Mitt fyrsta ljóð

Ég var nú svo lítil að ég man ekkert eftir því sjálf en móðir mín sagði mér einhverntíma sögu af mínum fyrstu skáldskapartilburðum. Ég var víst bara rétt orðin talandi og ekki búin að læra rím og stuðla.

Ég sat á rauða gólfteppinu í Efstalandinu og söng:

Afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi.
Amma stóð við gluggann og horfði út
„Ætlar karlhelvítið ekkert að fara að koma?
Ja sá sklasko heyra það þegar hann kemur.“

Ég sel þessa sögu ekki dýrara en ég keypti hana og þess ber að geta að móðir mín er ennþá lygnari en ég sjálf. Ég minnist þess þó að hafa sagt sklasko fram yfir fimm ára aldur.