Brugg

Verkefni dagsins er að brugga skáldamjöð. Ekki veitir af, ég hef ekki skrifað almennilegan texta í margar vikur, hvað þá að ég hafi ort kvæði. Syngipartý annað kvöld. Það eru sjálfsagt fáir sem gera sér almennilega grein fyrir því en aktivismi er t.d. það að syngja í stað þess að líta eingöngu á tónlist sem neysluvöru. Auk þess er ég ekki ennþá búin að jarða síðustu vonbrigði mín og ætli sé ekki kominn tími á Völuvísu.

Allt að gerast

Allar aktivistahreyfingar ættu að eiga a.m.k. eina ömmu. Okkar amma fann lausn á þessu með blóðið. Allt er að skríða saman og svo er líka nýtt tungl. Ég hef nú svosem ekkert auglýst þetta en vona að mínir dyggustu lesendur mæti og taki þátt í galdrinum því það þarf mikinn ofsa til að vinna á stóriðjuþursinum.

Og nei, þetta er ekki grín.

Inn vil ek!

Þegar Byltingin mætti til afplánunar inn í Hverfisstein, stundvíslega kl. 13 þann 6. ágúst, munaði litlu að hann þyrfti að brjóta sér leið inn. Engin kannaðist við að eiga von á honum og hann var m.a.s. beðinn að leggja fram boðun í afplánun til sönnunnar. Það vildi svo vel til að hann var með boðunina með sér, svo hann losnaði til að fremja glæp á staðnum til að fá inngöngu. Halda áfram að lesa

Forgangsmálin

Sonur minn Byltingin var dæmdur til 18 daga fangavistar fyrir að trufla stóriðjufyrirtæki við þá iðju sína að eyðileggja jörðina. Þetta er algengur dómur fyrir ölvunarakstur enda mun dómskerfinu þykja það álíka alvarlegur glæpur að stofna lífi og limum vegfarenda í hættu og að minna stjórnvöld og stórfyrirtæki á að til er fólk sem ætlar ekki að horfa aðgerðarlaust upp á náttúruspjöll og mannréttindabrot í þágu áliðnaðarins. Halda áfram að lesa