Uppreist

Æra morðingja er uppreist. Yfirvaldið kippti henni á lappirnar – einn, tveir og úpposí! Líklega hefur hann samt ekki sungið „You Raise Me Up“; þetta var ekki endurfæðing í anda Hvítasunnusafnaðarins, heldur eitthvað álíka yfirborðskennt og fálkaorðan.

Uppreist æru er dálítið hjákátleg hugmynd. Formlega merkir hún að sakaskrá er hvítþvegin (allavega í þeim skilningi að afbrotið stendur ekki lengur í vegi fyrir því að maður geti gegnt tilteknum störfum þótt það sé reyndar ennþá skráð á sakavottorðið) en í reynd losnar sá sem hefur banað manni aldrei undan sekt sinni. Ekki nema gagnvart lögunum. Svívirðilegur glæpur fylgir þeim sem framdi hann ævilangt, eina leiðin til að öðlast raunverulega uppreisn æru eru ný gögn sem leiða í ljós sakleysi eða ríkar afsökunarástæður. Smákrimmi getur hlotið félagslega uppreisn og orðið fyrrverandi ógæfumaður en við tölum ekki um fyrrverandi morðingja.

Auðvitað misbýður einhverjum að morðingi geti endurheimt lögmannsréttindi og það er einföldun að afgreiða það sem einskæran hefndarþorsta. Lögmaður getur haft töluverð áhrif á líf og örlög annarra og það virðist því eðlilegt að gera þá kröfu að hann hafi hreint mannorð, ekki bara í skilningi laganna, heldur líka í augum almennings. En ef þetta snerist í alvöru um það hvort manni er treystandi fyrir ábyrgð þá myndum við mótmæla ef morðingi fengi vinnu við t.d. matvælaframleiðslu eða umönnunarstörf. Maður getur hafnað þjónustu lögmanns en þú veist ekki hver pakkaði ostinum þínum.

Það er ekki sanngjarnt að setja þá sem hneykslast á tilkalli Atla Helgasonar til málflutningsréttinda á sama bekk og þá sem vilja hengja glæpamenn upp á punghárunum og grýta þá til bana. Samt sem áður er ákveðin refsihyggja fólgin í því viðhorfi að svíðingur eigi ekki að fá annað tækifæri til að lifa því lífi sem hann ætlaði sér áður en hann braut af sér. Það sem særir réttlætiskenndina er kannski ekki það að glæpamaður geti lifað mannsæmandi lífi, heldur það að hann geti tilheyrt því sem við köllum yfirstétt og notið þeirrar virðingar og þeirra forréttinda sem því fylgir. Lögmenn, endurskoðendur, þingmenn, embættismenn og hátt settir stjórnendur eru nefnilega álitnir meiri og merkilegri en karlinn sem pakkar ostinum og stúlkan sem meðhöndlar lyfjaboxin á hjúkrunarheimilinu.

Í réttarríki er tilgangur dóma og refsinga að nokkru leyti sá að binda endi á mál. Atli Helgason er búinn að afplána sinn dóm og hann er hvorki merkilegri né hættulegri í dómssal en t.d. á smíðaverkstæði þar sem hamrar liggja á glámbekk. Og ef hann hlýtur óverðskulduð gæði, sæmd eða metorð út á lögmannsréttindin, þá er það ekki vegna þess að yfirvaldið hefur trixað æru hans með töfrasprota, heldur vegna þess að við, sem samfélag, metum fólk eftir stéttarstöðu fremur en mannkostum.