Vg hljóta að gera sjálf það sem þau ætlast til af öðrum

Þessi mynd hefur birst á ótal vefsíðum, ég hef ekki hugmynd um hver rétthafinn er

Ég býst við að flestum finnist þetta orðið þreytt umræðuefni en ég reikna með að vera  með innrásina í Afrín á sálinni þar til íslensk stjórnvöld sjá sóma sinn í því að fordæma hana og ofsóknir gegn Kúrdum yfirleitt.

Í ágúst 2016 hvatti þingflokkur Vinstri grænna stjórnvöld til að fordæma á alþjóðavettvangi mannréttindabrot Tyrkja gegn Kúrdum. Þáverandi formaður Vg, Katrín Jakobsdóttir, gegnir enn formennsku í flokknum og er auk þess forsætisráðherra Íslands. Katrín brást tafarlaust við erindi bróður míns þegar hann bað um aðstoð hennar við að koma íslenskum stjórnvöldum í beint samband við stjórnvöld í Tyrklandi til að afla áreiðanlegra upplýsinga um sonar míns. Við erum henni hjartanlega þakklát fyrir þá röggsemi sem hún sýndi þar. Haukur er ekki hjá Tyrkjum en Tyrkir eru enn í Afrín og nú vænti ég þess af Katrínu að hún sýni Kúrdum þann samhug sem hún hefur sýnt okkur, aðstandendum Hauks.

Ég reikna ekki með að Erdoğan tæki það nærri sér þótt ég segði honum hvað mér finnst um „ólífuviðaraðgerðina“. Honum gæti hinsvegar þótt óþægilegt ef íslenska ríkið fordæmdi hana á alþjóðavettvangi. Þótt fordæming íslenskra stjórnvalda breyti ekki beinlínis neinu fyrir Kúrda þá skiptir máli að finna fyrir samstöðu. Kúrdar eiga enga vini nema fjöllin og örlítill samstöðuvottur frá einu smáríki í Norðrinu er skárri en þessi ærandi þögn.