Skólabókardæmi

Ég sat á Kastrup flugvelli og réði sudoku gátu. Á sama bekk lá maður sofandi. Hann var snyrtilegur en ekki með farangur.

Þegar ég hafði setið þarna í líklega 20 mínútur kom öryggisvörður sprangandi, nokkuð valdmannslegur í fasi og tók sér stöðu fyrir framan hinn sofandi mann.

-Hello, hello. This is a wakeup call! hrópaði hann. Maðurinn sem svaf bærði á sér en settist ekki upp. Öryggisvörðurinn kallaði aftur og nú settist maðurinn upp og leit í kringum sig, greinilega dálítið seinn að vakna og ég fékk á tilfinninguna að honum þætti hávaðinn óþægilegur, enda greinilegt að margir voru að fylgjast með.
Öryggisvörðurinn spurði manninn, hátt og snjallt svo allir heyrðu, hvort hann væri með brottfararspjald.
-Nei, sagði maðurinn sem svaf . Flugið mitt er ekki fyrr en seinni partinn svo ég er ekki búinn að skrá mig inn.
-Hvaðan ertu?
-Frá Englandi.
-Jahá, og hvar í Englandi býrðu?
Maðurinn var nú almennilega vaknaður og þótti þetta greinilega frekar dónaleg spurning.
-Ég er ekki viss um að það sé þitt mál, eða hefur þú einhvern rétt til að spyrja fólk um persónulega hagi þess, sagði hann.
-Ég spurði nú bara, sagði öryggisvörðurinn, ögn auðmýkri. Hvenær er flugið þitt, bætti hann við.
Maðurinn sem svaf var greinilega orðinn pirraður.
-Sjáðu til, herra minn, ef þú álítur að ég hafi brotið lög, vertu þá svo vænn að kalla á lögregluna. Að öðrum kosti skaltu vera svo vænn að láta mig í friði, sagði hann nokkuð snúðuglega.

Öryggisvörðurinn sté 5-6 metra til baka og tók upp talstöð. Stuttu síðar birtist annar öryggisvörður. Sá gekk rólega að manninum á bekknum, tók í höndina á honum og kynnti sig. Svo settist hann niður.
-What I really hate about my job is being asked to bother people who are basically just minding their own business, sagði hann.
Maðurinn sem svaf svaraði ekki.
-Það líður varla dagur án þess að við verðum ekki varir við einhverja hryðjuverkamóðursýki, hélt öryggisvörðurinn áfram. Stundum erum við beðnir að angra fólk bara af því að það lítur út fyrir að vera heimilslaust eða af arabiskum uppruna nú eða þá eins og í þínu tilviki, bara af því að það hefur sofið hér.
Maðurinn sem svaf þagði áfram. Öryggisvörðuinn þagði líka. Að lokum var það maðurinn sem svaf sem rauf þögnina.

Hann rakti raunasögu sína fyrir öryggisverðinum. Hann hafði komið til Kastrup að kvöldi og verið búinn að panta og borga fyrir gistingu. Hafði farið á pöbb um kvöldið og þegar hann kom þaðan út hafði einhver ráðist á hann og kýlt hann í andlitið. Hann sýndi öryggisverðinum brotin gleraugu og rödd hans bar vott um geðshræringu. Öryggisvörðurinn skoðaði gleraugun og hafði orð á því að maðurinn væri bólginn.
-Ég ætlaði að leita að lögreglustöð og kæra þetta en var drukkinn og fann enga löggustöð. Svo var ég orðinn villtur og fann ekki gistiheimilið og á endanum ákvað ég að koma bara hingað. Æjá, ég þarf að sækja farangurinn minn, sagði hann svo, greinilega dálítið miður sín.
-Þetta hlýtur að hafa verið óþægileg reynsla. Það er lögregluvakt hér á flugvellinum svo ef þú vilt leggja fram kæru get ég fylgt þér þangað, sagði öryggisvörðurinn,

Maðurinn sem svaf þáði þaðb með þökkum. Hann bauðst til að sýna öryggisverðinum flugmiðann sinn en hann afþakkaði.

Ég leit í kringum mig en sá engar myndavélar eða neitt annað sem benti til þess að verið væri að taka upp kennsluefni fyrir öryggisverði. Líklega var þetta bara ekta. Ég gæti trúað því að sá sem kom síðar að máli við manninn sem svaf, eigi ánægjulegra einkalíf en hinn.

TJÁSUR

Munurinn á þessum öryggisvörðum getur legið í mismunandi magni af eðlislægri tilfinningagreind.

Posted by: anna | 15.09.2010 | 12:45:22

Já, tilfinninga- og félagsgreind eru vanmetnar greindir

Posted by: Sliban | 16.09.2010 | 10:20:52