Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð í þeim tilgangi, eða orð sem venjulega eru notuð um aðra hluti. Það er ekkert að því í sjálfu sér enda þróast tungumálið með nýjum viðhorfum. En við skulum ekki gleyma því að tungumálið er bæði leynt og ljóst notað til að móta hugmyndir og þeir sem telja sjálfstæða hugsun einhvers virði ættu því að vera meðvitaðir um það. Ekki endilega hafna nýjum talsmáta heldur að nota meira en 2% af heilanum.

Stundum er markmiðið að vinna gegn fordómum með því að skipta út orðum sem vekja hugrenningatengsl við eitthvað neikvætt fyrir önnur sem hafa hlutlaust eða jákvætt yfirbragð. Við köllum fatlað fólk ekki lengur aumingja, í dag er aumingi notað um lélegan karakter, einhvern duglausan og dáðlausan sem sýnir lítilmannlega framkomu. Og út af fyrir sig áhugavert að þeir eiginleikar skuli á einhvern hátt tengdir fötlun í huga okkar.

Stundum er markmiðið að hressa upp á ímyndina án þess endilega að um baráttu gegn fordómum sé að ræða. Oft eru þessháttar leikir að tungumálinu þáttur í staðreyndaförðun – þ.e. tilraunum til að slá ryki í augu almennings með því að draga fram fegraða mynd af veruleikanum og forðast hið óþægilega. Ég er ekki viss um hvenær varð vinsælt nota orðið hagræðing um venjulegan niðurskurð en fjölmiðar tóku virkan þátt í því að bæta ímynd fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda sem reyndu að láta aðgerðir sem bitnuðu á almenningi hljóma eins og þær væru jákvæðar og byggðar á útsjónarsemi, hagsýni og góðu skipulagi.

Nýjasta fegrunaraðgerðin af þessu tagi er nýtal (newspeak) Borgarleikhússins sem ætlar ekki að segja starfsfólki upp eða slíta ráðningarsamningum heldur segist vera „nauðbeygt til að fella umrædda starfsmenn tímabundið af launaskrá“. Leikhúsið ber fyrir sig force majeure – það er lögfræðihugtak yfir neyðarrétt vegna ófyrirsjáanlegra áfalla. Venjulega á slíkur neyðarréttur við um náttúruhamfarir, eldsvoða eða ófyrirsjáanleg stórslys sem hafa þær afleiðingar að fyrirtækjum er gjörsamlega ómögulegt að standa við skuldbindingar sínar, af ástæðum sem þau gátu ekki séð fyrir.

Borgarleikhúsið segist „nauðbeygt til þess að taka starfsmenn af launaskrá“ vegna kórónufaraldursins. Með því er átt við að umrætt starfsfólk fái ekki greidd laun í uppsagnarfresti.

Á mannamáli þýðir þetta einfaldlega

Borgarleikhúsið hefur ákveðið að segja starfsfólki upp og hlunnfara það um umsamin laun í uppsagnarfresti, á þeirri forsendu að vegna kórónufaraldursins eigi fyrirtækið engan möguleika á því að standa við gerða samninga.

Því miður mun því starfsfólki sem verður fyrir skakkaföllum duga skammt að segja leigusalanum, leikskólanum, hitaveitunni og barnsfótum sem hafa vaxið upp úr skónum að því miður sé starfsmaðurinn nauðbeygður til að taka viðkomandi af útgjaldaskrá heimilisins þar sem force majeure hafi komist í bankareikninginn.

Borgarleikhúsið hefur ekki greitt hluta starfsmanna laun fyrir aprílmánuðBorgarleikhúsið hefur enga sérstöðu umfram önnur fyrirtæki sem nýta sér úrræði stjórnvalda nú þegar gefur á bátinn.

Borgarleikhúsið er auðvitað ekkert nauðbeygt til þess skítverks að henda fólkinu sínu út á gaddinn og skilja það eftir gjörsamlega févana. Bent hefur verið á að fyrirtæki verði að gera ráð fyrir svigrúmi vegna óvæntra áfalla. Ef Borgarleikhúsið er svo illa rekið að það hefur ekki gert ráð fyrir neinum óvæntum atvikum hefði samt verið mögulegt að fara aðrar leiðir, t.d. að lækka laun allra smávægilega. Hvort það hefði mælst vel fyrir er annað mál en það sem skiptir máli er að við áttum okkur á að hér er um ákvörðun að ræða. Meðvitaða ákvörðun.

Hvort sem maður telur ákvörðun Borgarleikhússins um að svíkja starfsfólk um laun í uppsagnarfresti réttlætanlega eða ekki hlýtur maður að dást að snilligáfu þess sem datt í hug að „taka starfsmenn af launaskrá“ í stað þess að svipta það samningsbundnum réttindum. Ég legg til að stjórnvöld taki sér þetta til fyrirmyndar, þannig að í stað þess að deyja af völdum farsótta verði fólk „fellt af þjóðskrá“.