Við getum ekki bjargað öllum með handafli

Auðvitað er ég sammála Heiðu um að við eigum að bjarga þeim núna.

Vandamálið er bara það að ef vandamálið er innbyggt í kerfið þá verða það aðeins þeir sem bera sig eftir því, þeim sympatískustu og þeir viðfelldnustu sem fá hjálp. Þetta á við á öllum sviðum, hvort sem við hugsum um sjúklinga og aðstandendur þeirra, flóttamenn, fólk í fjárhagsvanda, þolendur heimilsofbeldis eða eineltisbörn. Gott mál ef þessi fjölskylda fær aðstoð frá áhugafólki en við ætlum að byggja velferðarkerfi á söfnunum meðal áhugafólks, þá verða þeir útundan sem funkera illa félagslega eða bera ekki sorgir sínar á torg.

Að sjálfsögðu geta björgunaraðgerðir stuðla að kerfisbreytingum og þegar fólk í neyð býr við kerfi sem bregst þá er ekkert um annað að ræða en að þeir sem hafa samúð með því hjálpi til. Hinsvegar er það ekki nóg, við verðum að breyta kerfinu þannig að fólk geti veikst eða átt veik börn án þess að missa heimili sín. Það er óþolandi að fólk þurfi að reiða sig á ölmusu.