Vættaseiður

Við þennan seið á helst að nota svipu.

Galið kvæðið og látið smella í svipunni í hvert sinn sem þið berið fram „dl“ hljóð (eins og ll í smella). Þetta er annarlegt í fyrstu skiptin því maður hneigist til að koma sér upp takti og það er dálítið óþægilegt að brjóta hann en tilgangurinn er einmitt sá að brjóta upp hugsanamynstur og þegar það tekst gerast undarlegir hlutir. Þeir sem eiga ekki svipu geta notað spaða eða bara klappað í lófann á sér. Halda áfram að lesa

Óður til Samfylkingarinnar

Stóriðjulauslátir, gandreiðarstígvélabrögðóttir fyrirtækisfærissinnar
gengu í hring út frá innkomu utan um afkomu.
Veraldarauðkífið leit upp og lyfti hægindastólpípuhattinum;
„frúin er framboðleg“.

Afskiptaráðandinn tilkynnti að almúgnum vandlátnum
yfirtöku á skaflajárntjaldsúlunni úr rökþrotabúinu.
Tvínegldi tágleiður
öfugsnúinn sætabrauðfótabúnað gangsskiptagæðingsins.
Hleypti á skeið og stökk yfir vegtálma
vammlausnarsteingerðarbeiðenda.

Umkomulausholda of- eða van- hugsjónleikstjórastólræðan
stefndi að misgengisfellingu
á vel kýldri vömb afturgönguHrólfs
með afgangi af uppgangi inni í Ráðhúsi.
Dýr eru óráð í góðæri, góð ráð í óráði,
vandræði á vergangi.

Afturfótafiðrildi
flögrandi í áttina að útgangi.

Sólarsýn

Hátt uppi á grösugri
Gnitaheiði
fuglum er búin
vin á fjöllum.
Þar fella gæsir
fjaðrir á sumri,
hreindýrahjarðir
hagann þræða.

Þar falla fossar,
fuglar verpa,
þar vaxa grös
á víðum lendum.
Þar lifir Helgi
í hjartarlíki
sá er vargar
vógu í svefni.

Ormur vill ráða
rógmálmi skatna
Gimli skal reisa
á Gnitaheiði
Fáfni skal fórnað
friðlandi dýra
og um aldurdaga
auðlind sjúga.

Heilbrynju skrýdd
á Hindarfjalli
sefur Brynhildur
dóttir Buðla.
Einn hefur Sigurður
sverði brugðið,
vafureld ríður
að vekja brúði .

Frækn vill fé ráða
og friðland verja
ægishjálm orms
að engu virða.
Vel mun völsung
valkyrja eggja
Sigurdrífa
sólufegri.

Þá kemur hinn ríki
Regindómur
Níðhöggs hjálp
frá Niðavöllum
Guðrúnar bræður
Gjúkasynir
mág sinn sofinn
sverði leggja

Rænum, rænum
Regins arfi,
liggjum gull
á Gnitaheiði.
Vel skulum lýði
vopnum búa.
Sól tér sortna
sígur fold í fen.