Upplýsingar takk!

Af hverju hafa stjórnvöld enn ekki kynnt almenningi skilyrði sjóðsins og útskýrt hvernig við ætlum að endurgreiða lánið?

Steingrímur sagði á borgarafundi síðasta mánudagskvöld að áætlunin væri öll á netsíðu IMF en ég get ekki ekki sagt að ég sé miklu nær eftir þann lestur.

Ég vil fá þetta skýrt og skorinort, á íslensku. Ég vil fá upplýsingar um skilyrði sjóðsins, greiðsluáætlun og greinargóðar upplýsingar um hvað gerist ef við stöndum ekki í skilum. Ég vil einnig fá ‘glósur’ eða helstu áhersluatriði dregin út í stuttar, aðgengilegar línur sem fljótlegt er að renna yfir.

Er þetta ekki fullkomlega sanngjörn krafa?

mbl.is Sendinefnd IMF kemur í næstu viku

One thought on “Upplýsingar takk!

  1. ———————————————-

    Hey…ég reyndi 🙂 En að fá politíkus til að gefa manni svar er eins og að troða tannkremi aftur í túpuna

    Heiða B. Heiðars, 21.2.2009 kl. 16:48

    ———————————————-

    góð samlíking mútta… eva vertu í bandi skvís

    Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir, 21.2.2009 kl. 19:11

    ———————————————-

    Já ég er búinn að vera að bíða eftir þessum upplýsingum.

    Var það ekki Steingrímur J sem lofaði því að fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar yrði að upplýsa fólk um skilyrði sjóðsins og raunverulega skuldastöðu landsins.

    hilmar jónsson, 21.2.2009 kl. 20:55

    ———————————————-

    steingrímur ekki trúverðugur hefur aldrei verið það

    Ólafur Th Skúlason, 21.2.2009 kl. 21:33

    ———————————————-

    Þetta er leyndó.

    Offari, 21.2.2009 kl. 21:38

    ———————————————-

    Mér skilst að það sé ekki verið að nota lánið, það sé geymt í Washington á góðum vöxtum, við notum bara lánið í algerri neyð.

    Ægir Óskar Hallgrímsson, 22.2.2009 kl. 10:10

    ———————————————-

    Þjóðir taka ekki neyðarlán bara svona til öryggis, ekki fremur en einstaklingar. Neyðin er fyrirsjáanleg. Við MUNUM nota þetta lán. Við munum hinsvegar ekki geta endurgreitt það.

    Eva Hauksdóttir, 22.2.2009 kl. 10:21

    ———————————————-

    Það er einföld skýringa á því Eva, við munum einfaldega aldrei greiða lánin til baka nema leggja stærstan hluta velferðakerfisins niður. Við getum ekki staðið undir þeim greiðslum. Hvernig á þjóðin að greiða niður kr. 2.679 milljarða hið minnsta? Þetta eru tölur frá ríkisstjórninni og AGS. Svo er verið að rugla okkur í ríminu með alls kyns bulli frá skilanefnd landsbankans og tryggvi þór bullar og bullar. Þessar tölur eru til, það þarf bara að finna þær og setja í samhengi við raunveruleikann.

    Arinbjörn Kúld, 22.2.2009 kl. 11:07

    ———————————————-

    Hef rennt yfir þetta skjal sem fylgir samningi Ísland og IMF (IMF Stand-By Arrangement). Þar er eitt af skilyrðunum svokallað „Medium term consolidation programme“, sem á mannamáli heitir „niðurskurður í opinbera geiranum“. Þetta plan á að vera tilbúið í sumar, og taka gildi fyrir fjárlagaárið 2010. Þetta er sá þáttur sem ég hef einna mestar áhyggjur af varðandi IMF lánið.

    Það mun reyna mikið á hvernig verður forgangsraðað í þessum niðurskurði, þannig að þær byrðar sem settar verði á þjóðina dreifist með réttlátum hætti. Hættan er sú að þeir sem standi höllum fæti verði verst úti í svona niðurskurði. Önnur hætta er sú að með miklum niðurskurði í umönnunarstéttum þá beri konur samfélagsins óeðlilega mikla byrði af niðurskurðinum, bæði vegna þess að þær munu þá frekar missa vinnuna, en einnig vegna þess að ef ríkið sér ekki fyrir þessari þjónustu, þá sýna dæmin erlendis frá að „sparnaður“ ríkisins er oft niðurgreiddur  með ólaunaðri vinnu kvenna við umönnun veikra ættingja (sem oft þurfa að taka sér frí úr vinnu, eða jafnvel hætta í launaðri vinnu, til að gegna þessu hlutverki).

    Ef ekki verður orðið við skilyrðum sjóðsins um stórtækan niðurskurð í opinbera geiranum, þá munu næstu greiðslur úr sjóðnum væntanlega falla niður. Það er í það minnsta það sem hefur gerst í öðrum ríkjum þar sem sú staða hefur komið upp.

    Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 12:02

    ———————————————-

    Ég vil fá að vita hvern fjandann ‘niðurskurður í opinbera geiranum’ merkir á mannamáli. Þýðir það að Háskólinn verði lagður niður? Að Landspítalanum verði lokað? Að Tryggingastofnun verði aflögð? ‘Niðurskurður hjá hinu opinbera’ er ekkert nýtt og segir okkur ekkert.

    Eva Hauksdóttir, 22.2.2009 kl. 12:32

    ———————————————-

    Það er ekkert undarlegt við það að við fáum ekki upplýsingar, allt svart sem kæmi í ljós frá tíð sjálfstæðismanna, væri þá jafnframt eitthvað sem Jóhanna og Steingrímur eru búin að þegja þunnu hljóði yfir….sem er raunar augljóst að veldur.

    Upplýsingarnar fáum við svo þegar of seint er að gera nokkuð í því…krafa mín stendur enn og ekkert í sjónmáli sem lýtur að því, BURT MEÐ FLOKKAKERFIÐ OG ÞINGRÆÐIÐ! Spillingin og samtrygging stjórnmálamanna eru sprottin undan rifjum flokkakerfisins….við eru fyrst og fremst að súpa seyðið af tengslum flokkanna og viðskiptalífsins, samtryggingu sem nær orðið yfir heila stétt manna og virðist valda því að ekki er hægt að draga neinn til ábyrgðar, mestu landráðamenn og glæpahundar íslandssögunnar eru friðhelgir…ef samningurinn við IMF felur í sér afsal auðlindanna að auki við það sem orðið er, þá er endanlega búið að ræna framtíð barnanna minna. Við þurfum að byrja frá grunni, það þýðir ekkert að vera með einhverja sýndarmennsku eins og núverandi ríkisstjórn virðist ætla að láta duga. Við þurfum að byrja frá grunni.

    Haraldur Davíðsson, 22.2.2009 kl. 15:14

Lokað er á athugasemdir.