Bera foreldrar enga ábyrð?

Foreldrar senda börn sín í skólann, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, þótt þeir viti að þau séu lögð í einelti. Foreldrar horfa upp á maka sinn beita börnin ofbeldi, hvað eftir annað, jafnvel árum saman og gera ekkert í því. Foreldrar horfa upp sín eigin afkvæmi nídd og kvalin af öðru fullorðnu fólki og láta það viðgangast, jafnvel í aðstæðum þar sem barnið á sér engrar undankomu von, sbr. fréttina sem ég tengdi á.

Faðir drengs­ins var skip­verji á skip­inu og varð hann vitni að sumu því sem gert var við son hans. Haft er eft­ir hon­um í dómn­um, að hon­um hefði fund­ist hann hafa brugðist drengn­um með því að grípa ekki fyrr inn í en raun bar vitni. Hefði hann verið á sjó í 25 ár og aldrei upp­lifað hegðun eins og hafi tíðkast um borð í þessu skipi.

Og svo verður fólk hissa þegar maður segir að samfélagið einkennist af barnfyrirlitningu.

Fyrirgefið að þið skulið hafa pínt mig

Nokkrum árum eftir þennan atburð stóð ég sjálfa mig að því að gera lítið úr eineltismáli.

Strákur í bekknum mínum var settur hjá og þegar verst lét áreittur. Hann var klaufi í samskiptum eins og flest eineltisbörn og reyndi stundum að komast inn í hópinn með því að spila sig töffara en það fór honum illa. Hann sætti ekki ofbeldi en engum duldist að hann var neðstur í goggunarröðinni og honum var sjaldan boðið að vera með í neinu.

Einhverju sinni reyndi einn kennarinn að gera okkur ljóst að við værum vond við hann og það að ástæðulausu, Ég sagði honum að stráksi væri vanhæfur í samskiptum og að hann væri að gera allt of mikið úr þessu. Ég hafði árið áður verið í bekk með strák sem var beinlínis píndur. Svo alvarlega að hópar sátu fyrir honum á leið úr skólanum, það var vakað yfir hverri hreyfingu hans, hann hæddur endalaust og jafnvel laminn. Mér varð það á að verja hann og einangraðist sjálf fyrir vikið því það þótti ekki fínt að vera ‘horkögglasleikja’. Ég ætlaði ekki að falla í þá gryfju aftur en auk þess fór allt sem þessi kennari sagði öfugt ofan í mig.

Kennarinn svaraði því til að þótt einelti (ég held reyndar að hann hafi verið fyrsta manneskjan sem ég heyrði nota það orð) viðgengist í einhverjum öðrum skóla, sæi hann ekki átæðu til að umbera það sjálfur. Ég skildi hvað hann átti við og var honum sammála. Hinsvegar þoldi ég hann ekki. Reyndar hafa fáir menn farið jafn mikið í taugarnar á mér og ég fann mig knúna til að mótmæla öllu sem hann sagði. Ég hélt því fram gegn betri vitund að hann væri að tala um alls óskylda hluti og að eina vandmálið sem þessi drengur ætti við að stríða væri honum sjálfum að kenna. Staða drengsins í hópnum breyttist ekki en líklega hafa einhverjir stillt sig um að láta fyrirlitningu sína í ljós svo kennarinn heyrði.

Mörgum árum síðar hringdi þessi maður í mig og sagðist vilja biðja mig afsökunar ef hann hefði einhvern tíma gert eitthvað á minn hlut. Ég mundi nú ekki eftir neinu öðru en því að hann hafði einhverntíma tekið þátt í því að kíkja inn í sturtuklefann. Ég mundi hinsvegar eftir mörgum atvikum þar sem ég hefði getað verið almennileg við hann en hunsaði hann, þar sem ég hreytti ónotum í hann fyrir sakir sem ég hefði ekki gert athugasemdir við ef einhver annar hefði átt í hlut. Hann var einlægur og ekki að heyra að hann teldi mig bera neina ábyrgð. Ég spurði manninn hvers konar rugl þetta eiginlega væri, hann hefði sjálfur verið þolandinn.Hann sagðist vera nýkominn úr áfengismeðferð og það væri hluti af batanum að biðja alla sem maður hefði skaðað afsökunar.

Seinna frétti ég að hann hafði hringt í hin bekkjarsystkinin líka. Þá missti ég endalega álitið á AA samtökunum

 

Eskimóaskíturinn

Ég held að ég hafi verið 8 ára þegar lítill strákur af inúítaættum var gestkomandi í þorpinu í nokkra daga. Einhverju sinni var ég að leika mér við heimili skólasystur minnar ásamt fleiri krökkum og við heyrðum köll berast úr næstu götu, það var greinilega verið að stríða einhverjum. Ein stelpnanna spratt á fætur, svona líka glöð.

Halda áfram að lesa