Já en Tyrkir segjast alveg fara að alþjóðalögum

Við vorum að fá bréf frá Utanríkisráðuneytinu. Þau benda á að Tyrkir hafi ítrekað sagst fara að alþjóðalögum á átakasvæðum. Reyndar eru margir því ósammála, t.d. Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, ýmis mannréttindasamtök og Mannréttindadómstóll Evrópu, auk Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í París.

En það er nú gott að heyra að Tyrkir fari að alþjóðalögum. Það merkir þá að þeir hafa hirt lík og líkamsleifar þeirra létust í Afrín, komið þeim sem þekkjast í hendur aðstandenda en öðrum í líkhús. Hugsanlega hafa þeir neyðst til að grafa einhverja en þeir hafa þá skráð allar upplýsingar sem mögulegt er og eru með staðsetningu grafanna á hreinu.

Þetta eru góðar fréttir. Þessvegna finnst mér stórfurðulegt að í bréfinu skuli ekki að finna neinar skýringar á því hvaða svör hafi fengist við spurningunni um það hvar líkin séu niðurkomin. Samkvæmt alþjóðalögum ber Tyrkjum að svara því og þeir fara jú að lögum. En líklega hafa þeir bara ekkert verið spurðir.

Setjum sem svo að Íslendingur færist í slysi, átökum eða náttúruhamförum í Svíþjóð en að þar væri hvorki íslenskt sendiráð né ræðismaður. Ég reikna með að íslensk stjórnvöld trúi því að Svíar fari almennt að alþjóðalögum. Myndu íslensk stjórnvöld ekki bara spyrja hreint út hvað varð um líkin? Myndu þau virkilega þurfa að fara einhverjar leynilegar krókaleiðir að því að afla upplýsinga? Ég held ekki.

Ég mæli svo með þessari grein Ögmundar Jónassonar

 

Upplýsingatregða

Ég býst við að það sé prófraun fyrir stjórnsýsluna að þurfa að leita að týndum manni, eða líki, í annarri heimsálfu, þar að auki á átakasvæði. Og ekki bætir úr að sá týndi hefur lagt sig fram um að leyna upplýsingum um ferðir sínar og athafnir. Ég hef alveg skilning á þeirri erfiðu stöðu sem hefur blasað við starfsfólki Utanríkisráðuneytisins frá 6. mars sl. Ég er viss um að þau hafa unnið heilan helling, hringt í mann og annan og kannað ýmsar leiðir til að finna þetta lík. Halda áfram að lesa

Fáum vonandi fullvissu fljótlega

Bræður

Ég tók það skýrt fram í viðtali við 365 í dag að ég hefði trú á því að utanríkisráðuneytið væri að leggja sig fram um að hjálpa okkur þótt það hefði byrjað slælega, og mér finnst að það hefði mátt koma fram. Það hefur sýnt sig að í borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisis er „allt sem hægt er“ nokkuð teygjanlegt hugtak sem víkkar verulega þegar aðstandendur verða brjálaðir. Ég trúi því þó að ráðuneytið sé nú komið á rétta braut. Ég hélt í gær að það væru bara allir að fara í helgarfrí en hún Lára hjá Borgaraþjónustunni er búin að vera í stöðugu sambandi við mig í dag og hún er virkilega elskuleg.  Ég bind vonir við að fá fullvissu fljótlega. Halda áfram að lesa

Fréttatilkynning frá aðstandendum Hauks Hilmarssonar

Eins og fram hefur komið í fréttum er talið að Haukur Hilmarsson hafi fallið í skot- og sprengjuárás Tyrkja á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi í febrúar. Talsmenn andspyrnuhreyfingarinnar sem Haukur vann með hafa staðfest fall hans en við höfum ekki fengið dánarvottorð og þeir geta ekki bent á neitt lík. Það er ekki líklegt en þó hugsanlegt að Haukur hafi lifað af og sé í höndum Tyrkja. Sú staðreynd að leitað var að Hauki á sjúkrahúsum bendir til þess að einhverjar efasemdir hljóti að hafa verið uppi um andlát hans, einhver taldi sig sjá hann falla en enginn hefur séð lík. Á meðan sú staða er uppi er málið rannsakað sem mannshvarf af hálfu lögreglu á Íslandi. Halda áfram að lesa