Upplýsingatregða

Ég býst við að það sé prófraun fyrir stjórnsýsluna að þurfa að leita að týndum manni, eða líki, í annarri heimsálfu, þar að auki á átakasvæði. Og ekki bætir úr að sá týndi hefur lagt sig fram um að leyna upplýsingum um ferðir sínar og athafnir. Ég hef alveg skilning á þeirri erfiðu stöðu sem hefur blasað við starfsfólki Utanríkisráðuneytisins frá 6. mars sl. Ég er viss um að þau hafa unnið heilan helling, hringt í mann og annan og kannað ýmsar leiðir til að finna þetta lík. En ég held að þau hafi aldrei tekið mark á þeim möguleika að Haukur hafi ekki látist og það er kannski ekki við því að búast að fólk sem stendur ekki í mínum sporum skilji öll þessi læti út af einu líki – sem mig vantar ekki einu sinni – lífsýni myndi duga mér. Þetta er allt mjög erfitt og flókið og áreiðanlega ekkert gaman fyrir þau að þrátt fyrir að okkur sé sagt að 30 manns hafi unnið í málinu er nákvæmlega enginn árangur af þeirri vinnu.

Ég held að þau vilji vel og hafi alveg verið að reyna, en ég treysti því ekki að þau skilji alvöru málsins. Þessvegna kröfðumst þess fljótlega að fá jafnharðan upplýsingar um allt sem þau væru að gera í málinu.

Fjögurra vikna bið

Það tók fjórar vikur að fá Utanríkisráðuneytið til þess að afhenda gögn sem við eigum rétt á. Við fengum þau í morgun. Okkur er samt sem áður synjað um hluta gagnanna. Engin leið er að sjá hvort um er að ræða eitt ómerkilegt smáatriði, umfangsmiklar og mikilvægar upplýsingar eða eitthvað þar á milli. Nú tekur við margra vikna eða mánaða bið eftir því að Úrskurðarnefnd um upplýsingamál gefi álit sitt og ef ég þekki íslenska stjórnsýslu rétt má allt eins vænta þess að ég þurfi að klaga til Umboðsmanns Alþingis líka. Það er frekar fúlt að þurfa að standa í þessu þegar maður hefur ekki minnstu hugmynd um hvort þær upplýsingar sem haldið er frá okkur hafa einhverja þýðingu.

Af hverju skal alltaf vera svona mikið vesen að fá upplýsingar hjá stjórnsýslunni um annað en það sem maður hefur undir höndum hvort sem er? Ráðuneyti og aðrar stjórnsýslustofnanir hafa venjulega enga beina hagsmuni af því að leyna upplýsingum en samt er ótrúlega algengt að stjórnvöld líti svo á að gögn sem þau búa yfir séu persónuleg eign þeirra.

Utanríkismálanefnd líka látin bíða

Þetta hljómar kannski eins og ósanngjarnt nöldur. Nóg að gera hjá ráðuneytinu og ekki við því að búast að þau megi vera að því að skanna tölvupóst eða skrifa minnisblöð um einhver símtöl út af einu líki (því þau ganga út frá því að hann sé látinn þótt það sé ekki opinbert) bara af því að einhverri taugatrekktri mömmu dettur í hug að það sé ekki verið að gera það sem þarf. En það eru ekki bara almennir borgarar sem eiga í vandræðum með að fá upplýsingar, meira að segja þingnefndir sem eiga að hafa eftirlit með stjórnsýslunni mæta sömu tregðunni.

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10214240391437445&set=a.2738891005195.131376.1645005851&type=3&theater

 

Er kannski eina ráðið að fara á staðinn?

Í dag mættu nokkrir góðir vinir Hauks á þingpallana og kröfðust þess að ef stjórnvöld geta ekki fundið Hauk með sínum leiðum, þá greiði þau að minnsta kosti fyrir því að vinir hans komist til Afrín til að leita hans. Eins og staðan er akkúrat núna er hættuspil að fara til Afrín. Það kemur að því að það verður hægt að komast þangað á öruggan hátt en eins og er þyrfti aðstoð stjórnvalda till þess. En þegar fólk er örvinglað af áhyggjum þá er það tilbúið til að leggja sig í hættu. Bestu vinir Hauks hafa lifað og hrærst í jaðarpólitík. Þau eru betur að sér en flest okkar um vinnubrögð fasista, stríðsglæpi og annan hrylling sem fylgir stríði. Þau eru hrædd um að það versta kunni að hafa gerst og treysta því ekki að ráðuneytið geti aflað réttra upplýsingar. Ég treysti því ekki heldur.

Það er pínulítið kaldhæðnislegt að það hefði sennilega verið fljótlegra fyrir nokkra úr hópi fjölskyldu og vina að finna Hauk, lífs eða liðinn, með því að fara til Afrín en að bíða eftir að þetta 30 manna teymi hjá ráðuneytinu fái fullnægjandi svör. Ég vona samt að enginn leggi sig í hættu heldur bíði menn að minnsta kosti þar til Rauði hálfmáninn kemst inn á svæðið og ef ekkert finnst við þá leit að það verði ekki flanað að neinu heldur beðið þar til ástandið batnar. Því ef eitthvað er víst er það að stjórnvöld munu ekki greiða fyrir slíkum leiðangri.