Sálumessa

Af mold ertu kominn
til moldar skal hverfa þitt hold
og hvílast í ró
fjarri eilífð og upprisudómi
en af hverju grátum við dauðann
og greftrun í fold
ef sálin án líkama svífur
í tilgangsins tómi?

Og hver er þá tilgangur andans
ef hold verður mold
og tilgangur holdsins
ef tengslin við sálina rofna?

Eitt annarlegt faðmlag í myrki
á óræðum stað
svo holdlega andlegt
mun aftaka vafann um það;

af mold er mitt hjarta
og býður þér þreyttum að sofna.

Gímaldin samdi lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Skuggar

Að daðra við aðra og drekka af stút
ó drottinn minn hve gott það er.
Liggja og þiggja en laumast svo út
og lofa þeim að gleyma mér.

Ég leyni ekki neinu er leggstu mér hjá
og lætur sem viljirðu skilja og sjá
þann gáska og háska og gleði og þrá.
sem gráa svæðið vekja má.

Skoðaðu eigin skugga og þú munt skilja
þann hataða hvataflaum sem fáir vilja
horfast í augu við en hug sinn dylja
og óttast að aðrir telji
undarlegan.

Þú þekkir mig ekki og þó ertu hér
hvað þvingaði þig hingað inn?
Sáttur við dráttinn það sagðirðu mér
En samt er skammt í barlóminn.

Því lostinn er brostinn og fullnægjan feik
og frelsið er helsi ef trúin er veik.
Og þú biður því miður um mánaðarbreik
því þú meikar ekki þennan leik

Leikum þá annan leik, minn kæri ljáðu
mér eyra að heyra sögu mína og sjáðu
sálar minnar djúp og snertu og sláðu
hjarta míns heita og hrjáða
hörpustrengi.

Orðjurt og auga

Við ljósamörk skáldkvöldsins skelfur eitt ljóð
sem skothending nátttíðar deyðir
mót auganu orðkrónu breiðir
sem óðjurt mót heiðsólarglóð.

En náttmáni skín bak við skýslæðutröf
við skuggamörk þokunnar sefur
og ljóðaugað líklæðum vefur
sem lifi við kveðstafa gröf.

Ljóstillífsljóð
lifir sem sáðjarðar gróður
fagnar við augnsólar yl
orðjurtin góð.

Frestun

Ég veit það og skil fyrr en lúgan skellur
að skuldin í næstu viku fellur
en skelfingin bíður næsta dags.
Oft er frestur á illu bestur
því opna ég póstinn ekki strax.

En kvíðinn skín út um gulan glugga
grandar hann svefnsins friðarskugga
og geighús mitt lýsir allt um kring.
Í hug mér kúrir, sem hamstur í búri
og hleypur í vaxtavítahring.

Kvæði handa dópistum

Eitt vorkvöld sat ég hálf
í Valaskjálf
að vitum mínum anga engu líka
lagði, svo ég aftur að mér dró
ilminn frjóa, ríka.

Og blóðið brann,
um æðar rann,
ég fann
um mig streyma unaðssæluhrollinn
og kaupmennirnir kalla ilminn þann
Rauða ruglukollinn.

Þeir segja að allt sé vænt
sem vel er grænt
og af því hef ég gengið fram á gnýpu,
Nepal reykt úr niðursuðudós
Norðurljós úr pípu.

En fáar
finna má
sem jafnast á
við jurtir þær af Egilsstaðagötu
sem Ruglukollur þessi er runnin frá
og reykja má úr fötu.

Nú finnst mér allt það dautt
sem ekki er rautt
því aldrei finn ég sama sæluhrollinn
og kvöldið sem mér kaupmaðurinn bauð
Rauða ruglukollinn.

En víst
ég við því býst
ég vilji síst
tárum bæta í niðurtúrapollinn.
Svo lífs míns fjandafæla um það snýst
að forðast Ruglukollinn.