ENGINN hefur talað fyrir öfugri sönnunarbyrði, svo hversvegna í ósköpunum er Eva að búa til vandamál?

Jú ég skal segja ykkur það. Í fyrsta lagi er ég ekki að búa til vandamál heldur að leita farsælli lausna á raunverulegum vandamálum en ég kem nánar að því síðar. Afgreiðum fyrst spurninguna um það hvort sé kannski eitthvað til í því að einhverjum finnist öfug sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum góð hugmynd.

Svarið er já, þeir eru til. Ég hef m.a.s. sjálf talað fyrir öfugri sönnunarbyrði. Ekki opinberlega, held ég að mér sé óhætt að fullyrða, enda mjög langt síðan ég áttaði mig á því að heimurinn er ekki svart-hvítur (sem væri óneitanlega mun þægilegra og sá sem ber ábyrgð á því að samskipti skuli vera svona flókin, ætti að sæta refsingu) en já á tímabili fannst mér túlkun helvítis nauðgarans á því sem hafði gerst, bara ekki skipta neinu fokkans máli. Konan hefði enga ástæðu til að ljúga, svo það að taka hennar orð fyrir því hvað hefði gerst, væri bara ágæt lausn. Já, þetta fannst mér bara, svona um 25 ára aldurinn, og þessi hugmynd mín fékk prýðisgóðar undirtektir hvar sem ég ræddi hana.

Kynferðisbrot eru nefnilega þess eðlis að það væri mjög einkennilegt ef enginn liti á öfuga sönnunarbyrði sem lausn. Við stöndum frammi fyrir vandanum, orð gegn orði, örvæntingarfull og ráðþrota, við þekkjum öll einhvern sem þekkir dæmi um einhvern sem hefur verið ásakaður um kynferðisbrot, getur hreinlega ekki trúað því upp á hann og grípur til þess að væna þolandann um lygi. Það væri beinlínis óeðlilegt að hugsa ekki út í möguleikann á öfugri sönnunarbyrði enda hefur það sannarlega verið gert.

Umræðan um öfuga sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum, hefur komið upp hvað eftir annað, ég man fyrst eftir henni hjá Stígamótakonum á fyrsta starfsári samtakanna, var það ekki 1988? Þetta var rætt í Morgunblaðinu snemma árs 2005. Lögmenn hafa hvað eftir annað varað við þessari hugmynd – undarlegt að eyða púðri í að vara við hugmyndum sem enginn hefur ymprað á (það má skrifa y – Snara segir það) og þetta viðhorf skín víða í gegnum umræðuna í dag, t.d. hér, og hér og hér. Það skal þó tekið fram svo allrar sanngirni sé gætt að leyniskyttan tónar kröfuna heldur niður hér og þar erum við komin að næstu rökum þeirra sem móðgast yfir því að ég skuli vekja máls á hættunni á öfugri sönnunarbyrði: það er ekki það sem þær meina.

Nei, þær meina ekki að það eigi að eigi að taka upp öfuga sönnunarbyrði, þær meina bara að það eigi að slaka á sönnunarkröfum, „endurmennta réttarkerfið“ gera það minna „karllægt“, hvað sem það nú merkir, og svo kannski það að samfélagið eigi að sameinast um að taka mark á konum sem segja frá kynferðisofbeldi. Þær ætla ekki að dæma saklausa menn, auðvitað ekki. Þær eru bara ráðþrota og þá kemur þessi stórhættulega hugmynd fram, því eitthvað verðum við að gera.

Elskurnar, þetta virkar ekki svona. Við breiðum ekki út almennt samfélagsviðhorf en ætlum svo réttarkerfinu að hugsa á allt annan hátt. Auk þess eru þær aðferðir að slaka á sönnunarkröfum og byggja dóma á greiningum sálfræðinga, ekkert annað en öfug sönnunarbyrði í dulargervi en það er efni í annan pistil. Ef við viljum að almenningur sameinist um að gefa orðum kvenna sem kæra kynferðisofbeldi meira vægi en orðum karla sem segja sig borna röngum sökum, þá hljótum við að ætlast til þess að réttarkerfið geri það líka, hver sem réttlætningin er.

Þessi umræða, sem og sú stefna að þyngja dóma og taka upp víðari skilgreiningu á kynferðisofbeldi, er vel meint. Rót hennar er hjartanleg umhyggja fyrir konum sem eiga um sárt að binda. Hvort aðferðin, að trúa konum skilyrðislaust og hlusta ekki á helvítis níðinginn, er góð og árangursrík er svo annað mál. Mér segir svo hugur um að aukin harka og víðari skilgreiningar, muni fyrr eða síðar snúast gegn okkur og gera þessi mál ennþá erfiðari. Það sem við þurfum að gera, og ég er ekkert að grínast; er að slaka á vandlætingunni og gefa frásögn nauðgarans meira vægi. Já ég sagði það, við þurfum að sýna kynferðisbrotamönnum ákveðna samúð, við þurfum að gefa nauðgaranum rödd.

Ég reikna með að einhverjir séu þegar hættir að lesa og búnir að afgreiða mig sem nauðgaravin. Gott og vel, það verður ekkert hjá því komist að fólk fari á límingunum þegar þessi mál eru rædd. En þið hin, sem eruð viðræðuhæf, spáið aðeins í það  hvað er að gerast. Sjáið þetta.  Hér segir ung stúlka frá því að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi í fjögur ár samfleytt, án þess að gera sér grein fyrir því  og „nauðganir í samböndum…“ eru orðin sem notuð eru til kynningar.

Þar sem þolandi kynferðisofbeldis er, þar er einnig gerandi. Ungur maður í þessu tilviki. Stúlkan gerði sér ekki grein fyrir því að hann var í raun og veru að nauðga henni, svo þá vaknar spurningin, gerði hann sér eitthvað frekar grein fyrir því sjálfur? Hverjar eru líkunar á því að ungi maðurinn, fyrrum kærastinn sem horfir á þetta myndband, hugsi sem svo, „nújá, ég nauðgaði henni óvart í fjögur ár. Ansans vesen að vera svona mikill klámfíkill, best að ég leiti mér hjálpar og hætti að vera nauðgari.“  Neeei, ætli sé ekki öllu líklegra að hann bregðist við með reiði og úthrópi stelpuna sem lygasjúka druslu?

Hugsum okkur ungan mann, 19 ára strák sem rankar við sér eftir hrottalegt amfetamínfyllirí. Pabbi og mamma ætla ekkert að umbera þessa hegðun, það er á hreinu. En þau ætla ekki að snúa við honum baki, heldur gera honum grein fyrir því að nú sé bara nóg komið. Og hvað er það fyrsta sem þau gera? Jú þau spyrja:

„Þorsteinn, hvað gerðist í nótt? Hvað fékk þig til að hegða þér svona?“

Þau spyrja, vegna þess að þau hafa þekkt drenginn í 19 ár og þau vita að það er vonlaust að ætla að ræða við hann með því að hella sér yfir hann. Útskýringarnar eru sennilega mjög vondar og þá er komið að pabba og mömmu:

„Þorsteinn, það er engin afsökun þótt hann hafi móðgað þig. Við erum búin að heyra lýsingar á því hvernig andlitið á honum Sigurjóni er útleikið eftir þig. Þorsteinn, þú lamdir mann! Það er bara mildi að hann slapp óbrotinn og hann er alvarlega að íhuga að leggja fram kæru. Heldurðu í alvöru talað að það sé ekki að verða tímabært að þú gerir eitthvað í þínum málum?“

Auðvitað er ekkert víst að þessi ræða hafi áhrif. Kannski er Þorsteinn fársjúkur alkóhólisti og ofbeldismaður og kannski á hann eftir að sitja af sér marga og langa dóma vegna líkamsárása en hann hefur val. Hann á þess ennþá kost að horfast í augu við sjálfan sig og samfélag sem umber ekki hegðun hans. Hann getur viðurkennt vandann, leitað sér hjálpar og fengið fyrirgefningu. Jafnvel þótt hann verði sakfelldur og sitji af sér einn dóm, á hann ennþá kost á fyrirgefningu. Hann á möguleika á því að hegðun hans verði skoðuð sem merki um sjúklegt ástand, ástand sem hægt er að binda endi á.

Ímyndum okkur svipaða senu þar sem ungur maður rankar við sér eftir samskonar amfetamínfyllirí og er krafinn skýringa á hegðun sinni. Ekki stendur á réttlætingum en svar pabba og mömmu við þeim er á þessa leið:

„Guðjón, það er engin afsökun þótt þið hafið verið saman áður. Það eru vitni að því í hverskonar ástandi hún Sigrún var eftir að þú fórst heim í nótt. Guðjón þú fórst upp í rúm til dauðadrukkinnar stúlku og nauðgaðir henni! Það er bara mildi að hún sýndi þá skynsemi að fara ekki að slást við þig því við vitum ekki hvernig það hefði farið, og hún er alvarlega að íhuga að leggja fram kæru. Heldurðu í alvöru talað að það sé ekki að verða tímabært að þú gerir eitthvað í þínum málum?“

Reyndar er ótrúlegt að þetta samtal fari nokkurn tíma fram. Líklegast er að foreldar Guðjóns séu nú þegar búnir að taka þá afstöðu að Sigrún sé einfaldlega lygasjúk drusla, því þau þekkja Guðjón og þótt hann sé vissulega erfiður í samskiptum, er hann ekki hreinræktað skrímsli. Þeirra fyrstu viðbrögð við sögunni eru að leita allra skýringa annarra en þeirrar að sonur þeirra sé nauðgari. Hún var blindfull stelpan og man þetta sennilega ekkert betur en hann. Hún hefur nú svosem átt það til að mála heiminn sterkum litum og það er andskotinn hafi það of langt gengið að ásaka drenginn um nauðgun þótt hún sé með þynnkumóral eftir að hafa legið undir þremur sömu helgina… O.s.frv.

En setjum nú samt sem svo að foreldrar Guðjóns séu óvenju víðsýnt fólk. Ímyndum okkur að þau trúi sögu Sigrúnar og hermi þessa hegðun upp á hann; hvað á Guðjón þá að gera? Á hann að viðurkenna að hann sé NAUÐGARI? Over my dead body, það er ekki séns í helvíti. Guðjón hefur nefnilega lesið það sem fólk segir um nauðgara á netinu. Hann veit hvert viðhorf almennings er. Hann veit að almennt er talið að menn sem nauðga séu fullkomlega samviskulausar skepnur, skrímsli sem ekki er viðbjargandi. Menn sem hætta bara ekki. Karlar sem hata konur. Menn sem stjórnast ekki af kynhvöt, heldur af löngun til að meiða og niðurlægja og svo mikið veit Guðjón að þótt hann hafi kannski gleymt öllum mannasiðum, þá var hann náttúrulega fyrst og fremst rosalega graður og Sigrún var eiginlega búin að gefa honum vilyrði, og hann hélt ekki að hún tæki þessu svona og…

Guðjón veit líka alveg hvað almenningur vill gera við nauðgara. Hér eru nokkrar hugmyndir sem hafa verið ræddar í netheimum:

-Skera undan þessu.
-Tattóvera „níðingur“ á ennið á þeim.
-Flá þá lifandi.
-Halda úti sérstakri netsíðu með nöfnum þeirra og myndum af þeim.
-Gelda þetta bara og loka það inni upp á vatn og brauð.
-Henda þeim fram af Ölfusárbrúnni.
-Hýða þá opinberlega.
-Loka þá inni og leyfa þeim að fá útrás fyrir viðbjóðslegar hneigðir sínar með því að nauðga hver öðrum.
-Gálga á Austurvöll takk.
-Ævilangt fangelsi án nokkurs möguleika á náðun, EVER!
-Hengja upp myndir af þeim á opinberum stöðum.
-Láta þá koma fram opinberlega og viðurkenna að þeir séu nauðgarar.
-Brenna þá lifandi.
-Taka upp öfuga sönnunarbyrði.

Þetta eru semsagt lausnirnar sem eru viðraðar, og á sama tíma ætlumst við til þess að ungir piltar sem sýna stúlkum tillitsleysi og dónaskap eða hafa beitt vinkonur sínar þrýstingi til að ganga lengra í kynferðisathöfnum en þær eru tilbúnar til, kannist við sjálfa sig sem nauðgara. Aldeilis raunhæft markmið eða hvað?

Það er áfall að verða fyrir ofbeldi í nánu sambandi, jafnvel þótt það ofbeldi gangi ekki að þolandanum hálfdauðum. Það er nauðsynlegt að þær konur sem verða fyrir því fái áheyrn. En ef við máum út skilin á milli hrottalegra líkamsárása og þvingana sem eru ekki grófari en svo að hvorugur aðilinn er viss um hvort rétt sé að flokka það sem ofbeldi, þá erum við um leið að loka á möguleika gerenda sem hafa beitt mjög vægri tegund kynferðisofbeldis, til þess að horfast í augu við sjálfa sig, hvað þá að játa hegðun sína fyrir öðrum.

Kynferðisofbeldi verður ekki upprætt með hatri, útskúfun, víðari skilgreiningum á nauðgunum og þyngri dómum. Það er hinsvegar hugsanlegt að með því að viðurkenna þvinganir og aðra óþolandi kynhegðun sem hegðunarvandamál fremur en merki um ónýtan persónuleika, með því að spyrja „hvað gerðist í hausunum á þér“ frekar en að hrópa „þú ert viðbjóður!“ verði hægt að fá unga menn til að hugsa sinn gang, áður en þeir valda einhverri stúlkunni óbætanlegu tjóni.