Rún dagsins er Týr

Týr eða Tír er stríðsrúnin, tákn árásar, öryggis, frumkvæðis og brautruðnings. Í galdri er hún notuð þegar nornin þarf að efla hugrekki sitt til þess að takast á við nýjar aðstæður þar sem hætta getur steðjað að eða þar sem þarf að ýta hindrunum úr vegi með áhlaupi fremur en að mjaka hlutunum í rétta átt á löngum tíma.

Í rúnalestri táknar Týr herforingjann sem bíður ekki eftir að óvinurinn geri áhlaup heldur heggur um leið og ástæða gefst. Týr getur falið í sér viðvörun um hvatvísi ef Reið, Jór eða Maður koma upp með henni. Ef Þurs eða Nauð koma upp næst Tý táknar það tilgangslaust stríð.

Rún dagsins er Sunna


Sunna, sólarrúnin, er sigurrún. Hún táknar sjálfstraust og sigurvissu, gott árferði, öryggi, persónutöfra og leiðtogahæfileika. Í galdri er hún notuð til að tryggja sigur í hverskyns baráttu.

Í rúnalestri táknar Sunna að spyrjandanum sé óhætt að taka áhættu og að bjartsýni og áræðni muni á næstunni duga honum betur en varkárni og tortryggni. Ef hann sýnir dirfsku og metnað getur hann aukið vinsældir sínar og velgengni til muna. Óvinir hans munu í flestum tilvikum leggja á flótta, en ef ekki fer hann með sigur af hólmi svo fremi sem hann nýtir herkænsku sína og  leiðtogahæfileika til fullnustu.

Rún dagsins er Elgur

Elgur er varnarrún sem táknar hin stóru horn elgsins. Elgur er allra rúna nytsamlegust því hún er mögnunarrún og er notuð í galdri til þess að magna áhrif annarra rúna og á næstum alltaf vel við. Hún er notuð til að verjast árás eða illum hug og er vinsæl sem verndargripur.

Í rúnalestri táknar Elgur að spyrjandinn hefur alla burði til að verjast erfiðleikum og árásum. Hann er hugrakkari en hann heldur og þarf bara að taka fyrsta skrefið, eftir það verður allt auðveldara. Þegar rúnin kemur upp með öðrum rúnum táknar hún aukin áhrif þeirra þátta sem gæfurúnir standa fyrir og vörn gegn bölrúnum.

Rún dagsins er Barð

Barð er verndarrún og hentar byrjendum vel því hún gerir ekkert illt. Barð táknar vernd heimilis og einkalífs og er ekki síst notuð sem verndargripur fyrir börn og aðra smælingja.

Í rúnalestri táknar Barð ein og sér að leyndarmál spyrjandans eru vel geymd og ekkert illt steðjar að honum. Ef bölrúnir koma upp næst henni getur það táknað að ógn vofi yfir og því sé tímabært að huga að tryggingum og öryggisbúnaði. Ef Barð kemur upp næst Mannsrúninni táknar það traustan vin eða verndara en komi jafnframt upp Nauð eða Þurs þarf spyrjandinn að varast fláráða vini.

Rún dagsins er Ýr

Ýr er rún sköpunar og sveigjanleika. Ýr merkir bogi, sem er notaður til þess að skjóta ör í mark, en einnig íviður, sem er mjúkur og sveigjanlegur og gott efni í boga. Í galdri er rúnin notuð til þess að ná fram góðum samningum sem báðir aðilar hagnast á og til þess að tryggja farsæla lausn í deilumálum og finna nýjar lausnir.

Þegar Ýr kemur upp í rúnalestri táknar hún að spyrjandinn geti fengið sínu framgengt, að minnsta kosti þannig að hann verði sáttur, ekki með því að vera harður í samningum heldur með því að gefa eftir og huga að fleiri valkostum.

Rún dagsins er Jörð

Jörð er uppskerurúnin. Nafnið táknar í senn jörðina og árið og felur í sér þá hugmynd að hafi maður á annað borð sáð í akur sinn og annast hann vel sé nú komið að uppskerutíð. Hún er auðvitað ekki varanleg svo nú er rétt að safna korninu í skemmur en ekki eyða og spreða. Jörð er gæfurún sem hentar byrjendum vel.

Í rúnalestri táknar Jörð verðskuldaðan árangur. Sé spyrjandinn að takast á við nýtt verkefni er hún honum hvatning til að standa vel að verki en ef verkefninu er að ljúka boðar hún að hann mun uppskera eins og hann sáði til og ræðst það af nærliggjandi rúnum hvers er að vænta.

Rún dagsins er Ís

Ís er rún kulda og stöðnunar. Í galdri er hægt að nota hana bæði til ills og góðs, til að tryggja varanlegt ástand, en ekki er hægt að mæla með því fyrir byrjendur.

Í rúnalestri getur hún táknað að spyrjandinn sé á hálum ís og þurfi að fara varlega og íhuga hvert skref. Einnig að það ástand sem hann er ósáttur við sé líklegt til að vara lengi ef ekkert verður að gert. Hann þarf að „brjóta ísinn“, hvort heldur er í samskiptum eða með því að koma sér úr þeim aðstæðum sem hann er fastur í, en ekki má hann flana að neinu því það mun fara illa.