Svör Sundstofu og fleiri orð í belg

sundÍ gær undraðist ég stofnun sérstakrar „Sundstofu“ og fyrirhugaðar rannsóknir á hennar vegum, sem áætlað er að verði gerðar í kjölfar könnunar á vef Þjóðminjasafns.  Valdimar Tr. Hafstein, talsmaður Sundstofu er í vinnuferð (ekki þó við sundrannsóknir) en hefur þrátt fyrir annir gefið sér tíma til að svara hluta þeirra spurninga sem ég beindi til hans. Kann ég honum bestu þakkir fyrir skjót viðbrögð þótt enn sé mikilvægum spurningum ósvarað.

Sundstofa er „rannsóknarvettvangur um félagslega nýtingu heita vatnsins“

Samkvæmt upplýsingum Valdimars er Sundstofa ekki sérstök ríkisstofnun heldur formlegur vettvangur fyrir rannsóknarsamstarf þriggja háskólakennara og nemenda þeirra. Hún hefur ekki sérstakan forstöðumann heldur skipa fræðimennirnir þrír stjórn hennar. Tilgangur Sundstofu er:

að rannsaka meðal margs annars félagslega notkun heits vatns, líkamsmenningu og daglegt líf í opinberu rými, t.a.m. sundlaugum.

„Félagsleg notkun heits vatns“ mun vera það sem sauðheimskur almúginn kallar sundlaugar og almenningsböð.

Enginn kostnaður hlýst af rekstri Sundstofu. Ég hef áður fengið þau svör við spurningum mínum um kostnað við vísindarannsóknir að þær kosti ekkert. Það finnst mér áhugavert og tel ég fulla ástæðu til að Íslendingar kynni á alþjóðavettvangi þann einstaka hæfileika sinn að geta stundað umfangsmiklar rannsóknir án nokkurra fjármuna.

Valdimar var svo vinsamlegur að senda mér kynningarblöðung þar sem m.a. kemur fram að heiti potturinn sé vinsælasti samkomustaður landsins og „félagslegt mæliker“ og því sé ástæða til að rannsaka sundmenningu Íslendinga.  Ekki kemur fram hvernig höfundar bæklingsins viti að heiti potturinn sé vinsælli en t.d. kaffihús.

Svör við spurningum mínum um Sundstofu má lesa hér.

Hversvegna er hópverkefni skreytt með stofnanatitli?

Nú er mér hulin ráðgáta hversvegna samvinnuverkefni er kallað „stofa“ eins og um rannsóknarstofnun sé að ræða en það virðist nokkuð algengt á Íslandi að ef tveir eða fleiri fræðimenn vinna saman að þeim rannsóknarstörfum sem þeir fá greitt fyrir, þá þurfi að koma á fót sérstakri „stofnun“ í kringum það starf. Á vegum HÍ eru reknar 85 rannsóknastofnanir og eru þá ótalin ýmis rannsóknasetur víða um land. Þarf skóli sem ekki er stærri en HÍ virkilega 85 rannsóknastofnanir? Hversvegna þarf t.d. sérstaka Tannlæknastofnun? Er  Tannlæknastofnun að fást við eitthvað allt annað en vísindamenn Tannlæknadeildar? Eru það einhverjir aðrir vísindamenn en starfsmenn Tannlæknadeildar sem skipa Tannlæknastofnun? Eða hefur Tannlæknadeild búið til rannsóknastofnun í kringum sjálfa sig eins og helst má ráða af lýsingunni á verkefnum hennar? Ef svo er; hversvegna var þörf á því?

Og hversvegna er hópverkefni kallað „Sundstofa“?  Eru vísindamennirnir sem að Sundstofu standa að reyna að ljá ómerkilegri spurningakönnun vísindalegt yfirbragð? Eða er þetta bara eitthvert flipp? Kannski svona „Hey strákar, eigum við að vera ógissla fyndnir og kalla okkur Sundstofu?“

Spádómur minn um niðurstöður

Ég spái því að helstu niðurstöður úr títtnefndri spurningakönnun á vef Þjóðminjasafns verði eftirfarandi:

-Að sundlaugar gegni veigamiklu hlutverki í félagslífi Íslendinga.
-Að í heita pottinum fari fram umræður um aðskiljanlegustu mál, þ.m.t. pólitík.
-Að hluti þátttakenda hafi orðið vitni að skorti á snyrtimennsku meðal sundgesta.
-Að samskipti í sundlaugum fari fram á meiri jafnréttisgrundvelli en á þurru landi, þar sem fólk „varpi af sér ytri merkjum samfélagsstöðu sinnar“ (á mannamáli er það kallað að afklæðast) áður en gengið er til laugar.
-Að nokkuð hátt hlutfall sundlaugagesta telji félagslegan hluta heimsóknarinnar amk jafn mikilvægan og líkamsræktina sem sundið býður upp á.

Allt þetta vita Sundstofustjórarnir þrír nú þegar en það verður væntanlega mikill fengur fyrir vísindasamfélagið að fá þetta staðfest og vafalaust mun almenningi þykja tíma háskólamanna vel varið. Spurningalistinn á vef Þjóðminjasafns er þó aðeins byrjunin, því ætlunin er, þegar fram líða stundir, að bjóða fleiri fræðimönnum til samstarfs.

Er spurningakönnunin góður vísindagrunnur?

Vonandi finnur Sundstofa sér verðug rannsóknarverkefni og vonandi verða vísindalegar aðferðir viðhafðar. Mér finnst þó sérkennilegt að ákveða fyrirfram að svörin við spurningalistanum á vef Þjóðminjasafns muni gefa tilefni til þverfaglegra rannsókna og allmargra meistararitgerða. Einkum finnst mér sérkennilegt að ganga út frá því að þeir sem af eigin frumkvæði skila inn svörum við umfangsmiklum ritgerðaspurningum gefi áreiðanlega mynd af þeim stóra og sundurleita hópi sem í meira eða minna mæli stundar sundlaugarnar.

Svo virðist sem Sundstofa leggi upp með fyrirframgefnar hugmyndir um að sundlaugar séu lykilvettvangur fyrir félagsleg samskipti og að umræður í heita pottinum séu merkilegri þjóðarspegill en þær sem fara fram á öðrum vettvangi. Kannski hefði verið heppilegt að fá það staðfest áður en mynduð var einhverskonar stofnun í kringum þá sannfæringu.