Opið bréf til Ögmundar

Sæll Ögmundur

Nú eru liðnir 2 mánuðir frá því að við ræddum saman um mál Mouhameds Lo og enn hef ég ekki fengið vísbendingu um að neitt sé að gerast í því máli frá þinni hlið. Mouhamed er auðvitað löngu orðinn þreyttur á biðinni en nú eru fleiri en hann farnir að undrast hversu langan tíma það tekur ráðuneytið að leiðrétta mannréttindabrot. Halda áfram að lesa

Hvernig er hægt að hjálpa Mouhamed Lo?

Síðustu daga hafa margir haft samband við mig og spurt hvernig hægt sé að hjálpa Mouhamed Lo. Hann er því miður ekki sá eini sem stendur í baráttu við kerfið og ég vildi að ég kynni einhverja raunhæfari lausn á málum flóttamanna en þá að fremja valdarán í öllum Evrópuríkjum og opna öll landamæri en ég reikna ekki með að sú hugmynd fái fjöldafylgi. Halda áfram að lesa

Ögmundur og fílabrandarinn

Hann situr við eldhússborð í ókunnugu húsi. Hér mun hann dveljast þar til jákvæð niðurstaða fæst en hversu langan tíma það tekur veit enginn. Vinur hans er hjá honum. Hann bendir á hluti í eldhúsinu og nefnir þá á ensku, einn af öðrum og Mouhamed tyggur upp eftir honum. Hann verður að læra ensku ef hann ætlar að geta haldið uppi samskiptum, það var honum löngu orðið ljóst. Halda áfram að lesa

Saga strokuþræls – sagan í heild

Mouhamed Lo fæddist í ánauð einhversstaðar í suðurhluta Máritaníu. Hann telur líklegast að hann sé fæddur um miðjan desember 1988 en þar sem fæðingar þrælabarna eru hvergi skráðar, er útilokað að fá það staðfest. Fæðingarstofan var tjaldið sem foreldrar hans bjuggu í og fæðingalæknirinn ólæs kona sem hafði numið af móður sinni og hafði óljósa hugmynd ef þá nokkra, um nútíma lyf og lækningatól. Halda áfram að lesa

Að skrifa nafnið sitt

Löggan rétti honum blað og túlkurinn sagði að hann ætti að skrifa nafnið sitt á það. Hann sagði honum að í skjalinu væri rakið það sem hann hefði sagt lögreglunni af högum sínum. Mouhamed skildi ekki það sem stóð á blaðinu en hann kunni að skrifa nafnið sitt og fannst sjálfsagt að gera það fyrst hann var beðinn um það enda hafði hann enga hugmynd um merkingu þess að undirrita skjal sem lögreglan réttir manni.

Halda áfram að lesa

Mouhamed frjáls

Valencia var yfirþyrmandi. Hann hafði sjaldan komið í þéttbýli, aldrei til Nouakchott  og þótt Nouadhibou sé næststærsta borg Máritaníu var munurinn á henni og Valencia svo sláandi að hann óttaðist í fyrstu að hann myndi aldrei komast af í vestrænu samfélagi. Allt var nýtt. Bókstaflega allt. Svo óraunverulegt að fyrstu dagana hélt hann að sig hlyti að vera að dreyma, segir hann.

               Markaðstorg í Valencia                         Markaðstorg í Nouadhibou

Hann stóð á lestarstöð og snerist í hringi í kringum sjálfan sig. Öll skilningarvit svo þanin að hann sundlaði. Átti erfitt með að festa augun á einum stað, fannst hávaðinn úr öllum áttum heillandi og ógnvekjandi í senn. Hann reyndi að tala við fólk, spyrja hvert hann gæti farið til að fá vinnu en þeir sem hann ávarpaði hristu bara höfuðið. Annaðhvort skildu þeir ekki frönskuhraflið hans eða vissu ekki hvert hann ætti að snúa sér. Nema þeim hafi bara verið sama? Hann hafði alveg búist við erfiðleikum, reiknað með að þurfa að ganga langar leiðir og spara við sig mat en honum hafði ekki dottið í hug að yrði svona erfitt að ná sambandi við fólk. Hann hafði líka ímyndað sér að þar sem hann var læs, ætti hann meiri möguleika en margur annar, en í Valencia þótti engum neitt til lestarkunnáttu hans koma, auk þess sem öll skilti voru með táknum sem voru ekkert lík arabisku letri. Hann hafði vitað að franska var skrifuð með öðrum táknum en arabiska og wolof en hann hafði aldrei lært að skrifa frönsku, aðeins að tala hana. Honum hafði ekki dottið í hug að öll mál í Evrópu væru rituð upp á frönsku en nú rann upp fyrir honum að hann var alls ekki læs, þegar allt kom til alls, allavega ekki á neitt mál sem gagnaðist honum á Spáni.

                 Lestarstöð í Valencia                                Lestarstöð í Nouadhibou

Mouhamed var heppinn í þetta sinn. Hann hitti mann frá Senegal, mann sem talaði tungumálið hans, wolof og hjálpaði honum að fá vinnu við appelsínutínslu. Húsnæði fygldi vinnunni, þar bjuggu margir starfsmenn saman og sváfu 2-3 í herbergi og markaður sem seldi allar nauðsynjar var rétt hjá. Mouhamed var peningalaus en nýi vinur hans lánaði honum fyrir mat. Vinnan var mun léttari en hann átti að venjast, honum var sagt að hann fengi ákveðna peningaupphæð fyrir hvern kassa sem hann fyllti og enginn barði hann eða skammaði. Hann fékk m.a.s. aðgang að internetinu og náði sambandi við systur sína sem var komin til Senegal og dvaldi hjá ættingjum mannsins sem hjálpaði þeim að flýja.

Eftir tvær vikur fékk hann fullt af peningum. Jafnvel þegar hann var búinn að endurgreiða lánið átti hann meiri peninga en hann hafði nokkurntíma séð, hvað þá handleikið. Þetta var í fyrsta sinn á ævinni sem hann átti peninga og allt í einu langaði hann að kaupa allt sem hann sá en þorði samt ekki að kaupa neitt. Hann hafði hlakkað til að eignast sitt eigið fé en þótt hann væri yfir sig hamingjusamur var hann eiginlega hálf miður sín líka. Vinur hans tók fram fyrir hendurnar á honum, fór með honum á markaðinn og kenndi honum að láta ekki féfletta sig og aðstoðaði hann við að kaupa nauðsynlegasta fatnað. Eftir næstu útborgun kom hann honum tannlæknis sem gerði við brotnu framtennurnar í honum.  Að öðru leyti tók vinur hans launin hans í sína vörslu og skammtaði honum framfærslueyri.  Sagði honum að það væri honum lífsnauðsynlegt að safna eins miklu og hann gæti því uppskerutíminn væri stuttur og ekki á vísan að róa með vinnu að honum loknum. Mouhamed hreyfði engum mótmælum. Fann að hann réði betur við fjármálin eftir því sem hann hafði úr minnu að spila og treysti því auk þess að vinur hans vissi hvað væri honum fyrir bestu. Og vinurinn reyndist sannspár, eftir þrjá mánuði var enga vinnu að hafa lengur.

Mouhamed var algerlega óvanur aðgerðaleysi og nú þegar hann hafði engum skyldum að gegna lengur fóru að sækja á hann hugmyndir um að húsbóndinn myndi kannski hafa upp á honum. Líkurnar á því eru nú sennilega hverfandi en ótti er ekki endilega rökréttur og nú þegar hann hafði ekki vinnu, sá hann ekki fram á að geta borgað húsaleigu. Hann varð kvíðinn og svaf illa og honum varð ljóst að jafnvel í hinni ríku Evrópu hafa frjálsir menn  stundum áhyggjur af afkomu sinni. Einhver sagði honum að hann gæti lent í vandræðum í Frakklandi því yfirvöld þar væru slæm en að í Þýskalandi væri hægt að fá vinnu. Hann vissi svosem ekki hvaða áhuga yfirvöld í Frakklandi ættu að hafa á sér en dró þessar upplýsingar ekki í efa og ákvað að koma sér til Þýskalands áður en hann æti upp það litla sem honum hafði tekist að leggja fyrir. Hann hafði hreinlega ekki þekkingu til að sjá í hendi sér að atvinnumöguleikar manns sem var ólæs og skrifandi á nokkurt annað tungumál en wolof og með frönskukunnáttu sem varla dugði til að leysa flóknari verkefni en að biðja um kaffibolla, væru nánast engir, Mouhamed treysti bara því sem honum var sagt enda svosem ekkert skynsamlegra í stöðunni. Það kom sér vel að vinur hans hafði skammtað honum lífeyrinn naumlega því ferðin var dýr, mun dýrari en sjóferðin frá Nouadhibou en ólíkt þægilegra að ferðast með rútum og lestum.

Hann komst til Berlínar, án þess að vita neitt um Þýskaland nema nafn höfuðborgarinnar en hann valdi Berlín af þeirri einu ástæðu að hann vissi að í höfuðborgum er svo margt fólk að þar er auðvelt að leynast.

Í Berlín vildi enginn við hann tala. Það var of kalt til að hann festi svefn utandyra svo hann hélt til á lestarstöð á næturnar og hann var svo einmana að honum lá við örvæntingu. Hann leitaði að vinnu á daginn og þegar hann gafst upp á að reyna að ná sambandi við fólk og sat dapur á svip í sömu stellingunni langtímum saman, kom að því að fólk fór að henda til hans smápeningum. Það var út af fyrir sig ágætt en leysti náttúrulega ekki vanda hans. Eftir nokkra daga skildist honum á einhverjum starfsmanni sem gaf sig á tal við hann á lestarstöðinni að nærveru hans væri ekki óskað þar. Þá tók hann restina af peningunum sínum og fór í miðasöluna. Hann vissi ekkert hvert hann ætlaði, bað bara um miða til höfuðborgar þar sem hægt væri að fá vinnu og vonaði að miðasalinn skildi frönskuna hans. Ég veit ekki hvort peningarnir hans dugðu fyrir miða til Osló eða kannski bara í næsta úthverfi Berlínar en honum var vísað á rútustöð og einhvernveginn komst hann til Noregs.

Hann var handtekinn í Osló. Honum var ekið á lögreglustöð og þótt hann gerði sér grein fyrir því að hann væri í vandræðum upplifði hann sitt feginsamlegasta augnablik frá því hann fór frá Spáni, á lögreglustöðinni í Osló. Honum var nefnilega útvegaður túlkur sem talaði wolof og hann taldi sig ekki lítið heppinn að geta  útskýrt að hann væri enginn bófi heldur dugandi maður í atvinnuleit.

Það var fyrst þarna, á lögreglustöðinni í Osló sem Mouhamed komst að því að hann væri ólögleg manneskja og að hann ætti að hafa eitthvað sem héti vegabréf. Í hans heimi voru til  frjálsir menn og ófrjálsir. Hugtök eins og flóttamenn og mannréttindi voru honum með öllu ókunnug, hann hafði aldrei heyrt minnst á Rauða krossinn eða Sameinuðu þjóðirnar og hans hugmynd um landamæri var aðeins lína á landakorti. Hann hafði staðið á bryggju í Nouadhibou og horft út á sjóinn. Talið víst að ef hann kæmist yfir sjóinn, til Evrópu, yrði hann frjáls. Á þeim tíma hafði hann hugsað um frelsi sem það að vera ekki laminn. Fá nægan mat og hvíld, jafnvel læknishjálp ef hann veiktist. Hugmyndir hans höfðu breyst töluvert síðan þá. Hann hafði óttast eiganda sinn og hugsanlega útsendara hans á meðan hann var á Spáni en nú var hann kominn svo óralangt í burt að hann hafði ekki lengur áhyggjur af því að vera eltur. Nú var hann farinn að reikna með að hvítt fólk kæmi fram við hann eins og manneskju. Hann var farinn að gæla við möguleikann á því að velja sér starf. Vinna við húsbyggingar, rafmagn eða eitthvað annað spennandi. Hann gæti hugsanlega lært að aka bíl. Hann þyrfti bara að fá vinnu og þar með myndu öll heimsins tækifæri opnast honum. Eða það hafði hann haldið hingað til. En þetta var víst ekki alveg svona einfalt sagði túlkurinn og það fór að renna upp fyrir Mouhamed að frelsið er ekki bátur sem flytur þræla yfir opið haf, ekki appelsínubóndi sem gefur manni peninga í skiptum fyrir vinnu og ekki löng röð tækifæra til menntunar og vinnu, heldur lítil bók sem heitir vegabréf og aðeins hvítt fólk í jakkafötum getur gefið manni.

Hann hafði ekki reiknað með allt yrði fullkomið. Hann gerði sér aðeins veikar vonir um að sjá systur sína nokkurntíma framar og hann vissi að hann myndi aldrei framar sjá vini sína í Máritaníu. En það hafði ekki hvarflað að honum að hann mætti ekki ganga um götur og leita sér að vinnu í Noregi. Hvað þá að hann væri hvergi, ekki á einum einasta stað í veröldinni, velkominn.