Nýja málshætti takk

paskaeggid-688x451

Ég sé á Fésbókinni að sumir eru búnir að laumast til í skoða í páskaeggið og málshátturinn er það fyrsta sem þeir éta. Ofan í sig semsagt. Ef eitthvert vit er þá í málshættinum en fyrir því er aldrei nein trygging. Rím og stuðlar láta málshætti hljóma viturlega en þeir auka ekki endilega sannleiks- og vísdómsgildi þeirra. Geta jafnvel verið villandi. Þetta veit vinkona mín, sem notar gjarnan málsháttinn margur er knár, án frekari skýringar, enda eru knáindi manna líkamsvexti þeirra óviðkomandi.

Oft er flagð undir fögru skinni er álíka sönn speki. Undir mörgum fögrum skinnum leynast nefnilega hreinustu englar. Þess má geta að ég hef orðið vitfirringslega ástfangin af forljótum mönnum, sem gáfu mér nýjan skilning á orðinu drullusokkur. Dreg af því þá ályktun að ankannalegt útlit sé engin trygging fyrir fjarveru fláræðis og flagðabragða.  Gallinn er sá að oft er flagð er ekki góð setning. Margur er flagð, væri kannski betra. Eða ekki. Auk þess finnst mér málsháttur ekki réttur nema hann feli í sér stuðla eða rím. Ég tek hér með upp nýjan málshátt og álíka sannan til mótvægis við gamla bullið: Margur er þrjótur, þótt hann sé ljótur.

Það er annars umhugsunarefni hvað bætist hægt í málsháttaflóruna og í raun merkilegt hvað gamlir málshættir eru lífseigir því nú notum við ekki lengur aska, hvorki undir bókvit né graut, og fáar konur eyða síðkvöldum við spunarokk, hvað þá naktar. Gaman að því samt en bætum endilega við.

Hér eru nokkur dæmi um málshætti sem ekki eru orðnir mölétnir fyrir löngu. Sumir hafa náð nokkurri útbreiðslu, aðrir eru svo til óþekktir enn. Ég ætla samt ekki að lofa neinu um vísdómsgildi þeirra. Gaman væri ef lesendur vildu bæta við nýlegum málsháttum sem þeir hafa heyrt eða samið sjálfir.

 • Að kveldi skal læk lofa og ummælum eyða.
 • Aldrei er góð ýsa of oft étin.
 • Betra er hórlífi en harðlífi.
 • Betri er einn fugl í ofni en tveir í frysti.
 • Betri eru læti en ranglæti.
 • Ekki er jakki frakki nema síður sé.
 • Enginn skyldi í annars garði skíta.
 • Enginn veit hvað átt hefur fyrr en flutt hefur.
 • Enginn verður óbarin klessa.
 • Fermt barn forðast prestinn.
 • Gerðu aldrei í dag það sem hægt er að láta einhvern annan gera á morgun.
 • Margur er keikur þótt hann sé veikur.
 • Margur er með kökk þótt hann grenji ekki.
 • Margur er sjúkur, þótt hann sé mjúkur.
 • Mínúta í munni, mánuði á mjöðm.
 • Neyðin kennir góðum strák að stela.
 • Neyðin kennir naktri konu súludans.
 • Oft er frestur á illu bestur.
 • Oft er nunnunni ábóta vant.
 • Oft er ólán í bankaláni.
 • Oft eru látin hjón lík.
 • Oft kemur svangur þá étið er.
 • Oft má seigt kjöt tyggja.
 • Sá vægir sem veit ei hvað skal segja.
 • Sitt er hvað Jón eða milljón.
 • Sjaldan fara sköllóttir í hár saman.
 • Sjaldan fellur gengið langt frá krónunni.
 • Sjaldan fellur víxill langt frá gjalddaga.
 • Svo skal böl bæta að bíða aðeins.
 • Sælla er að gefa góð ráð en þiggja.
 • Til þess eru vítin að skora mark.

Deila færslunni

Share to Facebook