Tepruskapurinn í kringum Chomsky

Egill Helgason ympraði á því svona í framhjáhlaupi.

Annars hafa fjölmiðlar kallað Noam Chomsky mesta hugsuð samtímans, áhrifamesta þjóðfélagsrýninn, einn vinsælasta álitsgjafann, þeir hafa jafnvel kallað hann aktivista þótt hann hafi nú lengst af verið meiri hugmyndfræðingur en aktivisti.

Af einhverjum dularfullum ástæðum virðist það vera einhverskonar feimnismál að Noam Chomsky, vinsælasti spekingur samtímans er anarkisti. Hefur m.a.s. lýst sjálfum sér sem anarco syndicalista. Af einhverjum undarlegum ástæðum er eins og megi alls ekki minnast á að samfélagsrýni hans ber öll meiri eða minni (aðallega meiri) keim af þeirri skoðun að yfirvald sé almennt til óþurftar og að hann telur yfirvald eingöngu eiga rétt á sér í þeim tilgangi að vernda og hjálpa, t.d. vald til að bjarga lífi manns sem er ekki í ástandi til að gefa samþykki.

Af einhverjum ástæðum nefnir enginn að andúð Chomskys á hernaði, áhugi hans á mannréttindum og tjáningarfrelsi, gagnrýni hans á stóriðju, þjóðernishyggju og jafnvel þjóðríkið og sú skoðun hans að kapítalismi og lýðræði fari illa saman, eru hugmyndir sem flestir anarkistar eiga sameiginlegar (enda þótt vitanlega deili fleiri einhverjum þessara hugmynda eða öllum.)

Nú er Chomsky sjálfur ekkert sérlega gefinn fyrir merkimiða og þótt öll hans orðræða beri þess merki að hann er anarkisti þá er hann ekkert að stagast á því sjáfur. Engu að síður eru íslenskir fjölmiðlar almennt frekar áhugasamir um stjórnmálaskoðanir mikilla áhrifamanna og því hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna Íslendingar virðast forðast að nefna þá mikilvægu staðreynd að Noam Chomsky er anarkisti.

Líklega er það vegna þess að hann er hvorki með hanakamb né groddalokka og klæðist ekki fötum sem frænka hans keypi á nytjamarkaði og henti svo þegar hún úrskurðaði þau ónýt 6 árum síðar. Það er nokkuð ljóst að virðulegur, eldri prófessor í kaðlaprjónspeysu getur varla verið anarkisti. Ekki fremur en íslenskir góðborgarar geta verið nazistar nema bera hakakross. Eða ef hann er nú samt anarkisti, þá er allavega eins gott að nefna það ekki, því ekki viljum við nú koma óorði á fordóma Íslendinga gagnvart anarkisma.

One thought on “Tepruskapurinn í kringum Chomsky

  1. ——————-

    Umræður í framhaldi af pistlinum:
    Og Egill þurfti auðvitað að draga úr því með því að bæta við „ef eitthvað er.“ Það er ekki sama anarkisti og séra anarkisti.

    Posted by: Gummi | 12.09.2011 | 22:30:39

    ——————-

    Ég hef það m.a.s. eftir áreiðanlegum heimildum að Egill hafi fengið ábendingu um að það væri nú viðeigandi að geta þess.

    Posted by: Eva | 12.09.2011 | 22:38:31

    ——————-

    Ég fékk enga ábendingu, heldur lét þess einfaldlega getið að Chomsky hefði talið sig anarkista, hann hefur líka verið kenndur við það sem á ensku kallast libertarian socialism – sem er ekki alveg auðvelt að þýða.

    Posted by: Egill Helgason | 13.09.2011 | 10:25:41

    ——————-

    Skv. Anarchist FAQ er „libertarian socialism“ bara annað heiti yfir anarkisma:http://www.spunk.org/texts/intro/faq/sp001547/secA1.html#seca13. En það er rétt, það er ekki auðvelt að þýða það. „Frjálshyggjusósíalismi“ hljómar út í hött, og „frjálslyndur sósíalismi“ er of loðið.

    Posted by: Gummi | 13.09.2011 | 11:12:03

    ——————-

    Annars er ágætt viðtal við Chomsky um anarkisma að finna hér:http://www.chomsky.info/interviews/19961223.htm

    Posted by: Gummi | 13.09.2011 | 11:14:13

    ——————-

    Afsakaðu ef ég hef farið rangt með Egill. Þessi misskilningur kemur til af því að þann 8. september fékk ég sent afrit af svohljóðandi tölvupósti, sem sendandi telur sig hafa sent þér:

    „Sæll Egill

    Ég veit þú veist það sem fáir Íslendingar átta sig á (meðal annars margir sem hampa Chomsky eins og hann sé fylgismaður svipaðra pólitískra skoðana og þeir, þótt það sé fjarri lagi). Þess vegna vona ég að þú spyrjir hann af hverju hann kallar sig anarkista, og hvað það þýði.

    Og, fyrirgefðu afskiptasemina, mér finnst bara svo mikilvægt að það komi fram að þetta er ekki venjulegur „vinstrimaður“, öfugt við það sem svo margir á Íslandi virðast halda. (Og auðvitað ekki heldur hægrimaður, þótt margt sé sameiginlegt með anarkisma og „libertarianism“, sem flestir líta á sem hægristefnu þótt það sé einföldun. Enda skilst mér að Chomsky aðhyllist líka það sem kallað er libertarian socialism og er auðvitað engin þversögn).“

    Þessi póstur hefur líklega ekki borist þér, hugsanlega verið sendur á rangt netfang eða lent í spam hólfinu þínu. Þú færð allavega stórt prik fyrir að hafa að eigin frumkvæði haft orð á þessu feimnismáli, sennilega einn íslenskra blaðamanna.

    Posted by: Eva | 13.09.2011 | 12:21:30

    ——————-

    [svipuhljóð]

    Posted by: Kristín í París | 13.09.2011 | 20:38:16

Lokað er á athugasemdir.