Í nótt dreymdi mig að íslenskur tónlistarmaður sem leit út eins og Mugison en var samt einhver annar, hefði látist af slysförum í útlöndum.

Þar sem reglugerð Landbúnaðarráðuneytisins heimilaði ekki innflutning á hráu kjöti var ekki hægt að flytja líkið heim og facebook logaði af skítkasti út í Jón Bjarnason.

Ættingjarnir neyddust til að grafa tónlistarmanninn, sem reyndist vera bróðir Bjarkar Guðmundsdóttur, í útlöndum. Ekki þótti raunhæft að reikna með að allir sem vildu kveðja hann færu utan til þess að vera við jarðarför svo þessvegna var ákveðið að útförin færi fram á facebook.

Þetta gekk ágætlega fyrir sig í megindráttum en mér fannst samt ægilega kjánalegt að sjá gula grátkalla og endalausar raðir af bleikum hjörtum á veggnum.

Þegar ég vaknaði dæsti ég yfir ruglinu sem fer fram í hausnum á mér í svefni. Ég er samt ekkert viss um að jarðarfarir á facebook séu langt undan.