Aðgerðaröðin í Kúst og fæjó

Þetta með kúst og fæjó – textahöfundur virðist ekki hafa mikið verksvit. Maður sópar vitanlega áður en maður setur tertuna á borðið. Það er ekki gaman að vera með kústinn á fullu þegar gestirnir koma en það er allt í lagi að setja veitingarnar á borðið þegar allir eru komnir og reyndar setur maður ekki aðrar veitingar á borðið en drykki og hugsanlega einhvern lystauka áður en gestirnir koma nema maður sé með stórveislu. Svo er maður ekki að þrífa þegar er korter í gestina og maður á enn eftir að marinera öndina. Og ætlar hún að hafa tertuna á undan öndinni eða á tertan að standa á borðinu og draga í sig lyktina af kjöti og sósu?

Þetta er grátlegt dæmi um skipulagsleysi og ég yrði ekki hissa þótt kæmi á daginn að hún hefði klætt sig í sparigallann áður en hún þreif og komið til dyra stífmáluð og ilmandi með fægiskúffuna í annarri hendi og úlnda tusku í hinni.

Aðgerðaröðin í þessum saumaklúbbsundirbúningi hefði vitanlega átt að vera þessi:

1 Marinera öndina og ljúka öðrum undirbúningi í eldhúsinu.
2 Stífa dúkana
3 Þrífa
4 Leggja á borð en ekki samt setja matinn á borð fyrr en allir eru komnir

Þessar vinkonur virðast reyndar vera frekar óspennandi félagsskapur en ég verð að hrósa höfundi fyrir að missa sig ekki í meðvirkni með vinkonunum sem tala ekki saman með því t.d. að bjóða bara annarri þeirra. Fólk á að taka ábyrgð á sínum árekstrum sjálft og gullna reglan sú að bjóða öllum sem mann langar að bjóða og henda þeim svo út sem reynast ekki kunna að hegða sér.

Deila færslunni

Share to Facebook