Söngur sauðkindarinnar

Í gulum skátagöllum
í gegnum snjóél hörð
í október við brutumst
til að bjarga týndri hjörð.
Þá undan fótum okkar
svo ámátlegt barst jarm
sem nísti gegnum nef og hjarta
og nið’rí endaþarm.

#Ég kvalin er kind
ég kvalin er kind
mig gangnamenn eltu
um grundir og tind.
ég stakk af en stormur
og stórhríðin blind
í staðinn mig hremmdu
Ég kvalin er kind.#

Fast á fimmtu viku
í fönninni ég lá
ósjálfbjarga, innilokuð
ekkert hey að fá.
Ég heyrði lömb mín hljóða
af hungri dag sem kvöld
og harmi slegin hef ég nagað
hræin þeirra köld.

Við hjuggum gat í harðskafann
því heyrt hef ég það sé
ólöglegt með öllu
að eta sjálfdautt fé.
Á skátabílnum brunuðum við
beint í sláturhús
og ég mun éta hangikjöt
um jólin, ásamt mús.

Um djarfa framgöngu lögreglunnar gegn helsta ógnvaldi bandaríska sendiráðsins

Á stöðinni sátu Geir og Grani
er geigvænlegt barst þeim neyðarkall
við ameríkanska embassíið
var Osama kominn upp á pall.
’Til varna grípum’ Geir Jón kvað,
’því götuskríllinn heimar blóð.
Ofstopafullir andófsfautar
ógna nú vorri herraþjóð.

Blýantinn greip og skýrslu skráði
skelfingu lostið yfirvald.
Sat fyrir utan sendiráðið
sjúkraliði með pappaspjald.

Kylfurnar munda kappar vorir.
Hver fær að lemja óþokkann?
Því labbandi eftir Laufásvegi
er Lárus Páll við þriðja mann.
Með skilti að vopni og víkur ei
þótt varðhundarnir flykkist að.
’Stríð er glæpur’ stendur skrifað
stéttinni ógnar þvílíkt blað.

Blýantinn greip og skýrslu skráði
skelfingu lostið yfirvald.
Sat fyrir utan sendiráðið
sjúkraliði með pappaspjald.

Mikið er uppnám innandyra
og einn hefur kúkað upp á bak
en löggurnar djarfar Lárus grípa,
léttir þá öllum óttans tak.
Þeir troða Lalla í löggubíl
og lesa honum bófans rétt
en friðardólgins fylgisveinar
flýja af hinni helgu stétt.

Blýantinn greip og skýrslu skráði
skelfingu lostið yfirvald.
Sat fyrir utan sendiráðið
sjúkraliði með pappaspjald.

Þeir drógu hann fyrir dóm og vildu
að dónanum yrði refsing gerð.
Óhlýðni hans við yfirvaldið
ámælis þótti dómnum verð.
’Vér sekan dæmum svoddan þrjót.’
Og samt hann sýnir hvergi bót.
Hann staðhæfir enn að stríð sé glæpur
og stéttina virðir ekki hót.