Uppskrúfað fjölmenni

Það er engu líkara en að fjölmenni sé í tísku. Konur eru fjölmennari en karlar, börn fjölmennari en fullorðnir o.s.frv.

Ég hélt reyndar að orðið fjölmenni ætti við um hópa. Einn hópur getur verið fjölmennari en annar. Það merkir að í honum er fleira fólk. Það er ekki fleira fólk í konum en körlum. Konur eru einfaldlega fleiri. Þetta eilífa fjölmenni á kannski að hljóma gáfulega. Gefa til kynna að mælandinn hafi góðan orðaforða og sé vanur því að tala á fundum eða koma fram í fjölmiðlum.  Lúðar.

Skotsilfur

Var að fá reikning frá kortafyrirtækinu og sé að ég hef tekið út skotsilfur í síðasta mánuði. Í alvöru, þetta stendur á reikningum; skotsilfur. Sé fyrir mér miðaldariddara með silfurpeninga í leðurpyngju. Finnst einhverveginn að fimmþúsundkall afgreiddur úr hraðbanka hljóti að heita reiðufé en ekki skotsilfur.

Annars er orðið skotsilfur ekki að finna í Orðsifjabókinni. Skot eitt og sér getur merkt fjárframlag svo líklega er tengingin þaðan. Nema skotsilfur eigi eitthvað skylt við skotaskuld. Ellegar andskota. Það er náttúrulega alltaf doldið unskot að þurfa að borga reikningana sína.

—-

Þegar ég fann þessa stuttu færslu frá árinu 2005 hugsaði ég fyrst að kortafyrirtækin hlytu að hafa uppfært orðaforðann sinn síðan. En skotsilfrið virðist enn í fullu gildi.

Í erlendum löndum

Ósköp leiðist mér að heyra fólk tala um (eða sjá skrifað) það sem gerist „í erlendum löndum“. Ýmislegt gerist bæði vont og gott, erlendis, í útlöndum eða í öðrum löndum. Finnist mönnum þetta ekki nógu fjölbreytilegt val má segja utan lands, í fjarskanum eða úti í hinum stóra heimi. Í alvöru, það hlýtur að vera mögulegt að orða þetta á skammlausri íslensku.

Viðeigandi

Merkir ekki sögnin að náða það sama og að fella niður refsingu eða milda hana? Dálítið seint í rassinn gripið verð ég að segja. Væri ekki nær að gefa þessu fólki uppreisn æru? Kirkjan gæti svo játað sekt sína fyrir þessar hroðalegu mannfórnir og gert yfirbót með því að gefa allar eigur sínar til samtaka sem berjast gegn valdi trúfélaga.

Þú átt það skilið

Hvenær á maður eitthvað eitthvað skilið? Ég ólst upp við þá túlkun á orðasambandinu að það merkti það sama og að verðskulda eitthvað. Maður á eitthvað skilið af því að maður hefur á einhvern hátt unnið til þess.

Mér finnst mjög algengt að í dag sé þetta notað í sömu merkingu og að eiga rétt á einhverju. Maður getur hinsvegar vel átt rétt á einhverju án þess að verðskulda það. Fjöldamorðingi á t.d. rétt á mannúðlegri meðferð, sama hversu hrottalega hann hefur hegðað sér og ég á rétt á þjónustu þegar ég kem inn á veitingastað, þótt ég hafi ekki gert neitt annað en að koma þangað inn.

Hefur notkunin á orðunum ‘að eiga það skilið’ breyst eða er það bara mín fjölskylda sem leggur þennan skilning í málið?

Gæsaveislur og busavígslur

Orðskrípið „gæsun“ hefur valdið mér töluverðu hugarangri í mörg ár.  „Steggjun“ er ekki skárra. Hver er eiginlega hugsunin á bak við orðalagið að „gæsa“ konuna og „steggja“ karlinn? Ekki sú að halda veislu heldur að breyta hjónaleysunum í gæs og stegg? Hvernig beygist annars sögnin að gæsa? Gæsa, gæsaði, gæsað? Eða gæsa, gæsti, gæst? Síðari kosturinn er skömminni skárri.

Sömuleiðis hefur menningarfyrirbærið busavígsla víst breyst í „busun“ og nýnemar eru nú „busaðir“ við upphaf framhaldsskólagöngu sinnar.

Má af þessu ráða að eftir nokkur ár verði hjónavígsla „hjónun“ og nýgæst konan og nýsteggjaður karlinn verði ekki gefin saman heldur „hjónuð“. Prestsefnið verður „prestað“ og prestsvígslan sjálf kallast þar með „prestun“. Útskriftarathöfn stúdenta verður „stúdun“ en þar verða nýútskrifaðir námsmenn stúderaðir.

Sjálf er ég steinhætt að halda jól. Ég „jóla“ í stað þess að halda jólaboð og framkvæmi „jólun“ á híbýlum mínum í stað þess að skreyta húsið. „Afjólun“ fer svo fram 7. janúar ár hvert.

 

 

Ástríður

Ástríður er gott og gilt kvennafn, sett saman úr ást og -ríður (þessi Ríður er fremur fjöllynd) með áherslu á ást. Ást-ríður. Ástríður stírða aftur á móti á mannssálina og þær þurfa ekkert endilega að tengjast ást. Þessvegna er áherslan á á-ið. Semsagt á-stríður. Mikið vildi ég að auglýsingastofur og fjölmiðlar gerðu þá kröfu til starfsmanna sinna að þeir tileinki sér þokkalegt málfar, m.a. framburðarmun á Ástríði og ástríðum.