Mannanafnalög eru ónothæf

Markmið mannanafnalaga er að stuðla að því að Íslendingar beri nöfn sem falla að beygingar- og hljóðkerfinu, lúti almennum stafsetningarreglum og séu fólki sæmandi.

Þegar listinn yfir leyfð mannanöfn er skoðaður kemur þó í ljós að undantekningarnar frá reglunum eru svo margar að reglurnar eru nánast ónothæfar. Það sem er leyfilegt í einu tilviki er bannað í öðru og þegar upp er staðið eru einu rökin þau að við séum orðin vön því að heyra annað nafnið en ekki hitt.

Getur stelpa borið strákanafn?

Djöfull finnst mér gott mál að til sé fólk sem lætur ekki yfirvaldið vaða yfir sig. Hvað í fjáranum eru yfirvöld annars að skipta sér af því hvort fólk gefur börnum sínum nöfn sem hefð er fyrir að hæfi öðru kyninu frekar en hinu? Ríkir ekki kyngervisfrelsi í landinu? Þarf ekki bara líka að skipa nefnd sem fylgist með því að hárgreiðsla og klæðaburður hæfi kyni?

Og hvaða rök eru svosem fyrir því að tiltekið nafn sé drengjanafn fremur en stúlkunafn eða öfugt? Siegfried er karlmannsnafn í öðrum málum, en í íslensku er Sigfríður kvenmannsnafn. Guðmar er strákanafn en bæði Guðný og Dagmar eru stelpunöfn. Á að vera eitthvert vit í þessu eða hvað?

Annars þætti mér gaman að vita hvort yfirvaldið ætlar að halda því fram að kona að nafni Blær, heiti karlmannsnafni. Og ef svo er, heitir þá drengur sem nefndur var Kolur hundsnafni? Hversu margar konur þurftu að ganga í buxum til að gera buxur að kvenmannsfílk? Ætlum við að halda okkur við 19. aldar hugsunarhátt eða sleppa tökunum á fordómunum og líta svo á að Kolur verði mannsnafn þegar það er gefið mannsbarni og Blær stúlkunafn um leið og telpa er nefnd Blær?

Ég gæti skrifað um andstyggð mína á mannanafnalögum í alla nótt en þarf víst að sofa eitthvað líka. En hér eru nokkrir gamlir pistlar um þá undarlegu rökvísi sem þau byggja á.

 

Mær um Mey

Íslendingar eru svo lánsamir að njóta leiðsagnar sér viturra fólks í flestum efnum. Þannig hefur blessað yfirvaldið t.d. á að skipa nefnd sérfróðra manna sem hefur þann starfa að hafa vit fyrir sauðmúganum þegar hann gefur börnum sínum nöfn. Það er líka eins gott því ef mannanafnanefndar nyti ekki við má ætla að fólk myndi nota tækifærið til að niðurlægja börnin sín með því að nefna stúlkur Íngismey Flatlús og drengi Jónabdullah Facebook Fiðrildareður. Halda áfram að lesa

Nokkur dæmi um rökvísi mannanafnalaga

Markmið mannanafnalaga er að stuðla að því að Íslendingar beri nöfn sem falla að beygingar- og hljóðkerfinu, lúti almennum stafsetningarreglum og séu fólki sæmandi. Þegar listinn yfir leyfð mannanöfn er skoðaður kemur þó í ljós að undantekningarnar frá reglunum eru svo margar að reglurnar eru nánast ónothæfar. Við skulum líta á nokkur dæmi: Halda áfram að lesa