Víst!

-Ég man nú ekki almennilega eftir þessu. Hvenær mun þetta hafa verið?
-Manstu þetta virkilega ekki? Þetta var kvöldið sem þú svafst hjá Friðriki Atla.

Ég fann mig missa kjálkann niður á bringu.
-Er ekki í lagi með þig? Ég hef aldrei sofið hjá Friðriki Atla.
-Víst!
Halda áfram að lesa

Jaðarmaður knýr dyra

Eitt kvöldið knýr hann svo dyra einu sinni enn. Í þetta sinn opna ég því það er óhætt.

-Hvernig líður þér í hjartanu? spyr ég.
-Hjartað í mér dó í barnæsku, segir hann eins fráleitt og það nú er og kannski trúir hann því sjálfur. Halda áfram að lesa

Aldrei aftur Chernobyl

Stefán grillaði lúðu handa mér í kvöld. Drukkum Riesling sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Mér þykir vænt um fólk sem eldar ofan í mig.

Kertafleyting á tjörninni. Tíbet á morgun en við minnumst Chernobyl í kvöld. Halda áfram að lesa

Þú verður að skrifa …

Er það ég sem þoli afskiptasemi svona illa eða er annað fólk stöðugt að reyna segja mér hvað ég ætti að skrifa? Hversvegna í ósköpunum er allt þetta fólk sem telur heiminn hafa þörf fyrir fleiri glæpasögur, ástarsögur eða ævinsögur, ekki að hamast við að skrifa slíkar bókmenntir sjálft?

Ég gæti skilið þetta ef ég spyrði einhvern álits, væri með hundrað sögur í hausnum og vissi ekki hverja þeirra ég vildi skrifa eða bæði vini og vandamenn að lesa yfir handrit fyrir mig.

Er það bara ég sem verð fyrir þessu eða er fólk sífellt að reyna að stjórna lífi annarra? Geri ég þetta sjálf, óbeðin og án þess að taka eftir því? Vinsamlegast sparkið í mig ef þið standið mig að því.

Ég held að ég sé frá Júpíter

Ég er að lesa ‘You just don’t understand’ eftir Deborah Tannen.

Ég hef lengi dregið í efa þá kenningu að samskiptavandi kynjanna stafi af því að konur séu frá Venus og karlmenn frá Mars. Ég á nefnilega ekkert erfitt með að setja mig inn í hugsunarhátt Marsbúa (samkvæmt persónuleikaprófum hugsa ég að 53% eins og karlmaður) en þeim tekst samt að hegða sér eins og geimverur. Og ekki eins og þeir séu frá Venus heldur einhverju allt öðru sólkerfi. Ég skil Venusarruglugufuna þótt hún sé þreytandi og á alveg til að sökkva í hana sjálf. Ég ræð alveg við Marsbúann og kannast við durtsháttartilhneigingar hjá sjálfri mér. Ég ætti þessvegna alveg að skilja karlmenn hvort sem þeir eru frá Vensus eða Mars en um leið og ég held að ég sé að átta mig á þeim, kemur í ljós eitthvert fávitaelement sem var útilokað að ég gæti séð fyrir.

Eftir lestur þessarar bókar finnst mér kenningin um Mars og Venus ennþá fjarstæðukenndari. Ég skil ekki hvorttveggja heldur hvorugt og ég á satt að segja erfitt með að gera upp við mig hvort kynið mér finnst heimskara og verr innrætt.

Líklega er það ég sjálf sem er geimvera.

 

Hamskipti

Ef veruleikinn væri bíómynd kæmirðu til mín. Þú myndir setjast á rúmstokkinn og spyrja –hvernig byrjaði það? Og ég myndi segja þér sögu sem væri falleg og átakanleg í senn. Og þú myndir skilja.

Ef gult væri blátt væri rautt, hefðir þú kjark til að elska mig eins og á að elska.
Og ef gult væri einfaldlega gult, væri ég fær um að gera það sem ég geri best.
Og ef blátt væri blátt áfram. En svo er víst ekki.

Einu sinni þekkti ég mann sem var svo einmana að stærsta leyndarmálið í lífi hans var að hann átti ekkert leyndarmál. Ég gaf honum leyndarmál og hann var mjög þakklátur. Ekki beinlínis fyrir að hafa eignast leyndarmál, heldur fyrir að eiga leyndarmál með einhverjum. Samt var það hvorki fallegt né átakanlegt leyndarmál. Sem er í sjálfu sér allt í lagi því hann hefði hvort sem er aldrei sagt neinum leyndarmálið og saga er einskis virði fyrr en einhver fær að heyra hana. Hvað þá ef hún er ekki fögur og átakanleg.

Slíkt er eðli leyndarmála Baggalútur minn. Leyndarmál öðlast ekki líf fyrr en maður deilir því með öðrum Og þá er það ekki lengur leyndarmál heldur saga. Og þannig er þráin líka. Þú getur haldið áfram að þrá mig, endalaust, svo ákaft að þig verkjar í hjartað. En öll þessi þrá gerir ekki annað en að éta þig að innan fyrr en þú sleppir tökunum á henni og deilir henni með mér. Og það er þannig sem maður byrjar að elska.

Ég hef þráðarkorn að spinna þér held ég enn.
Slíkt er hlutskipti nornar.

Núna

-Kysstu mig.
-Núna?
-Er núna slæmur tími?
-Neeei, ekki þannig. Ég bara tek kossum mjög persónulega.
-Persónulega?
-Já. Ég get alveg sofið hjá þér samt. Eða ekki sofið heldur, þú veist …
-Skipst á líkamsvessum?
-Já, eða nei, ég er mjög hrifin af smokkum.

-Það er samt ekkert persónulegt þú veist. Þótt ég vilji ekki kyssa.

(Ókei, ég veit, það hljómar ekki beint rökrétt.)