Næturljóð

Mild,
hljóð,
ljúf,
læðist nóttin inn um gluggann.

Hlý,
mjúk,
þung,
læðist nóttin inn í hugann.

Og hún sveipar mig værð og hún fyllir mig friði
og augunum lokar svo enginn mig sér.
Og hún gefur mér tóm til að syrgja og sættast
við frumstæðar kenndir sem krauma í mér.
Því myrkrið er mjúkt og í mýkt þess er varin
sú mynd sem í birtingu brotnar sem gler.

 

Gímaldin samdi síðar annað lag við þennan texta og gaf út árið 2012.

Sálumessa

Af mold ertu kominn
til moldar skal hverfa þitt hold
og hvílast í ró
fjarri eilífð og upprisudómi
en af hverju grátum við dauðann
og greftrun í fold
ef sálin án líkama svífur
í tilgangsins tómi?

Og hver er þá tilgangur andans
ef hold verður mold
og tilgangur holdsins
ef tengslin við sálina rofna?

Eitt annarlegt faðmlag í myrki
á óræðum stað
svo holdlega andlegt
mun aftaka vafann um það;

af mold er mitt hjarta
og býður þér þreyttum að sofna.

Gímaldin samdi lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Sálmur

Þótt ríki í heiminum harðræði og stríð
skal hjarta þitt friðhelgi njóta,
í kærleikans garði þú hvílist um hríð
og hversdagsins þjáningar standa til bóta.
Veröldin sýnir þér vorgrænan skóg
svo vitund þín unun þar finni
og góðvildin, blíðan og gleðinnar fró
gróa í hugarró þinni.

Í garðinum vaxa þau vináttublóm
sem von þína á hunangi næra
og aldreigi þurfa að óttast þann dóm
sem árstíðasviptingar jörðinni færa.
Þín blygðun er ástinni óþurftargrjót
sem uppræti heiðarlegt sinni,
svo breiði hún krónuna birtunni mót
og blómstri í einlægni þinni.

Með auðmýkt skal frjóvga þau fegurðarkorn
sem falla í jarðveg þíns hjarta.
Í dyggðinni vitrast þér vísdómur forn
og val þitt mun samhygð og örlæti skarta.
Þó læðist að vafi, um lostann er spurt
ég læt mér það nægja að sinni,
að nefna þá staðreynd að nautnanna jurt
nærist á ástríðu þinni.

Gímaldin gerði síðar lag við þennan texta.

Stjörnurnar hennar Rebekku

Nú hylja skýin himins stjörnur sýnum
og helgrá fjöllin sveipa þokuslæður.
Á þorpið herjar hríðarbylur skæður
og hrekur lítinn fugl úr garði þínum.

Í mannsins heimi finnst þó fegurð síður,
þar fyrir völd og gróða berjast bræður
og fjandinn sjálfur flestum ríkjum ræður
er fátækt, stríð og spilling húsum ríður.

Þó áttu sjálfa veröldina að vini
því verðugt er að líta jörðu nær
þá fegurð sem við fætur þína grær,
í garðinum, frá götuljóssins skini
glitra allt um kring og undir skónum
þúsund stjörnur, þér til gleði, í snjónum.

Gímaldin gerði lag við þetta kvæði og gaf út 2012.