Þannig lýsir spilling sér

Ég fann þessa fallegu mynd af lýðræðinu hér
Ég veit ekki hver setti hana saman

 

Skömmu fyrir jól birti þingmaður nokkur Facebook-færslu þar sem hann undrast umræðuna um spillingu á Alþingi. Hann verði lítið var við spillingu þar á bæ og skilji ekki hvernig hún ætti eiginlega að lýsa sér.

Það er eitt einkenni spillingar að þeir spilltu sjá hana ekki. Vegna þess að þeir telja sig í fullri einlægni eiga heimtingu á henni. Álíta sjálfa sig borna til meiri réttinda og lísgæða en annað fólk. Þeir óspilltu sem lifa í andrúmslofti spillingar verða samdauna. Hætta að sjá nokkuð rangt við sjálftöku og frændhygli félaga sinna. Finnst ekkert stórmál þótt þeir  komi sér undan aga. Að því leyti má segja að margur sé heiðarlegur í spillingu sinni. Einlægni þingmannsins sem skilur hreinlega ekki um hvað við erum að tala, er hluti af vandamálinu, þótt hann sé ekki spilltur sjálfur.

Hvað er spilling?

Spilling er ekki bara það að plotta í „reykfylltu bakherbergi“ og taka við seðlabúnti út á vinargreiða á kostnað opinberra sjóða. Spilling er það að misnota aðstöðu sína til þess að afla sjálfum sér eða öðrum hagsmuna sem viðkomandi á ekki tilkall til. Það er t.d. hægt að gera með lagasetningu sem tryggir völd og fríðindi hagsmunahópa eða með því að taka geðþóttaákvarðanir í krafti stöðu sinnar. Spilling birtist líka í því að nýta stöðu sína til að koma sér hjá einhverju óþægilegu sem aðrir þurfa að lúta. Spilling getur verið lögleg og innbyggð í kerfið. Það gerir hana ekkert geðslegri og lögmætið gerir hana að mörgu leyti erfiðari viðfangs.

Sjálftaka

Skýrasta form spillingar og það sem mesta hneykslan vekur er mútuþægni. Blessunarlega er lítið um mútur í íslenskum stjórnmálum. Næsti bær við er sjálftaka. Að  nýta almannafé í eigin þágu. Og þar erum við í verri málum. Grímulausasta dæmið sem kemur mér í hug er nær tveggja áratuga gamalt en sýnir hugsunarháttinn svo vel að mér finnst við hæfi að rifja það upp. Ráðherra átti stórafmæli og ákvað að gera vel við starfsfólk ráðuneytisis – á kostnað almennings. Eftir harða gagnrýni ákvað ráðherrann að finna aðra leið til að fjármagna herlegheitin og datt þá í hug að nýta árshátíðarsjóð starfsfólksins til þess að „bjóða“ því til veislu. Ég veit ekki hver borgaði brúsann á endanum en vandamálið er í hnotskurn þessi einlæga trú á að maður eigi rétt á því að ganga í sjóði annarra, bara af því að maður getur það. Oftast tekur íslenska spillingin þó á sig frekar lúðalega mynd. T.d. þá að nota húsnæði, bíla og aðra hluti sem tilheyra stöðunni í eigin þágu.

Sjálftaka er ekki alltaf ólögleg. Oft býður kerfið beinlínis upp á hana. Skúffufé ráðherra er dæmi um löglega og kerfisbundna spillingu. Það er beinlínis gert ráð fyrir því að ráðherra noti almannafé til að styrkja verkefni að eigin geðþótta. Það er svo undir hverjum og einum komið hversu langt hann gengur í því að misbjóða almenningi með vali sínu. Akstursgreiðslur sem nema mun meiru en raunverulegum kostnaði eru líka dæmi um kerfisbundna spillingu en að nýta slík fríðindi í eigin kosningabaráttu er persónuleg spilling. Lögleg en siðlaus. Kjarabætur til þingmanna sem nema margfaldri þeirri upphæð sem hinn almenni launamaður getur átt von á er fullkomlega lögleg spilling en kannski sú sem verst særir réttlætiskennd kjósenda.

Frændhygli og vinargreiðar

Brask með sendiherrastöður og aðra bitlinga er hinsvegar ekki löglegt. Spilling af því tagi varðar við ráðherraábyrgð og hegningarlög. En hókus-pókus – spillingin sér um sína! Slík samstaða ríkir um þessi ólöglegu viðskipti að þótt upptökur af játningum liggi fyrir kannast ráðamenn ekkert við krógann. Frændhygli og vinargreiðar eru vafalaust algengari innan stjórnsýslunnar en beinlínis á Alþingi eða ráðherra í millum en brask með sendiherrastöður er nógu alvarlegt mál til þess að þingmenn ættu að sjá ríkari ástæðu til að ráðast gegn spillingunni en að gera lítið úr henni.

Að sniðganga eftirlit

Það er líka ákveðið form spillingar að koma sér hjá aga og eftirliti. Ljótt einkenni á íslenskri stjórnsýslu er að borgarar og blaðamenn þurfa oft að standa í margra mánaða baráttu til að fá aðgang að upplýsingum. Gögnum sem falla undir ákvæði upplýsingalaga. Stjórnsýslustofnanir hegða sér iðulega eins og gögn sem stofnunin varðveitir séu persónulegar eigur starfsfólks, eða ráðherra sjálfs.

Viðleitni til að sniðganga upplýsingaskylduna er bara eitt dæmi um spillingu innan stjórnsýslunnar. Á vef Umboðsmanns Alþingis má sjá ótal dæmi um óréttmætar ákvarðarnir um réttindi og skyldur borgaranna og þess eru mörg dæmi að Umboðsmaður (sem hefur eftirlit með stjórnsýslunni) þurfi að margkalla eftir gögnum. Ég nefni þetta hér því þótt Alþingi tilheyri ekki stjórnsýslunni þá heyra stofnanir stjórnsýslunnar almennt undir ráðherra. Ráðherraembætti öðlast fáir nema komast á þing og því er ekki hægt að slíta ráðherraspillingu úr samhengi við aðstöðu þeirra gagnvart löggjafarvaldinu.

Of algengt er að ráðherrar telji sig hafna yfir eftirlit. Og það er spilling. Spillt hugarfar þess sem telur sig hafinn yfir það að standa þeim reikningsskil gjörða sinna sem greiða honum laun. Munið þið eftir því þegar Umboðsmaður Alþingis grennslaðist fyrir um það, árið 2015, hvort ríkisstjórnin hefði sett sér siðareglur? Þáverandi forsætisráðherra svaraði – af sama skætingi og skólakrakki sem reynir að koma sér undan aga – með spurningu um það hvort Umboðsmaður hefði sjálfur sett sér siðareglur. Þetta er dæmi um spillingarhugarfar entittlingsins. Og þótt menn komist ekki upp með hvaða spillingu sem er þá er það ekkert nóg. Við viljum þingmenn og ráðherra sem eru bara ekkert að reyna það.

Nýjasta dæmið af þessum toga er angi af Klausturmálinu. Ráðherrar og þingmenn ákveða að mæta ekki fyrir þingnefndir og komast upp með það. Möguleikinn er kerfisbundinn en ósvífnin sem felst í því að nýta sér hann er persónuleg og grímulaus spilling.

Spilling er eðlileg

Það versta við spillinguna er samt að hún er svo eðlileg. Hún stafar ekki af því að vont fólk veljist til valda, Hún er bara birtingarmynd sjálfsbjargarviðleitni og mannlegrar tilhneigingar til að hjálpa sínu fólki. Óspillanleg manneskja er góður starfsmaður lélegur vinur. Sem manneskjur erum við dálítið tvöföld í roðinu og líklega kæmumst við ekkert af án þess. Við upprætum ekki spillingu með því að kjósa betri manneskjur á þing og skipa óspillt fólk í ábyrgðarstöður. Það er ekki fólkið eða flokkarnir heldur valdið sjálft sem spillir. Hættum frekar að skapa fólki aðstöðu sem auðvelt er að misnota.

Valddreifing og gegnsæi eru ekki nægjanleg skilyrði óspillts Alþingis en þau eru nauðsynleg. Á meðan lýðræðið felst í því að velja einn auðspillanlegan kost af fjórum eða kannski tíu er kosningarétturinn léttvægur. Ekki jafn léttvægur og frelsið til að velja sinnep eða tómatsósu á pylsuna en þó svo léttvægur að eftir þingkosningar líður stórum hluta þjóðarinnar eins og niðurstaðan sé einn, stór fokkjúputti, með sinnepi og hráum. Við sem engu ráðum sjáum spillinguna þótt okkar kjörnu fulltrúar sjái hana ekki. Ekki af því að við séum betra fólk en þingmenn og ráðherrar, heldur af því að við höfum enga aðstöðu til að misnota.