Hvaðan kemur þessi sýra?

Í nótt var ég í eldhúsinu að djúpsteikja rækjur (sem ég geri aldrei) af því að stöðugleikastjórnin var að koma í mat. Ég hafði boðið öllu liðinu í mat til að kynna þeim splunkunýja stjórnarskrártillögu sem engill drottins hafði fært mér á gulltöflum. Ég gerði mér grein fyrir því að það kynni að þykja ótrúverðugt og var eitthvað að velta því fyrir mér hvort yrði kannski bara trúverðugra að eigna sjálfri mér krógann. Í draumnum hafði ég samt engar áhyggjur af því að sú staðreynd að ég var í kafarabúningi, með froskalöppum og súrefniskút, kynni að hafa áhrif á trúverðugleika minn.

Egg í sultu

Dreymdi að ég væri þáttakandi í raunveruleikaþætti kokka. Verkefnið var að útbúa rétt sem lýsti ríkisstjórn DVB. Minn réttur var linsoðin egg í rabarabarasultu.

Ég útskýrði að Vg væru rauðan, Sjallar hvítan og Framsókn sultan, af því að rabarabrasulta væri bæði þjóðleg og klístruð. Ég skil þetta með sultuna en veit ekki hversvegna Vg og Sjallar ættu að líkjast eggi.

Ég vissi að þetta gæti ekki verið góður réttur en verkefnið var ekki að elda eitthvað gott, heldur táknrænt.

Tannheilsuráðherrann

Fann ekki mynd af hans hátign en þetta mun vera dóttir hans súkkulaðiprinsessan

Mig dreymdi að kóngurinn í Sælgætislandi væri orðinn tannheilsuráðherra. Ég hafði ákveðnar efsemdir um að hann væri rétta manneskjan i djobbið en þetta kom mér samt eiginlega ekkert á óvart. Glámur og Skrámur komu ekki fyrir í draumnum en Kata Jakobs var ægilega reið út af þessu og sagði „blimy barasta“ þegar Ríkisútvarpið spurði hana álits.

Mig dreymir um Fálkaorðuna

Draumfarir næturinnar: Ég hafði tekið að mér að veita og afhenda fálkaorðuna.

Þeir sem ég taldi verðuga voru Margrét Tryggvadóttir fyrir að hafa ekið hjólbörum, fullum af grænum piparkornum yfir Öræfajökul, og Lommi, fyrir að hafa fundið upp ostaskera þeirrar náttúru að með honum mátti sneiða stjórnarskrána og hafa hana ofan á brauð.

Ennfremur tilkynnti ég „the High Commissioner for Governmental Bling-Bling“ í símskeyti með mynd af Landspítalanum, að orðan yrði hér eftir veitt á stafrænu formi.

Konan sem kláraði smjörið

Myndin er skjáskot úr myndbandi (youtube.com/watch?v=2WBRloSIEf8)

Mig dreymdi að ég hefði gefið út ljóðabók sem hét Konan sem kláraði smjörið og var svo framúrstefnuleg að ég skildi ekki orð í henni sjálf. Ég hafði einhverjar efasemdir um að hún myndi seljast í bílförmum en vissi að ég var dottin í lukkupottinn þegar Gísli Ásgeirsson tók upp á því að auglýsa hana í Costco hópnum.

Ég sagði frá draumnum á Facebook (þegar ég var vöknuð semsagt) og Gísli Ásgeirsson svaraði að bragði

„Samkvæmt draumheimildum mínum (sem ég tel næsta öruggar) er þetta fyrsta ljóðið í bókinni.

Mest er hún fyrir fjörið
og fyllir helst á sér rörið
kátínan dafnar
því kílóum safnar:
Konan sem kláraði smjörið.“