látið af samskiptum mínum við samtökin og einhvern tímann asnaðist ég meira að segja til þess að skrá mig á póstlista þeirra. Æ síðan hef ég mátt hafa mig allan við að eyða tilkynningum þeirra úr pósthólfinu, en fyrirferðamestar eru auglýsingar um fjáröflunarkvöldverði og aðrar huggulegheitasamkomur, sem virðast að mestu hafa leyst af hólmi pólitískt starf þeirra.

Það var ekki fyrr en þann 16. júní síðastliðinn að mér ofbauð endanlega þegar mér barst eftirfarandi tilkynningu í tölvupósti:

Kæri hernaðarandstæðingur

Vegna umræðu um vopnaburð lögreglu á fjölmennum samkomum lýsa Samtök hernaðarandstæðinga yfir stofnun vopnlauss svæðis að Suðurgötu 3 (húsnæði Samtakanna 78) að morgni þjóðhátíðardagsins.

Baráttukonan Birna Þórðardóttir og þingkonurnar Steinunn Þóra Árnadóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir flytja stutt ávörp.

Svavar Knútur tekur lagið.

Heitt á könnunni. Barmmerkjasmiðja og önnur skemmtiatriði.

Svar mitt við skemmtidagskránni

Þar sem ég er staddur erlendis hafði ég engin tækifæri til þess að mæta á svæðið og gagnrýna þessi ömurlegu viðbrögð við vopnvæðingu ríkisvaldsins af hálfu samtaka sem bera pólitíska ábyrgð sem leiðandi afl í andstöðu við hernað á Íslandi.  Ég skrifaði því svarbréf sem ég vonaðist til að yrði lesið upp á samkomunni en þar sem ég hef engin viðbrögð fengið frá SHA finnst mér rétt að koma gagnrýni minni á framfæri á opinberum vettvangi. Svar mitt var á þessa leið:

Leyfist mér að spyrja hvers vegna þið látið þetta yfir ykkur ganga í stað þess að grípa til aðgerða? Finnst ykkur í alvöru formandi að horfa upp á þessa þróun án þess að hefja rasskinnarnar upp af kaffiblettuðum hægindastólnum og þurka meinleysislegt SHA glottið af smettinu? Það hlýtur að teljast lágmark að friðarhreyfing í herlausu landi beiti sér aðeins þegar vopnuð lögregla (réttlætt með rasisma) er kynnt til leiks sem eðlilegur hluti af fjölskylduskemmtun í miðbænum.

Stundum er sagt að hvert lítið telji, en að leyfa sér að bjóða ástandinu ekki byrginn með neinum hætti (þótt ekki væri nema með hefðbundnum, lítilfjörlegum og táknrænum aðgerðum) hlýtur að vinna gegn markmiðum friðarhreyfingarinnar en ekki með þeim.

Þegar ríkisvaldið hefur efnt til vopnaðs eftirlits á götum úti verður hreyfingin að útvíkka skilning sinn á því hvað teljist friðsamlegt og hvað teljist til lágmarks pólitískrar þátttöku. Það væri t.d. fullkomlega friðsamleg aðgerð að bía valdníðingana út í grút og öðrum viðbjóði, jafnvel þótt ekki væri til annars en að fólk hefði betri tilfinningu fyrir því hvar þeir væru staddir og gæti varað sig á þeim.

Aðgerðir Samtaka hernaðarandstæðinga gegn vopnvæðingu lögreglu fólust í vopnlausu svæði á Suðurgötunni

Einnig mætti gera hróp að þeim, áskilja sér rétt til að bera sjálfur vopn, efna til kröftugra mótmæla, yfirtaka stjórnsýslubyggingar, storma lögreglustöðina, veitast að ríkisstjórninni eða með einhverjum hætti sýna það í verki að þetta sé ekki í boði. Ekkert af þessu er sérlega frumlegt eða stórkostlegt, en allt er þetta betur til þess fallið að bregðast með skýrum hætti við þessari nýju þróun heldur en að halda enn eitt jarmandi kaffisamsætið.

Ekki koma aftur með gömlu þuluna um að það sé ómögulegt að taka óspektir alvarlega og að alvöru aktífismi krefjist yfirvegunar. Allir þekkja blæti SHA fyrir þeim fáu átökum sem aldnir félagar ykkar þó tóku þátt í áður en hryggjarstykkið koðnaði niður af notkunarleysi og róttækni tungunnar varð að hjákátlegum aulabrandara.

Þrælarnir verða komnir með vélbyssur á hvert reiðhjól áður en þið látið ykkur detta í hug íbyggið, beint inngrip og safnið kjarki til að láta vaða.

Það er ömurlegt að fylgjast með værukærð og máttleysi þessara ágætu samtaka og leitun að veiklulegri viðbrögðum en að draga sig bara inn í félagsmiðstöð til þess að hlusta á krúttlegt gítarspil. Ekki veit ég hvort nær sé að skrifa þessi viðbrögð á heigulshátt, hugmyndaskort eða hreinræktaða þjóðernishyggju en víst er að SHA eru ófær um að sýna mótspyrnu, hvað þá að ímynda sér eða benda á trúverðuga valmöguleika við ríkjandi og versnandi ástand í friðar- og valdníðslumálum.

Þjóðhátíðardagurinn er afmælisdagur íslenska ríkisins í núverandi mynd og lögreglan er framvörður þess ríkis. Henni er að sjálfsögðu í sjálfvald sett hvernig hún gengur fram og ekkert annað en stöðugur þrýstingur utan stjórnkerfisins getur haldið henni á mottunni.

Elstu mótmælahreyfingar landsins hljóta að taka ábyrgð á því að hafa leyft ástandinu að þróast í þá átt sem það hefur gert. Sérstaklega með hliðsjón af því að þær hafa, í samanburði við þær þjóðir og hreyfingar sem þær lýsa samstöðu með, hvorki mátt þola áreitni né fært teljandi fórnir til þess að búa við þægilegasta ástand sem „róttækt vinstri“ hefur þekkt frá upphafi vega. Þeim ber að viðurkenna vanhæfni sína og áhugaleysi – og sleppa því að taka, á sinn fyrirlitlega hátt, virkan þátt í fasískasta hátíðardegi ársins. Séu samtökin þess ekki megnug, eiga þau að sjá sóma sinn í því að þegja.

Í samhengi morgundagsins er kumpánleg kósísamkoma fyrir friðarsinna verri en ekki neitt, þar sem hún hreinlega útvíkkar möguleika vinstrisins á því að sætta sig við ástandið og láta eins og það beri enga ábyrgð.

Vei þeim sem sniðu þessa áætlun og hafi gestir þeirra skömm fyrir að láta sjá sig í húsakynnum Samtakanna 78 þann 17. júní.

Ég fer þess á leit að þetta erindi verði lesið upphátt fyrir hátíðargesti, t.d. á milli þess sem þingkonurnar tala og trúbadorinn syngur. Að lokum óska ég Íslendingum til hamingju með að vera einu skrefi nær því að búa í nútímalegu, vopnuðu lögregluríki – til þess hafa þeir svo sannarlega unnið.

Kveðja
Haukur

Fyrst birt á Kvennablaðinu

Share to Facebook