Útilega – dagur 3 – Svínafellsjökull

Ég hafði aldrei stigið fæti á jökul og þótt ég sé ekki svo hrifin af áhættusporti að mig langi í ísklifur eða að klöngrast yfir jökla dögum saman, hefur mig samt langað ponkulítið að prófa að stíga á jökul, bara til að vita hvort það er eitthvað líkt því að ganga um götur Reykjavíkur í febrúar. Það er búið að loka vegarslóðanum að Breiðamerkurjökli en við komumst að Svínafellsjökli.

Við Mouhamed vorum bæði ofurlítið smeyk. Þótt sé ekki hált þar sem jökullinn er hulinn sandi og möl eru samt sprungur í ísinn og sumsstaðar leðja og þar getur verið hált undir.

Við hættum ekki á að fara langt inn á jökulinn enda ekki búin til þess en þetta var skemmtileg upplifun og alveg hrikalega fallegt.

Rétt hjá tjaldstæðinu var alveg skraufþurr árfarvegur. Við söfnuðum saman þurrum sprekum og kveiktum lítið bál, bara rétt nóg til að grilla pylsurnar.

Um nóttina svaf ég í ullarsokkum og reimaði svefnpokann þéttar að mér. Ég svaf lika í útvistarnærfötum og renndi bolnum alveg upp í háls. Ég hafði verið berfætt í pokanum fyrstu nóttina og í bómullarnáttfötum, mæli ekki með því. Lofthitinn var meiri en fyrri nóttina og í þetta sinn var mér alveg hlýtt. Renndi pokanum m.a.s. niður undir morgun. Ef ég reyni að sofa í tjaldi aftur mun ég klæðast á þennan hátt. Held að sokkarnir skipti mjög miklu máli. Mouhamed var ekkert kalt, hvorki fyrri né seinni nóttina. Einari náttúrulega ekki heldur en ég ber mig nú ekkert saman við hann.

Við fórum í gönguferð upp í gil sem er þarna nálægt um kvöldið. Það var dálítið ævintýralegt umhverfi en því miður höfðum við skilið myndavélina eftir.

Ekki amalegt útsýni frá þessu tjaldstæði

 

Við vöknuðum í smá rigningu og ég hélt að þetta myndi kannski enda illa en þetta var algjörlega í lagi. Það var logn og það var hætt að rigna þegar við fórum að drekka kaffið og við vorum vel klædd og settum gúmídýnu undir okkur. Ekkert mál að taka tjöldin saman og engum varð kalt. Enduðum svo ferðina á því að fara í sund á Kirkjubæjarklaustri og þaðan í sjoppuna. Reyndar væri alveg efni í blogg að taka út allar vegasjoppur landsins og tékka á því hvort pyslurnar eru nógu heitar, hvort starfsfólkið kann að dýfa ís og hvort klósettin eru í nothæfu ástandi.

Ég er eiginlega bara mjög ánægð með þessa ferð. Hef ekki einu sinni fengið strengi. Getur bara vel verið að ég prófi aftur.