Þökkum þeim

Það er með öðrum orðum lögreglunni að þakka að uppreisnin varð ekki að alvöru byltingu. Við getum þakkað Stefáni og hundum hans fyrir að við sitjum ennþá uppi með ónýtt stjórnkerfi, ónýtt efnahagskerfi, spillta embættismenn og vanhæfa ríkisstjórn fyrir nú utan það að vera komin undir AGS.

Það er fyrir framgöngu lögreglunnar sem við höfum nú verið formlega skuldbundin til að greiða skuldir útrásarinnar. Við getum þakkað lögreglunni fyrir að gera stjórnvöldum fært að skerða þjónustu í heilbrigðis- og menntakerfinu og draga úr þjónustu landhelgisgæslunnar.

Stór spurning hvort þeir sem harðast gengu fram eigi ekki að fá orðu. Fálkaorðu handa þeim sem brutu bein og veittu höfuðáverka með kylfum og svo má taka upp piparúðaorðuna handa hinum.

mbl.is Aðferðafræðin gekk upp

Þá vitum við það

Að mati lögreglunnar eru pólitískar aðgerðir mun alvarlegra mál en ölvunarakstur. Það er svosem skiljanlegt því ölvunarakstur er einungis ógn við líf og heilsu almennra borgara, þar sem hávaði á bál á Lækjartorgi fela hinsvegar í sér yfirlýsingu um að andóf verði ekki kæft með lögum, reglugerðum og valdbeitingu. Pólitískar aðgerðir ógna nefnilega sjálfu yfirvaldinu og hafa þegar komið mörgum óhæfum embættismönnum og kerfisköllum frá völdum. Slíkt ber lögreglunni að stöðva, sama þótt fylliraftar aki meðborgara sína niður á meðan löggan bjargar nokkrum vörubrettum frá bruna.

mbl.is Bál kveikt á Lækjartorgi

Lögreglan sýnir sitt rétta andlit

mbl.is Sturlu bannað að þeyta lúðra
Það er semsé rangt sem fulltrúar lögreglunnar halda fram, að hlutverk hennar við mótmælaaðgerðir sé að tryggja að mótmælendur geti komið boðskap sínum til skila. Hlutverk hennar er greinilega, eins og ég hef lengi haldið fram; að sjá til þess að mótmæli valdi yfirvaldinu ekki ónæði.Og hlífið mér við ‘bara að vinna vinnuna sína’ væli. Þessir menn hafa valið sér það hlutskipti að taka sér stöðu gegn þeim sem eru að reyna að knýja fram réttlæti. Það er engin afsökun að hafa valdníðslu  að atvinnu. Þeir sem kveikja á rafmagnsstólnum eru líka ‘bara að vinna vinnuna sína’.

Bara ekki rétta leiðin

Það er svosem rétt að þúsundir manna hafa dáið vegna utanrísisstefnu Georgs en að kasta skó í hann eru náttúrulega bara skrílslæti.

Við verðum að gera greinarmun á forsetanum Bush sem var bara að vinna vinnuna sína þegar hann lét drepa mann og annan, og manninum Bush, sem hefur ekkert af sér gert.

Það er kannski skiljanlegt að maðurinn sé reiður vegna allra þessarra dauðsfalla og hörmunga en hann verður að skilja að þetta er bara ekki rétta leiðin til að mótmæla. Auk þess skemmir svona skrílsháttur málstaðinn fyrir friðsömu mótmælendunum sem eru búnir að halda ræður og bera skilti allt frá upphafi Íraksstríðsins. Nú er öll þeirra vinna unnin fyrir gýg, vegna þessa ofbeldismanns.

mbl.is Skómaðurinn í haldi

Bara ekki rétta aðferðin 2

Allt í lagi að mótmæla en hann ætti að gera það löglega. T.d. að ræða málið vinsamlega við sjávarútvegsráðherra. Svona glæpastarfsemi skilar engum árangri og skaðar málstaðinn. Öflugir andstæðingar kvótakerfisins munu nú unnvörpum taka það upp á arma sína, allt vegna skemmdarfíknar Ásmundar sem eyðir dýrmætum tíma landhelgisgæslunnar til einskis.

mbl.is Ásmundur mótmælir enn