Ruglið í Snorra í Betel

Þetta er nú meira kjaftæðið. Það hefur ekki nokkur maður sem hugsanlega gæti haft áhrif óskað þess að prestum verði meinaður aðgangur að skólum í hlutverki foreldra. Þeir eru jafn velkomnir SEM FORELDRAR og t.d. eigendur pizzustaða, en á sama hátt beðnir vinsamlegast að nota annan vettvang til að auglýsa þjónustu sína….

Það er ekki lífsskoðun að vera samkynheigður. Ekki frekar en að vera örvhentur. Ef það að vera örvhentur væri feimnismál og oft notað sem átylla fyrir mismunun, þá væri eðlilegt að samtök örvhentra fengju tækifæri til að berjast gegn fordómunum.

Mér þætti líka fróðlegt að vita hvað maðurinn á við með því að fólk í dag krefjist þess strax að foreldrar þeirra séu settir á líknandi meðferð. Aldrei í veraldarsögunni hefur lífinu verið haldið í fólki jafn lengi (og oft að ástæðulausu). Sjálf hef ég unnið á elliheimilinum og ekki kannast ég við allt þetta fólk sem endilega vill foreldra sína eða afa og ömmur út úr heiminum. Líknandi meðferð er beitt þegar hverfandi líkur eru taldar á að viðkomandi geti lifað við sæmilega meðvitund án mikilla og stöðugra þjáninga.