Konan sem kláraði smjörið

Myndin er skjáskot úr myndbandi (youtube.com/watch?v=2WBRloSIEf8)

Mig dreymdi að ég hefði gefið út ljóðabók sem hét Konan sem kláraði smjörið og var svo framúrstefnuleg að ég skildi ekki orð í henni sjálf. Ég hafði einhverjar efasemdir um að hún myndi seljast í bílförmum en vissi að ég var dottin í lukkupottinn þegar Gísli Ásgeirsson tók upp á því að auglýsa hana í Costco hópnum.

Ég sagði frá draumnum á Facebook (þegar ég var vöknuð semsagt) og Gísli Ásgeirsson svaraði að bragði

„Samkvæmt draumheimildum mínum (sem ég tel næsta öruggar) er þetta fyrsta ljóðið í bókinni.

Mest er hún fyrir fjörið
og fyllir helst á sér rörið
kátínan dafnar
því kílóum safnar:
Konan sem kláraði smjörið.“

Großer Dummkopf

Mig dreymdi að aðstoðarmaður SDG, að nafni Gunni, hringdi í mig (við töluðum í skífusíma með gormasnúru eins og var á öllum heimilum 1975). Erindið var að bjóða mér lögmannsréttindi „undir borðið“ út á það að sækja mál gegn þýska ríkinu, en ríkisrekið dagblað hafði kallað SDG „Großer Dummkopf“.

Það sem stóð meira í mér en spillingin og efasemdirnar um að væri heppilegt að fara út í málflutning án þess að hafa lært neitt í réttarfari, var það að samúð mín var með blaðamanninum. Auk þess fannst mér hallærislegt að tengjast „Großer Dummkopf-málinu“.

Ég sagði Gunna að þetta væri aumingjaleg sneið af spillingunni og hvort hann gæti ekki boðið eitthvað fullorðins. Kveikti svo á upptökubúnaði sem var innbyggður í snúrusímann. Vaknaði í klemmu yfir því að vera eiginlega eins og Stasi en varð samt hrikalega fúl þegar ég áttaði mig á því að það var engin upptaka.

Heilaryksugan

Mig dreymdi að búið væri að finna upp heilaryksugu, sem hreinsaði burt dauðar frumur og önnur óhreinindi sem settust í heilafellingarnar og ollu elliglöpum. Svona eitthvað líkt og þegar tölvan verður hægvirk og þarf að hreinsa hana. Þetta var frekar einföld aðgerð, bara boruð nokkur göt í höfuðkúpuna, ryksugað og heilinn svo skolaður með edikblöndu. Tækið leit út eins og lyklaborðsryksuga með löngum, sveigjanlegum stút. Mig langar í svona tæki.

Andmælarétturinn

Draumfarir að morgni eftir andvökunótt:

Einar segir mér að Umboðsmaður Alþingis sé að koma í mat og að það sé best að gefa honum „andmælarétt“ og hafa kartöflubáta með. Var samt ekki að segja fimmaurabrandara heldur var þetta mjög djúp speki úr einhverjum frönskum réttarheimspekingi sem ég hef aldrei heyrt nefndan.

UA var ekki Tryggvi heldur eitthvert nördabarn úr ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar sem var samt Sjálfstæðisflokkurinn, og ég nennti eiginlega ekki að fá hann í mat. Ég byrjaði samt að setja sólþurrkaða tómata í stóra glerskál (ekki veit ég hvað ég ætlaði að gera við þá) en var svo allt í einu komin með UA niður á Austurvöll en við vorum að fara að kaupa jólagjafir. Ekki veit ég handa hverjum en ég var eindregið á þeirri skoðun að við gætum bæði varið tíma okkar betur.