Þegar þögnin jafngildir neitun

Það má endalaust deila um það hvort kosningaþátttaka sé nógu góð og hvernig túlka beri þá ákvörðun að sitja heima en mér finnst ósanngjarnt að afgreiða þá ákvörðun með heimsku og/eða áhugaleysi. Fólk getur séð það sem pólitíska ákvörðun að taka ekki þátt í kosningum eða þjóðaratkvæðagreiðslu. Einn vinur minn sem mætti ekki á kjörstað orðaði ákvörðun sína þannig:

Vandamálið er ekki stjórnarskráin heldur það að ráðamenn fara ekki eftir henni. Ég sé ekki hvað er svona frábært við það færa þeim betri stjórnarskrá til að brjóta.

Þessi maður er enginn sjálfstæðismaður og ekki ósammála tillögum stjórnlagaráðs, hann hefur bara enga trú á því lýðræði sem við búum við og vill ekkert hafa með ríkisvald að gera. Sá sem vill ekki ríkisvald getur vel litið svo á að með því að setja stofnun sem maður vill losna við reglur, sé maður að styrkja tilvistargrundvöll hennar.

Ég er ósammála þessu viðhorfi, ég held að þar sem við sitjum uppi með ríkisvald hvort sem er, sé skárra að hafa stjórnarskrá sem taki af vafa um eignarhald á auðlindum og gefi skýr fyrirmæli um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hefði viljað ýmsar fleiri breytingar en þetta er góð byrjun.

Sá sem situr heima á kjördag nýtir sér ekki þann rétt sinn að hafa áhrif á úrslit kosninga. Ástæðurnar kunna að vera margvíslegar en skilaboðin eru alltaf þessi; ég tek ekki afstöðu til þeirra valkosta sem eru í boði. Það er beinlínis hlægilegt að sjá endalausar útskýringar á því hvernig afdráttarlaus úrslit kosninganna þýði samt að meirihluti kjósenda hafi í rauninni sagt nei.

Ég veit ekki um neinn sem tjáir sig sérstaklega undir merkjum feminisma sem er einnig gallharður sjálfstæðismaður. Eitt eiga þó feministar og sjálfstæðismenn sameiginlegt; þá afstöðu að það að segja ekki skýrt já, jafngildi í raun neitun.

 

3 thoughts on “Þegar þögnin jafngildir neitun

  1. Það er rosalegur galli í þessari samlíkingu, þetta er eins og skólabókardæmi um að bera saman epli og appelsínur: Að sleppa því að labba út á kjörstað með skilríki og skrá sig og fara inn í klefann og allt þetta blabla sem fólki finnst oft bara húmúkk er sumsé eins og að ríða sofandi konu?

  2. Nei, þú ert að lesa allt annað í þetta en ég.

    Líkingin er þessi:

    Sá sem vill ekki stjórnarskrárfrumvarp sem verið er að reyna að troða upp á hann, þarf ekki að segja nei, það er nóg að vera passívur og vonast til að þingið fatti hvað maður á við.
    Samanber:
    Sá sem vill ekki kynlíf sem verið er að reyna að troða upp á hann þarf ekki að segja nei, það er nóg að vera passívur og vona að graðnaglinn fatti hvað maður á við.

    Sofandi manneskja er ekki í neinu ástandi til að segja nei og er því jafn mikið fórnarlamb og ef sá sem vill ekki sjá þetta stjórnlagafumvarp yrði þvingaður til að segja já.

Lokað er á athugasemdir.