Ef skólaskylda yrði afnumin?

Hvað ef skólaskylda yrði afnumin?

Ég á ekki við að krökkum í 8. bekk yrði einn góðan veðurdag tilkynnt að þau réðu því sjálf hvort þau mættu í skólann. Mér þætti meira vit í að afnema skólaskyldu á 10 árum. Hún yrði þá fyrst afnumin í 1. bekk og svo næsta ár héldist skólaskylduleysið hjá þeim börnum (sem þá væru í 2. bekk) og yngsti hópurinn bættist við. Hinu opinbera bæri eftir sem áður skylda til að tryggja öllum skólavist, munurinn yrði sá að það væri sett í hendur foreldra hvort þeir vildu sinna menntun barna sinna sjálfir eða láta skólakerfið um hana.

Teljið þið að þetta myndi breyta einhverju? Hverjar yrðu þær breytingar? Hver yrðu helstu vandamál og hverjir yrðu kostirnir?

 

Er gæludýrafóður það besta fyrir dýr?

Margir hafa sagt mér að hundar og kettir eigi helst ekki að fá neitt annað en þurrfóður. Kannski í lagi að gefa smá dósamat sem nammi ef maður vill dekra við dýrið en það eigi ekki að líta á neitt annað en sérhannað gæludýrafóður sem mat fyrir þau. Ástæðan ku vera sú að þurrfóðrið sé rétt samsett miðað við þarfir dýrsins, það fari vel með meltinguna, feldinn og sé á allan hátt hollt. Dýralæknar mæli með því og mest með dýrustu tegundum á markaðnum.

Nú vex þurrfóður ekki í náttúrunni og það hefur svona hvarflað að mér að þessi hugmynd sé komin frá þeim sem framleiða og selja gæludýrafóður. Mér hefur líka dottið í hug að þeir sem hafa beinan hag af því að sem mest seljist, séu kannski ekki alveg hlutlausir. Það hefur jafnvel hvarflað að mér að ef lyfjafyrirtæki telja rétt og gott að gera vel við lækna sem hugsanlega munu hafa áhrif á lyfjaval sjúklinga, þá sé ekki útilokað að dýrafóðursframleiðendur og dýralæknar tilheyri sama ‘tengslaneti’ (tengslanet er auðvitað allt annað og miklu fínna en klíka).

Hvað segja þeir sem hafa reynslu af gæludýrahaldi? Eru dýr sem lifa aðallega á þurrfóðri heilbrigðari og hamingjusamari en þau sem fá líka eða jafnvel eingöngu leifar af heimilismatnum?

Tjásur

Halda áfram að lesa