Sóðaskapurinn hjá DV

Í síðasta pistli varpaði ég fram spurningum sem vöknuðu hjá mér við umfjöllun Rásar 2 um mál Romylyn Patty Faigane frá Filippseyjum. Aðrar og ógeðfelldari spurningar vekur þessi umfjöllum DV um málið, m.a. spurningar um það hvort markmið fréttarinnar sé það að varpa gruni um skjalafals á stúlkuna eða einhvern úr fjölskyldu hennar að ósekju.

Það er sjálfsagt að fjalla um mál frá öllum hliðum og sé það rétt að fjölskyldan hafi gefið misvísandi upplýsingar er eðlilegt að það komi fram. Hinsvegar er rétt að hafa í huga að misræmi getur átt sér eðilegar skýringar og það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk muni hvert einasta smáatriði máls sem hefur verið að velkjast í kerfinu árum saman, hvað þá þegar ætla má að það sé í uppnámi vegna fjölskylduharmleiks. Þungamiðjan í frétt DV er sú hugmynd, sem berlega er gefin í skyn, að fjölskyldan hafi falsað yfirlýsingu frá föður stúlkunnar og yfirskriftin á fréttinni er „Látinn faðir“ gaf yfirlýsingu. Þessi hugmynd um flasaða yfirlýsingu frá látnum manni er svo rökstudd með vægast sagt vafasömum hætti. DV telur sig sennilega hafa gætt hlutleysis með því að bjóða stúlkunni og stjúpföður hennar að tjá sig um frétt, sem greinilega er ætlað að níða mannorð þeirra, vitandi að stúlkan hafði fengið skilaboð um að henni bæri að yfirgefa landið næsta dag. Þetta eru ekki bara léleg vinnubrögð heldur beinlínis andstyggileg.

Rök DV fyrir aðdróttun sinni um skjalafals fjölskyldu umsækjandans eru tvenn; að 2008 hafi Útlendingastofnun óskað eftir dánarvottorði fyrir föður stúlkunnar, og að stúlkan hafi sjálf undirritað yfirlýsingu um dauða föður síns sem dagsett sé fyrir þann dánardag sem stjúpfaðir hennar gefur upp. Einnig er umsókn hennar um dvalarleyfi gerð tortryggileg með því að benda á að samkvæmt vinalistum fjölskyldunnar á fb eigi stúlkan ættingja á Filippseyjum. Einnig það er talið fram sem „misræmi í gögnum“.

Það er vissulega athyglisvert ef UTL hefur óskað eftir dánarvottorði 2008 þótt maðurinn hafi ekki látist fyrr en 2009. Ekki kemur fram í fréttinni hversvegna UTL óskaði eftir dánarvottorði en ég dró þá ályktun að Patty hefði undirritað yfirlýsinguna um dauða föður síns 2007. Það var rangt skilið hjá mér, DV býður semsagt ekki upp á neina skýringu. Ég veit ekki meira um þessa beiðni UTL en aðrir lesendur DV, nærtækasta skýrining er sú að þar sem maðurinn hafi ekki fundist hafi vaknað spurning um hvort hann væri látinn en ekki er að sjá að nein yfirlýsing um dauða mannsins hafi verið undirrituð fyrr en löngu síðar. Með því að spyrða ósk um dánarvottorð saman við yfirlýsingu stúlkunnar um dauða föður síns tekst blaðamanni DV hinsvegar að vekja grun lesandans um að stúlkan og fjölskylda hennar hafi staðhæft að maðurinn væri látinn, tveimur árum áður en hann dó. Sé sú raunin að eitthvað liggi fyrir um slíkar fullyrðingar, hlýtur DV geta sagt það hreint út.

Í viðtali síðdegisútvarpsins við forstjóra Útlendingastofnunar daginn áður en þessi frétt DV birtist, kemur fram að faðir stúlkunnar hafi verið á lífi 2008, sem hlýtur þá að merkja að UTL hafi tekið leiðréttingu konsúlsins á dánarvottorðinu gilda. Vitnað er í þetta sama viðtal í frétt DV, svo blaðamanninum sem vann fréttina ætti því að vera kunnugt um að UTL gengur út frá því að maðurinn hafi látist 2009. Að vísu er það haft eftir Ellert, stjúpföður stúlkunnar,  manni sem beinlíns er verið að reyna að gera tortryggilegan, að þarna hafi verið um að ræða innsláttarvillu sem búið sé að leiðrétta en þrátt fyrir það og jafnvel þótt viðtalið við Kristínu, forstjóra UTL, virðist staðfesta að maðurinn hafi látist 2009, kýs blaðamaðurinn þessa ósmekklegu og villandi yfirskrift á fréttinni.  Finnst ykkur þetta í lagi?

Sé það rétt að stúlkan og/eða einhverjir fjölskyldumeðlima hennar séu ekki samhljóða dánarvottorði um dánardag mannsins, finnst mér eðlilegast að túlka það misræmi sem merki um að hún hafi haft harla lítið af föður sínum að segja. Fólk man venjulega dánardag nánustu fjölskyldumeðlima. Það að þetta skuli dregið fram og sett í samhengi við meint misræmi í gögnum, virðist helst þjóna þeim tilgangi að gera dvalarumsókn stúlkunnar grunsamlega.

Þó tekur steininn úr þegar blaðamaður fer að fabúlera um vinalista fjölskyldunnar á fb. Það hvernig fólk skráir fjölskyldu sína á fb segir vitanlega ekkert um raunveruleg tengsl. Margir eiga hundruð fb vina sem þeir hafa aldrei hitt í eigin persónu og það er alvanalegt að fólk eigi frændfólk sem það hittir eingöngu við brúðkaup og jarðarfarir en hefur engin tengsl við að öðru leyti. Það eru ekki fjölskyldubönd sem slík sem ráða því hverjir eru aðstandendur manns, ekki heldur forsjárvottorð. Öruggasta heimildin fyrir raunverulegum tengslum er sú hversu mikið fólk sækist eftir návist og samskiptum, þetta vita allir, líka forstjóri Útlendingastofnunar og blaðamenn DV.

Fyrir utan þessa ómerkilegu fréttamennsku er svo bagaleg villa í frétt DV. Sagt er að í yfirlýsingu afans sé því haldið fram að ekkert sé vitað hver faðirinn er. Þetta er rangt. Þar kemur hinsvegar fram að fram til þess dags sem bréfið er ritað, hafi ekki verið vitað hvar hann hafi haldið sig og að enginn annar en afi telpunnar og móðir hafi annast hana. Nú væri kannski eðilegast að líta á þetta sem innsláttarvillu hjá DV en þegar innsláttarvilla upp á einn sérhljóða gerbreytir merkingu málsgreinar og getur haft áhrif á túlkun fréttarinnar allrar, þá væri allavega eðlilegt að fjölmiðill leiðrétti slíka villu eftir að hafa fengið ábendingu um að rangt sé farið með. Einkum væri það viðeigandi þegar fréttin sjálf snýst um það að nota innsláttarvillu á dánarvottorði þess að búa til frétt um skjalafals. Nú meira en tveimur sólarhringum eftir birtingu fréttarinnar hefur þetta  enn ekki verið leiðrétt, þrátt fyrir að ábendingu um villu. Einnig það vekur spurningu, spurningu um hvort aðstandendum þessa fjölmiðlis sé virkilega bara alveg sama þótt fréttir sem varða viðkvæm mál varnarlauss fólks, fréttir sem þeir bera ábyrð á, séu villandi, meiðandi og jafnvel rangar.

_________________________________________________________________________

One thought on “Sóðaskapurinn hjá DV

  1. Tek undir hvert orð Eva.

    Hef verið oft ánægður með DV, þá sérstaklega í umfjöllun sinni um hrunið og orsakavalda þess, en þarna fór þessi tiltekni blaðamaður alveg með það.

    Vona að þeir sjái sóma sinn í því að fjalla um þetta mál með vandaðri hætti í framtíðinni.

Lokað er á athugasemdir.