Mikilvægasta máltíð dagsins

Fyrir mig er kvöldverðurinn mikilvægasta máltíð dagsins. Morgunmaturinn minn, sem er einn kaffibolli, er líka mikilvægur en ég myndi frekar sleppa honum en kvöldmatnum.

Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að morgunverðurinn sé mikilvægari en aðrar máltíðir. Það má vel vera að hann sé mikilvægastur fyrir íþróttamenn og fólk í erfiðisvinnu en margir finna ekki fyrir neinni þörf til að borða á morgnana. Og það er bara allt í lagi því það er ekkert sem bendir til þess að fólk hafi gott af því að borða ef það er ekki svangt.

Þetta hljómar bara eins og það sé eitthvað jákvætt

Til hvers að líta út fyrir að vera yngri? Langar einhvern að vera unglegur feitur, unglegur með kransæðastíflu, unglegur í fatnaði sem lítur út eins og tjald, unglegur í svitakófi, unglegur með sykursýki, unglegur með exem í fellingunum, unglegur í stöðugri baráttu við fáránlega löngun til að éta allar kökurnar í bakaríinu, unglegur með æðahnúta?

Offita er raunverulegt vandamál sem hefur í för með sér heilsubrest og getur leitt til ótímabærs dauða. Hún stafar í langflestum tilvikum af ofáti og ofát er hegðunarvandamál sem fólk getur tekist á við og upprætt hjá sjálfu sér. Að reyna að sætta fólk við slík vandamál með því að höfða til hégómagirndar er sjúkt, rangt og tilgangslaust.

Fólk yfir fertugu hefur fulla ástæðu til að óttast aukakílóin. Það er bara ósköp einfaldlega þannig að eftir fertugt geta fæstir reiknað með að halda áfram að troða í sig heilum kexpakka yfir sjónvarpinu án þess að hann setjist á maga og mjaðmir. Lausnin á því er einföld, maður hættir bara að kaupa kex þegar maður hefur augljóslega ekkert með það að gera. Og ég bara skil ekki hvað er svona sorglegt við það.

mbl.is Fitan yngir upp