Sigríður Andersen og rottan

SA skjáskot http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/vidtal-utlendingalogÞegar ég var unglingur heyrði ég umræðu um söfnunarátak Hjálparstofnunar kirkjunnar, skömmu fyrir jól. Þar kom fram sú skoðun að það væri ekki skynsamlegt að gefa fé til neyðaraðstoðar því hjálparstofnanir gætu stolið peningunum. 

Ég spurði pabba hvort hann héldi að væri eitthvað til í þessu. Pabbi minn er mikill rólyndismaður og reiðist sjaldan en í þetta sinn þykknaði yfir honum. Hann útilokaði ekki að þörf gæti verið á eftirliti með hjálparstofnunum en hafnaði því alfarið að lausnin væri sú að neita að taka þátt í neyðaraðstoð. Það sem stakk mig mest var að faðir minn, sem yfirleitt ætlar fólki allt hið besta, dró í efa heilindi þeirra sem nota slíkan fyrirslátt sem rök gegn því að gefa smáaura til hjálpar nauðstöddum. Ég man ekki hvað hann sagði orðrétt en það var eitthvað í þessa veru:

Sá sem gengur fram á hungrað barn og neitar að gefa því brauð ætti að viðurkenna að hann vilji ekki hjálpa því. Myndirðu taka mark á manni sem segði þér að hann hefði neitað svöngu barni um brauð af því að þá kæmi kannski rotta og æti það og hann vildi ekki fóðra rotturnar?

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á Kastljós gærkvöldsins og heyrði fráfarandi dómsmálaráðherra tefla fram þeim „rökum“ gegn því að veita flóttabörnum hæli, að kannski gætu glæpamenn misnotað þá mannúð.  Í sama viðtali segir Sigríður frá því, kinnroðalaust, að Útlendingastofnun hafi í hennar umboði, rekið 100 börn úr landi á þessu ári. Ekki nóg með það heldur verður ekki betur séð en að hún telji að það sé málflutningi hennar til framdráttar.

Satt að segja finnst mér sá sem beitir opinberu valdi til þess að neita börnum um aðstoð, með rottuna að yfirskini, vera ennþá siðlausari en rottan sjálf.

Myndin er skjáskot úr Kastljóssþættinum sem vísað er til

Share to Facebook