Ert þú einn af þessum 86?

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er hlynntur þróunarsamvinnu en fáir þekkja þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hefur fólk þá nokkra hugmynd um hvað það er eiginlega að styðja?

Allir vita að þróunarstarf snýst um að uppræta fátækt og sjúkdóma og það er í sjálfu sér nóg til þess að vera hlynntur því. Það er samt dálítið hallærislegt að 86,4% Íslendinga geti ekki tjáð sig um hluti sem flest okkar styðja þó eindregið svo hér eru nokkrir molar í neytendaumbúðum.  Smellið hér til að sjá gagnvirka útgáfu af skjalinu (með tenglum ofl. eiginleikum) Halda áfram að lesa

Safaríkt svar frá mannréttindaráðherra

Ég hef töluvert álit á Ögmundi Jónassyni. Allavega tel ég hann öðrum líklegri til að koma góðum hlutum til leiðar sem dómsmálaráðherra og yfirleitt kemur hann mér þannig fyrir sjónir að hann hafi sterka réttlætiskennd, sé sjálfum sér samkvæmur en jafnframt víðsýnn og tilbúinn til að hlusta á almenna borgara þegar þeir deila skoðunum sínum með honum. Ég varð því dálítið hissa í morgun þegar ég opnaði tölvupóstinn minn og las svar við erindi sem ég sendi inn á vefsetur hans, líklega á mánudaginn.

Þetta var örstutt fyrirspurn um það hvort mannréttindaráðuneytið hefði beitt sér eða hyggðist á einhvern hátt bregðast við máli írönsku konunnar Sakineh Ashtiani sem nú situr í fangelsi í Tarbriz og bíður þess að vera grafin niður í holu og grýtt til bana. Ég hef oft skrifað ráðamönnum og opinberum stofnunum vegna mannréttindamála og yfirleitt hef ég fengið svör, misgóð að vísu, oft bara einhverja klisju um að viðkomandi muni ‘fylgjast með þessu máli’ (hvernig sem það á nú að hjálpa) en næstum alltaf benda svörin til að einhver hafi allavega lesið bréfið. Össur Skarphéðinsson, svaraði t.d. sama erindi frá mér í síðustu viku og sagðist hafa mótmælt dómnum í bréfi sem var afhent sendiherra Irans í Noregi. Að vísu má ekki birta það bréf opinberlega og maður hlýtur að velta því fyrir sér hversvegna þurfi leynimakk í kringum álit íslenskra stjórnvalda á mannréttindabrotum, en hann svaraði þó allavega eins og hann hefði lesið tölvupóstinn.

Svarið sem ég fékk við bréfi mínu til Ögmundar var sent frá netfanginu safi@bsrb.is. Hraðleit á google bendir til þess að eigandi þessa netfangs sé upplýsingafulltrúi bsrb og það er svosem gott mál ef bsrb hefur áhuga á mannréttindamálum. Ég veit samt ekki alveg hvort ég á að túlka svarið sem merki um að Ögmundur áframsendi slík erindi til vina sinna hjá BSRB, að Ögmundur sjálfur deili netfangi með Sigurði eða sem merki um að einhver fáviti hafi komist í tölvupóstinn.
Svarið er stutt og laggott og skrifað í hástöfum:

ÞÓTTI VÆNT UM BRÉF ÞITT. KÆRAR ÞAKKIR. KV. ÖGMUNDUR

Hvaða erindi eiga Íslendingar í öryggisráðið?

ISGÞegar ég segi að það sé skárra að hafa ranga afstöðu en enga, á ég að sjálfsögðu við einstaklinga en ekki ríkisstjórnir eða opinberar stofnanir.

Þegar einstaklingur er hlutlaus í öllum eða flestum pólitískum málum, bendir það til ábyrgðarleysis, leti og hugleysis. Hann nennir ekki að kynna sér það sem er að gerast í kringum hann, þorir ekki að setja fram skoðanir sem hann gæti þurft að rökstyðja og endurskoða og álítur að hann hafi aðeins réttindi en engar skyldur gagnvart öðru fólki, dýraríkinu og jörðinni sem við lifum á. Halda áfram að lesa