Lítill munur á kúk og skít

Með fullri virðingu fyrir Ögmundi flokksbróður mínum; hvað á það að fyrirstilla að velta sér upp úr þessu núna? Það eru engar fréttir að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson tóku ákvörðum um það, án samráðs við kóng, prest eða almenning, að gera okkur aðila að árás á þjóð sem ekkert hafði gert á hluta okkar. Það eru heldur engar fréttir að stór hluti þjóðarinnar var samþykkur, þ.e. nógu stór til að viðhalda stjórn þessara labbakúta.

Æ, Ögmundur! Það voru ekkert bara þessir tveir drulluhalar sem samþykktu aðild okkar að stríði. Það voru líka vinir okkar og ættingjar. Í raun er fólk eins og ég og þú samábyrgt þegar upp er staðið, því ef okkur væri ekki andskotans sama, hefðum við auðvitað slitið öllum samskiptum við þá fjölskyldumeðlimi, vini og kunningja sem við vitum að settu x við D eða B í síðustu alþingiskosningum. M.a.s. ég sjálf, sem á ekki í minnstu vandræðum með að afskrifa þá sem ofbjóða mér, hélt sambandi við fólk sem með atkvæði sínu lýsti sig hernaðarsinna svo líklega ristir hneykslun mín ekki sérlega djúpt.