Út um rassgatið á sér

Stundum efast ég um að fólk geti virkilega verið eins vitlaust og það gefur sig út fyrir að vera. Umræðurnar á Moggablogginu í framhaldi af uppákomu nokkurra aktivista í Kringlunni í gær eru gott dæmi. Hver bloggarinn af öðrum lýsir hneykslun sinni en virðist ekki hafa áttað sig á því hvað málið snýst um.

Í viðtali við talsmann hópsins kemur greinilega fram að tilgangurinn var sá að mótmæla þeim gífurlegu völdum sem stórfyrirtæki hafa í heiminum. Uppákomum af þessu tagi er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um það hvert það beinir viðskiptum sínum, vegna þess að völd risafyrirtækja á borð við Coca-cola, Nike og Alcoa, svo aðeins fáein séu nefnd, helgast af gengdarlausri neyslu og áhrifagirni almennings. Það eina sem getur dregið úr áhrifum stórfyrirtækja er að almenningur temji sér gagnrýna hugsun og hætti að hegða sér eins og sáluhjálp felist í ofneyslu.

Unga fólkið sem mætti í Kringluna í gær beitti friðsamlegum mótmælaaðferðum. Þau beittu ekki ofbeldi, frömdu ekki skemmdarverk, stöðvuðu ekki einu sinni vinnu. Það eina sem þau gerðu var að fremja afskaplega auðtúlkanlegan gjörning, þar sem neyslusamfélginu er líkt við trúarofstæki. Fyrir þetta eru þau úthrópuð á moggablogginu sem „lið“, „kjánar“ og „aumingjar“.

Slíkt er svosem ekki svaravert en þar sem ég er ritglöð í meira lagi og hef meiri löngun til að tjá mig hér en að fara í ræktina, ætla ég að koma á fram færi nokkrum athugasemdum:

Stórfyrirtæki eru ekki „höndin sem fæðir okkur“ eins og einn Mogginn kemst að orði heldur höndin sem heldur stórum samfélagshópum og jafnvel heilu menningarsamfélögunum í fátækt.

Einn Moggblogginn spyr hve mörg þeirra eigi i-pod. Ekki veit ég hvaðan sú hugmynd kemur að tækjaeign sé almennari meðal aktivista en annarra samfélagshópa en ég get upplýst hér og nú að sú hugmynd er alröng. Flestir aktivistar leggja sig fram um að forðast viðskipti við risafyrirtæki, kaupa ekki aðra hluti en þá sem þeir nota raunverulega og kaupa ekki nýja hluti heldur nýta frekar það sem aðrir hafa hent, bæði til að forðast að taka þátt í neyslufirringunni og til að draga úr sorpmegnun.
haukurEinn talar um þau sem hræsnara af því að einhver þeirra liti á sér hárið og það sé nú ekki umhverfisvænt! Auðvitað dettur engum í hug í alvöru að líkja því að lita á sér hárið við mengun frá stórfyrirtækjum. Þetta er svona álíka skynsamleg röksemdafærsla og að segja að hver sá sem einhverntíma gerir sig sekan um ósanngirni gagnvart vini sínum, sé þar með búinn að fyrirgera rétti sínum til að mótmæla skipulögðum fjöldamorðum stjórnvalda.

Sumum finnst í sjálfu sér allt í lagi að mótmæla neysluhyggju, bara ekki í umhverfi eins og Kringlunni, þar sem fólk hefur hvað greiðastan aðgang að vörum sem eru framleiddar af þrælum og auglýstar eins og þær séu lykilinn að hamingju og velferð í heiminum. Vitanlega væri miklu þægilegra fyrir neyslusamfélagið að fólk væri bara látið í friði með sitt verslunaræði og mótmælendur héldu sínar samkomur úti í sveit þar sem þeir trufla engan og „höndin sem fæðir okkur“ getur tekið við meiri peningum án óþægilegra athugasemda en svona ykkur að segja; leikurinn var EKKI til þess gerður að auka þægindi nokkurs manns.

Ein mannvitsbrekkan bendir á að fólkið sé sjálft klætt „neysluvörum“. Vitanlega eru þau klædd neysluvörum, en ekki hverju? Allt sem við notum er neysluvara. Ég sé hins vegar ekki einn einasta mann í þessum hópi klæddan (eða bera á sér) þekkt vörumerki. Þar sem umræddur ruglubloggari komst inn í Lagadeild HÍ, getur hann varla verið svo heimskur að hann sjái ekki muninn á því að klæðast og nærast og að hlaupa hugsunarlaust á eftir öllu því auglýsingaskrumi sem er troðið upp á okkur frá blautu barnsbeini, nánast eins og það væru trúarbrögð. Öllu líklegra er að hann sé að vonast til þess að lesendur hans séu nógu vitlausir til að trúa því. Áfram heldur laganeminn og staðhæfir að greindarvísitala mótmælenda sé um og undir 30. Það er álíka trúverðugt og annað sem hann hefur um þetta að segja.

Mín skilaboð til laganemans Vilhjálms Andra Kjartanssonar eru þessi: Leggðu miiiikla vinnu í að læra skólabækurnar þínar gæskur. Þig skortir greinilega þá mælsku sem þarf til að fólk taki mark á þér og órökstutt skítkast mun ekki gagnast þér ef að því kemur að þú þurfir að rökstyðja mál fyrir rétti.

Til annarra sem ekki eru sáttir við uppákomur á borð við þessar: Gagnrýnið endilega þessi fáu ungmenni sem sjá eitthvað athugavert við það hvernig er staðið að svokallaðri alþjóðavæðingu (sem er í raun réttur hinna ríku samfélaga til að selja þeim fátæku og veiku og réttur ríkra fyrirtækja til að þrælka þá fátæku og veiku). Mótmælendur eru ekki yfir gagnrýni hafnir frekar en annað fólk. En gagnrýnið skoðanir þeirra og gagnrýnið aðferðir þeirra með rökum. Sleggjudómar um hárgreiðslu þeirra og órökstuddar getgátur um lifnaðarhætti þeirra eru ekki innlegg í umræðuna heldur illa lyktandi prump.

 

One thought on “Út um rassgatið á sér

  1. ——————————

    Spurði líka ekki eitt svínið hvað hitt svínið væri að gagnrýna bóndann þar sem það væri nú hann sem fóðraði þau?

    Posted by: Kalli | 11.07.2007 | 13:14:07

    ————————————————–

    Þetta sama fólk mótmælir þegar um er að ræða eitthvað sem því er hugleikið (t.d. ríkiseinokun á áfengissölu eða opinberar álagningarskrár).

    Það skilur aftur á móti ekkert í því af hverju aðrir mótmæla, fussar og sveiar vegna þess að þeir mótmælendur eru ekki með bindi.

    Ég held reyndar að sumir verjendur frelsis séu á mörkum þess að vera þroskaheftir – en ekki hafa það eftir mér, maður má víst ekki tala svoleiðis um fólk.

    Posted by: Matti | 11.07.2007 | 13:56:52

    ————————————————–

    Ég skil ekki hvað þú ert að leggja þig niður við að lesa svona blogg.

    Posted by: Elías | 11.07.2007 | 14:11:20

    ————————————————–

    Ég var reyndar stödd í þessu alræmda musteri mammons (það er sjoppan gjarnan kölluð á mínu heimili) rétt áður en mótmælin hófust og það var svolítið gaman að sjá hvað öryggisverðirnir voru svakalega stressaðir í kring um þetta ,,undarlega“ fólk. Ég sá til dæmis öryggisvörð ræða alvarlega við berfættan ungan mann með sítt ljóst rastahár og það var alveg greinilegt að honum (verðinum) leið alls ekki vel…

    Posted by: Harpa J | 11.07.2007 | 14:35:15

    ————————————————–

    hehe, gæti orðið gott að hafa punkt Matta í huga á umræðum á IRCrásinni, stundum.

    Vísaði í færsluna hjá mér, ef þú varst ekki búin að sjá það. Snilldarfærsla.

    Elías, you have to know the enemy…

    Posted by: hildigunnur | 12.07.2007 | 1:32:43

    ————————————————–

    Jú Hildigunnur, ég skoða alltaf síðuna þína svo ég sá það. Takk 🙂

    Posted by: Eva | 12.07.2007 | 9:39:16

    ————————————————–

    Eva,
    Segður mér, hver er skilgreininginn á „alþjóðavæðingu“. Það hefur löngum verið vitað að ein meginástæðan fyrir döpru ástandi í þróunarlöndum eru verndartollar á landbúnaðarafurðir í þróuðu löndunum. Þau vilja vernda sína bændur (og borga með þeim að auki) og mér virðist þetta hugtak „alþjóðavæðing“ vera svona „hip“ orð um verndartollastefnu á öllum öðrum sviðum líka.

    Posted by: Guðjón Viðar | 12.07.2007 | 11:04:21

    ————————————————–

    G.V. Á internetinu er til afar þægileg leitarvél em heitir Google. Þar ættirðu að geta fundið allt sem þú vildir vita um alþjóðavæðingu.

    Posted by: Eva | 12.07.2007 | 11:28:14

    ————————————————–

    Eva,ég gerði það áður og fékk þessa skilgreiningu : „Með hugtakinu alþjóðavæðing er átt við hina sívaxandi samþættingu hagkerfa einstakra ríkja í eina heild – alþjóðahagkerfið. Þessi samruni gengur einkum út á að setja reglur um fjárfestingar, viðskipti, gjaldeyrismál og inn- og útflutning, auk kröfunnar um einkavæðingu sem flestra þátta efnahagslífsins og samfélagsins“
    Ég sé reyndar ekki hvað er slæmt við þetta en mig grunar að ég mæli eins og ég hafi vit til:) Reyndar í þessar sömu grein og þessa skilgreiningu var að finna var nefnt að : „Á árunum 1960 til 1980 kusu langflest hinna fátækari ríkja heims að byggja upp hagkerfi sín með því að byggja upp innanlandsframleiðslu fyrir heimamarkað á vörum sem áður þurfti að flytja inn. Heimaframleiðsla þessi var oftar en ekki styrkt með opinberri fjárfestingu og vernduð með tollum á innflutning“ Þannig að mér virðist sem áður að þetta sé bara gamla verndartollastefnan sem gamalt vín á nýjum belgjum.

    Posted by: Guðjón Viðar | 12.07.2007 | 13:25:32

Lokað er á athugasemdir.