Ullargarnsdraumur

Sofnaði og dreymdi að ég væri í prófi. Það var bara eitt verkefni á prófinu: „Fjallaðu um fjárstjórnarvald Alþingis í víðu samhengi“ og ég skrifaði:

1. Skattlagningarvald.
2. Fjárveitingarvald.

Á milli þessara tvíburaturna er vítt samhengi og teygjanlegt, fullt af appelsínugulu ullargarni.

 

Jarðarför á facebook

Í nótt dreymdi mig að íslenskur tónlistarmaður sem leit út eins og Mugison en var samt einhver annar, hefði látist af slysförum í útlöndum.

Þar sem reglugerð Landbúnaðarráðuneytisins heimilaði ekki innflutning á hráu kjöti var ekki hægt að flytja líkið heim og facebook logaði af skítkasti út í Jón Bjarnason.

Ættingjarnir neyddust til að grafa tónlistarmanninn, sem reyndist vera bróðir Bjarkar Guðmundsdóttur, í útlöndum. Ekki þótti raunhæft að reikna með að allir sem vildu kveðja hann færu utan til þess að vera við jarðarför svo þessvegna var ákveðið að útförin færi fram á facebook.

Þetta gekk ágætlega fyrir sig í megindráttum en mér fannst samt ægilega kjánalegt að sjá gula grátkalla og endalausar raðir af bleikum hjörtum á veggnum.

Þegar ég vaknaði dæsti ég yfir ruglinu sem fer fram í hausnum á mér í svefni. Ég er samt ekkert viss um að jarðarfarir á facebook séu langt undan.

Utangarðs

Merkilegir hugmyndakokteilar sem verða til í hausnum á manni í einhverju meðvitundarleysi.

Keli gaf mér alla fyrstu seríuna af þeim snilldarsjónvarpsþáttum „Six Feet Under“ í afmælisgjöf og nú er ég loksins búin að gefa mér tíma til að sjá þá. Þeir sýna líf fjölskyldu sem rekur útfarastofu svo dauði og greftrun koma heilmikið við sögu. Halda áfram að lesa