Saga strokuþræls – sagan í heild

Mouhamed Lo fæddist í ánauð einhversstaðar í suðurhluta Máritaníu. Hann telur líklegast að hann sé fæddur um miðjan desember 1988 en þar sem fæðingar þrælabarna eru hvergi skráðar, er útilokað að fá það staðfest. Fæðingarstofan var tjaldið sem foreldrar hans bjuggu í og fæðingalæknirinn ólæs kona sem hafði numið af móður sinni og hafði óljósa hugmynd ef þá nokkra, um nútíma lyf og lækningatól.

Engum sögum fer af því hvort húsbóndinn gladdist yfir sjálfbærni búskaparins en miðað við annan búpening eru þrælar ódýrir í Máritaníu svo við getum verið nokkuð viss um að fæðing úlfaldakálfs hefur þótt fréttnæmariMouhamed ólst upp hjá foreldrum sínum og litlu systur en foreldrum hans varð ekki fleiri barna auðið. Þau bjuggu úti í eyðimörkinni og tilheyrðu samfélagi u.þ.b. 50 þrælafjölskyldna sem héldu saman. Tjöldum var slegið upp með 1-2 km millibili og hver fjölskylda sá um hjarðir síns húsbónda. Fyrstu bernskuminningar Mouhameds snúast um vinnu en hann gekk eins og önnur þrælabörn til verka með foreldrum sínum frá frumbernsku.

Daglegt líf í þrældómi

Líf eyðimerkurþræla er erfitt. Flestir þeirra eru úlfaldahirðar og vinna karlmannanna felst í því að fylgja hjörðunum á beit og brynna þeim. Karlarnir vinna saman 4-5 í hóp ásamt sonum sínum, hver og einn ábyrgur fyrir sinni hjörð en þeir hjálpast að við að elta uppi strokudýr og útvega eldivið og hafa félagsskap hver af öðrum í hjásetunni. Konurnar sinna sauðfé og nautgripum auk matseldar, þvotta og annars heimilshalds. Vinna kvennanna útheimtir ekki síður líkamlegt erfiði en störf karla en úlfaldar eru of hættulegir til að það teljist kvenmannsverk að hirða um úlfalda og venjulega er konum hlíft við því. Ef karlmaður veikist eða deyr, þurfa konurnar þó að ganga í þeirra verk því eigandanum kemur það ekkert við hverjar aðstæður þrælanna eru, þeirra verk er að sinna skepnunum hvernig sem á stendur og vilji þeir komast hjá refsingum verða þeir bara sjálfir að finna leiðir til að komast yfir verkefni sín.

Hjá Mouhamed hófst dagurinn fyrir sólarupprás með bænahaldi og lestri Kóransins. Í birtingu hélt hann svo til vinnu ásamt föður sínum en venjulega tjaldaði fjölskyldan í1-2ja km. fjarlægð frá beitilandinu. Eitt af verkefnum Mouhameds og annarra smástráka var að fara heim um miðjan daginn og sækja mat og drykkjarvatn. Þei komu svo heim ásamt feðrum sínum um sólarlag og höfðu þá sjaldnast orku til annars en að matast áður en þei hnigu út af af þreytu.

Starf úlfaldahirðis felst aðallega í því að brynna úlföldum og hlaupa á eftir þeim þegar þeir ráfa burt frá hjörðinni. Nauðsynlegt er að hafa vakandi auga með dýrunum því ef eitthvert þeirra hverfur þarf að leita það uppi. Í eyðimörkinni eru fá kennileiti og hættulegt fyrir úlfaldahirði að fara lengra en svo að hann hafi hjörðina í augsýn því maður lifir ekki lengi einn vatnslaus í eyðimörk og ef hann villist er lífi hans hætta búin.

Vatnið fyrir úlfaldana og þvotta er sótt í brunna. Eins og gefur að skilja er það erfiðisvinna að draga upp vatnsfötur í 50°C hita en í Máritaníu hafa drengir þann starfa frá 6-7 ára aldri.  Úlfaldar geta verið vantslausir dögum saman en á heitum degi drekkur þyrstur úlfaldi allt að 200 lítrum af vatni. Vinnuálagið var því misjafnt frá degi til dags en meðalþörf hvers dýrs er 36 lítrar á dag. Eigandi Mouhameds átti um 25 úlfalda. Það voru því að jafnaði um 900 lítrar af vatni sem Mouhamed og faðir hans hjálpuðust að við að draga upp daglega. Og það er ekki aðeins erfiðisvinna að brynna úlföldum heldur hættulegt líka. Fyrir kemur að örþreytt börn steypast ofan í brunn og þá er ekkert gefið að hægt sé að bjarga þeim. Mouhamed segist hafa unnið við báðar þær gerðir af brunnum sem sjást á myndunum hér að ofan.

Um sólarlag eru dýrin bundin við staura. Kapall er þræddur í gegnum miðnesið, því þannig er sáralítil hætta á að þessi sterku dýr slíti sig laus. Dýrin eru skiljanlega ekkert hrifin af því að láta festa sig og algengt að úlfaldahirðar fái væn spörk þegar verið er að ganga frá þeim fyrir nóttina enda eru fótleggir Mouhameds örum settir.

 

Menntun Mouhameds
Þrælar fá enga frídaga og þar sem endalausar kröfur eru gerðar til þeirra, þurfa allir að leggja sig fram. Börn fá því afskaplega lítinn tíma til leikja. Leikir felast helst í því að elta smádýr, syngja kvæði og segja sögur. Í samfélagi Mouhameds nýttust kvöldin ekki til félagslífs af neinu tagi því oftar en ekki var fólkið útkeyrt af þreytu og hafði ekki orku til annars en að nærast áður en það gekk til náða.

Stórt hlutfall Máritaníuþræla er ólæs en faðir Mouhameds kenndi honum Kóraninn. Hann ritaði með kolum á trétöflu, eitt vers í senn og þuldi það aftur og aftur þar til drengurinn kunni textann. Þá var næsta vers tekið fyrir og að lokum var Mouhamed bæði læs og kunni Kóraninn utan að.

[Uppfært: Löngu síðar varð mér ljóst að Mouhamed lærði í raun aldrei að lesa í venjulegum skilningi enda kunni hann ekki arabisku. Hann lærði súrur Kóransins utanað og ber kennsl á þær þegar hann sér þær ritaðar. Hann gæti hinsvegar ekki lesið aðra texta á arabisku.]

Hann áttaði sig einnig á því með tímanum að ef bóndi á 14 ær og 3 lömb til viðbótar fæðast þá eru 17 dýr sem tilheyra hjörðinni og að ef einn úlfaldi úr 25 dýra hjörð deyr, þá eru 24 eftir en þessi lestrarkennsla föður hans er eina formlega menntunin sem hann hafði  hlotið þegar hann kom til Íslands.

Þrælahald í Máritaníu er fyrst og fremst erfðabundið. Formlega tilheyra þrælar fjölskyldum húsbændanna og bera þeirra ættarnöfn, börn þræla verða eign húsbændanna og sonur erfir þræla föður síns, rétt eins og annan búpening. Það er ekki algengt að þrælar séu seldir og sérlega óvenjulegt að bændur skipti á þrælum sín á milli nema þegar þrælar eru giftir, þá verður stúlkan eign húsbónda eiginmannsins. Það kemur þó fyrir að unglingur er seldur til að refsa fjölskyldunni svo hættan á að fjölskyldan verði leyst upp vofir alltaf yfir. Mouhamed hefur aldrei kynnst ættingjum sínum. Móðir hans talaði oft um foreldra sína og systur en hún var flutt frá þeim þegar hún giftist og hún hafði ekkert vald til að heimsækja þau. Hann veit nánast ekkert um föðurfjölskyldu sína.

Mouhamed varð smámsaman ljóst að til var tvennskonar fólk, frjálsir menn og þrælar en hann gerir sér ekki grein fyrir því á hvaða aldri hann var þegar hann fór að velta því fyrir sér hvort það væri í raun óumbreytanlegt lögmál. Hann heyrði unglinga tala um að flýja, leita betra lífs, forfeðrum þeirra hefði verið rænt frá nágrannalöndnum og það gæti varla talist sanngjarnt, en svoleiðis tal var óábyrgt og áreiðanlega ekki Drottni hersveitanna að skapi. Þegar hann var lítill reyndi stundum að fá föður sinn til að segja sér sögur af hinum frjálsu forfeðrum þeirra en faðir hans taldi að hann hefði ekki gott af því að næra óraunhæfa drauma. Það er nánast útilokað fyrir þræla sem eiga fjölskyldur að strjúka og ráðlegast að kæfa allar slíkar hugmyndir í fæðingu.

Aðbúnaður og refsingar
Líf þrælsins snýst um erfiðisvinnu, allan daginn, alla daga en það er þó langt frá því að harðræðið sem þeir búa við felist einungis í vinnuþrælkun, þeir búa einnig við vanæringu, skort á heilsugæslu og líkamlegt og andlegt ofbeldi.

Eigandi Mouhameds bjó í höfuðborginni, Nouakchott. Hann kom til þeirra vikulega, leit eftir hjörðum sínum, agaði þrælana og færði þeim drykkjarvatn og vistir. Fæðan var slæm og af skornum skammti, aðallega hrísgrjón, sykur og dálítið kaffi. Auk þess höfðu þau nóga mjólk til heimilsins því eigandinn notaði ekki mjólkina heldur hélt nautgripi aðeins vegna kjötsins og stöku sinnum fengu þau egg frá nágrannafjölskyldu sem hélt hænsn. Stundum gisti húsbóndinn í eyðimörkinni yfir nótt ásamt fjölskyldu sinni ef þau voru á leið milli landshluta og þá grilluðu þau kjöt yfir eldi og lokkandi lyktin lá lengi yfir staðnum. Mouhamed minnist þess í nokkur skipti að leifar af kjötinu voru skildar eftir handa þrælunum og stöku sinnum veiddu karlarnir lítil pokadýr til matar en annars tilheyrðu kjöt, fiskur og grænmeti aðeins stórhátíðum.  Drykkjarvatn var einnig naumt skammtað en brunnvatnið er ekki hæft til manneldis.

Þessi tjöld eru sömu gerðar og heimili Mouhameds

Húsbændur þrælanna eru misjafnlega strangir. Sumir þrælar voru svo „heppnir“ að hafa húsbændur sem lömdu þá ekki nema fyrir yfirsjónir og fóðruðu þá þokkalega. Eigandi Mouhameds var einn hinna hörðu. Hann talaði varla nokkruntíma til foreldra hans nema með svívirðingum og ef hann var óánægður með eitthvað, og það var hann oft, var þeim refsað. Þau gátu alltaf átt von á barsmíðum þegar hann birtist en hann barði þau ekki sjálfur, hann lét vinnumenn sína sjá um það.

Þegar Mouhamed komst á unglingsaldur nefndi hann möguleikann á flótta en faðir hans vildi ekkert heyra á það minnst. Ungum væri það best að sætta sig við hlutskipti sitt og forðast draumóra enda töluverðar líkur á að strokuþrælar náist. Já og ef þeir nást ekki þá sér Guð sjálfur um að refsa þeim eða svo var sagt. Og svo var það Alí. Enginn vildi syni sínum þau örlög sem hann hafði hlotið.

Í Máritaníu er sjaldgæft að þrælar strjúki úr vistinni, jafnvel þótt þeir búi við harðræði. Ástæðurnar eru margar. Drykkjarvatn er skammtað og það er erfitt að ferðast langa leið yfir eyðimörk. Þrælar fá engin laun og þeir sem á annað borð komast til næstu borgar geta ekki keypt sér fæði. Það er mjög erfitt fyrir strokuþræl að fá vinnu, þeir lifa allt öðruvísi lífi en frjálsir, svartir menn, þeir hafa ekki sömu þekkingu og geta því sjaldan villt á sér heimildir og þrælahaldarar standa saman um að „skila“ strokuþrælum til eigenda sinna. Harðar refsingar liggja við stroki og auk þess er hægt að reikna með að fjölskyldu strokuþrælsins verði refsað.

Í Máritaníu sem og öðrum löndum Vestur-Afríku tíðkast hugvitssamlegar refsingar við glæpum á borð við þjófnað og stork. T.d. þykir góð uppeldisaðferð að hengja þrælinn upp úti í steikjandi sólinni og neita honum um vatn þannig að hann þornar upp. Einnig þykir árangursríkt að binda hann við kvið þyrsts úlfalda og brynna svo dýrinu. Þegar kviðurinn á því þenst út tognar á þrælnum og ef vel tekst til slitna liðir í sundur. Í samfélagi Mouhameds er venjulega refsingin við stroki gelding. Ali var ca. 15 árum eldri en Mouhamed og hafði hlaupist burt sem unglingur.  Og náðst. Hann var lagður á bekk og kynfærin á honum barin með prikum þar til eistun voru orðin ónothæf.  Hann átti ekki fjölskyldu og ef hann er enn á lífi, á hann ekki fjölskyldu og mun aldrei eignast fjölskyldu.

Mouhamed hætti að hugsa um flótta. Ekki bara af því að faðir hans tók því illa, það er heldur ekkert auðveld ákvörðun að yfirgefa fjölskyldu sína því strokuþræll á ekki afturkvæmt og fjölskylda hans hefur ekki aðgang að síma eða interneti. Aðeins ungmenni reyna strok og langoftast piltar. Það er útilokað að flýja með börn í eftirdragi og stúlkur komast ekkert nema með mikilli hjálp því þær eiga enga möguleika á vinnu. Stöku sinnum strýkur unglingsdrengur og það eina sem fjölskylda hans getur þá vonað er að hún sjái hann aldrei framar. Enginn vill syni sínum það hlutskipti að verða eins og Alí. Ekki heldur að vera hýddur til óbóta eða þurrkaður upp.

Sjaldgæft er að þrælar í Máritaníu nái háum aldri. Þeir látast fyrir aldur fram af slæmu atlæti, vinnuþrælkun og harðræði sem drepur niður mótstöðuafl þeirra gegn sjúkdómum, þykir bara nokkuð gott ef þræll nær fimmtugu. Þegar Mouhamed var 16 eða 17 ára veiktist faðir hans. Og dó. Mouhamed telur að hann hafi verið í mesta lagi 45 ára. Það er ekkert óvenjulegt að eyðimerkurþrælar deyi ungir og þótt kjör þrælanna séu misjöfn bjó þó engin fjölskylda í samfélagi Mouhameds við þann lúxus að njóta heilsugæslu. Ef úlfaldi veiktist var dýralæknirinn sóttur en ef þræll veiktist tók því ekki að spandera á hann þjónustu. Fótbrot voru bara spelkuð heima með trjágrein og reipi, þær jurtir sem uxu á staðnum notaðar til lækninga –þegar lækningajurtir var á annað borð að finna og ef þræll dó af sýkingu í sári eða auðlæknanlegum sjúkdómi, nú þá varð bara að hafa það. Mouhamed er með skakkan fingur. Skýringin er sú að hann skar sig eitt sinn og fékk sýkingu í sárið. Það var ekki meðhöndlað og hann bólgnaði allur upp og fékk háan hita. Sólarhringum saman gat hann ekki sofið vegna kvala en það var ekkert hægt að gera í því. Hann náði sér en sem betur fer er þetta eina slysið sem hann hefur orðið fyrir. Margir deyja af skeinum sem hefði auðveldlega mátt meðhöndla með sýklalyfjum.

Mouhamed getur ekki útskýrt af hverju faðir hans dó. Hann var bara veikur, hann veit ekki hvort það var kvef, krabbamein eða eitthvað annað, hann bara veslaðist upp. Andlát föðurins var engu að síður áfall og ekki bara vegna sorgarinnar, heldur jókst vinnuálagið á Mouhamed og systur hans. Móðir þeirra var orðin illfær til vinnu og um þremur árum síðar lést hún líka.

Það var ekki fyrr en eftir dauða hennar sem hann fór að íhuga möguleikann á stroki í fullri alvöru.  Myndin sýnir dæmigerðan grafreit í Sahara.

 

Flóttinn
Meirihluti svartra manna í Máritaníu eru þrælar. Að vísu hefur þrælasala verið ölögleg þar frá árinu 1981 en þótt opnir þrælamarkaðir tíðkist ekki er hefðin fyrir erfðaþrælum mjög sterk og tilraunir mannréttindasamtaka til að sporna gegn þrælahaldi hafa litlu skilað. Þrælahald var ekki gert refsivert fyrr en 2007 en ennþá hefur enginn dómur fallið vegna þrælahalds.

Í borgunum eru þrælar kallaðir vinnufólk en þeir fá ekki önnur laun en fæði, húsnæði og í skársta falli smánarlega vasapeninga. Enda þótt þeim sé að nafninu til frjálst að fara burt, ríkir samkomulag milli húsbænda um að ráða ekki þræla annarra í vinnu. Þeim er markvisst haldið í fáfræði, bæði um réttindi sín og allt annað sem gæti gagnast þeim og þeir sem velja frelsið búa oft við algera örbirgð, í raun lítið skárri aðstæður en sem þrælar.

Eyðimerkurþrælar eiga ennþá minni möguleika á að komast undan þrældómnum en borgarþrælar. Þeir eru enn verr upplýstir, ennþá neðar í virðingar-stiganum og liðsmenn mannréttindasamtaka eiga mun erfiðara með að aðstoða þá. Myndirnar hér að ofan  sýna líf leysingja í Nouakchott, höfuðborg Máritaníu

Þar sem gróður og vatnslindir endurnýjast seint í eyðimörkinni, þurfa hirðingjasamfélög að flytja sig úr stað á nokkurra mánaða fresti. Mouhamed fæddist í þeim hluta Máritaníu sem liggur að Senegal en á þeim tveimur áratugum sem hann hafði lifað, hafði samfélagið ferðast langa leið og nú var hann staddur nær  Nouadhibou, mun norðar í landinu. Foreldrar hans voru látnir, vinnuharkan ennþá verri en áður og ofbeldið af hálfu húsbóndans jókst þegar systkinin önnuðu ekki vinnunni á eigin spýtur.

Eitt sinn var Mouhamed barinn svo illa í andlitið að tvær framtennur brotnuðu úr honum. Barsmíðar voru svosem engin nýlunda en ástandið hafði versnað og hann var hann orðinn hræddur um líf sitt og systur sinnar. Hann hafði oft hugsað um það síðan faðir hans dó en nú var hann ákveðinn. Hann ætlaði að strjúka. Hann hefði ekki getað yfirgefið foreldra sína og það kom ekki til greina að fara og skilja systurina eftir eina en hann trúði því hreinlega ekki upp á Guð að hann myndi senda hann til Helvítis og hann vissi að til væri betra líf. Það hlyti að vera einhver leið til að koma þeim báðum undan.

Hann fékk vin sinn til að gæta hjarðarinnar á meðan hann gerði sér ferð til smábæjar í nágrenninu.  Þar komst hann í samband við frjálsa svarta menn sem sögðu honum að í borginni Nouadhibou væri fólk sem hjálpaði storkuþrælum. Hann skildi systur sína eftir með hjörðina, reið úlfalda langleiðina til Nouadhibou, batt hann og bað til Guðs um að hann yrði þar enn þegar hann kæmi til baka. Í Nouadhibou fann hann mann sem honum hafði verið bent á að leita til. Niðurstaða samtals þeirra var sú að ef Mouhamed gæti útvegað einn úlfalda til að standa staum af ferðakostnaði, gæti viðmælandinn komið systur hans til kunningjafólks síns í Senegal og Mouhamed sjálfum til Spánar. Það væri raunhæfasta leiðin til að koma þeim báðum í örugga höfn.

Ég veit ekki hvort velgjörðarfólk Mouhameds og systur hans, í Nouadhibou, tilheyrir bara einni fjölskyldu eða hvort um er að ræða skipulagða andspyrnuhreyfingu. Það sem ég veit er að nokkrum dögum síðar kvaddi Mouhamed systur sína og horfði á eftir henni þegar hún reið einum af úlföldum húsbóndans í átt til Nouadhibou. Mouhamed varð eftir, bæði af því það var ekki hægt að útvega honum far til Spánar strax og það yrði áhættusamara að leynast í borginni ef þau væru saman. Þau vissu ekki hvort þau fengju nokkurntíma að sjást framar.

Þegar húsbóndinn kom, nokkrum dögum síðar og uppgötvaði að bæði dýrið og stúlkan voru horfin, varð hann æfur. Mouhamed sagðist ekkert vita hvað hefði orðið af systur sinni, hún væri líklega að leita að úlfaldanum sagði hann en húsbóndinn trúði því ekki að Mouhamed hefði látið systur sína leita að týndum úlfalda frekar en að biðja einhvern karlmannanna um hjálp. Hann taldi víst að hún hefði strokið og þegar hún hafði enn ekki látið sjá sig nokkrum klukkustundum síðar, taldi hann óþarft að leita annarra skýringa. Mouhamed var bundinn við staur og hýddur með greinum og áður en húsbóndinn kvaddi sagði hann honum að ef systir hans og úlfaldinn yrðu ekki komin aftur næst þegar hann kæmi, þá myndi hann höggva af honum höndina og drepa hann svo. Kannski var það bara hótun, en Mouhamed sá enga ástæðu til að reikna með því. Þjófar eru handhöggnir í Vestur Afríku, ekki fyrir smáþjófnað að vísu en úlfaldi er það verðmætasta sem eyðimerkurþræll er fær um stela og það er engin sérstök stemning fyrir því að láta þræl njóta vafans.

Hann bara fór. Hann var í uppnámi eftir barsmíðarnar og hótanirnar og vissi heldur ekki hvort eigandinn kæmi aftur að viku liðinni eins og venjulega eða hvort hann bryti venjuna og kæmi fyrr þar sem hann hafði ástæðu til að vantreysta þrælnum. „Ég óð bara af stað, hugsaði ekki mikið út í það, vildi bara komast burt sem fyrst“ segir hann. Hann hefði getað tekið annan úlfalda en hann þorði það ekki. Þar sem hann hafði ekki kaupanda var óvíst að hann gæti selt dýrið og það hefði vakið óþægilega athygli ef þeldökkur maður hefði boðið úlfalda til sölu án þess að gera grein fyrir því hver sendi hann þeirra erinda. Löngu síðar hugsaði hann sem svo að hann hefði allavega getað tekið úlfalda til að stytta sér leiðina og skilið hann eftir áður en hann kæmi í nágrenni borgarinnar, rétt eins og hann hafði gert þegar hann fór þangað í fyrra skiptið en á því augnabliki hvarflaði sá möguleiki ekki að honum, hann bara lagði af stað fótgangandi, með það litla sem hann gat borið af vatni og vistum.

Hann var þrjá daga á leiðinni til Nouadhibou, kom þangað svo þjakaður af þreytu og hungri að hann stóð varla undir sér. Systir hans þegar lögð af stað til Senegal.

Hann leyndist í borginni í nokkrar vikur en að lokum tókst bjargvætti hans að koma honum um borð í bát sem var á leið til Spánar. Ferðin tók fimm sólarhringa á opnum báti. Um borð voru auk Mouhameds 22 karlar og 2 konur. Hvergi hægt að halla sér svo farþegar áttu ekki annars kost en að dotta niður í bringuna á sér. 5 manns dóu á leiðinni. Ekki af því að neitt væri að þeim. Þeir köstuðu bara upp þar til vökvatapið dró þá til dauða. Mouhamed valdi þessa mynd af netinu til að sýna mér hverskonar bát hann hefði ferðast með til Spánar.

Mouhamed frjáls
Valencia var yfirþyrmandi. Hann hafði sjaldan komið í þéttbýli, aldrei til Nouakchott  og þótt Nouadhibou sé næststærsta borg Máritaníu var munurinn á henni og Valencia svo sláandi að hann óttaðist í fyrstu að hann myndi aldrei komast af í vestrænu samfélagi. Allt var nýtt. Bókstaflega allt. Svo óraunverulegt að fyrstu dagana hélt hann að sig hlyti að vera að dreyma, segir hann.

Hann stóð á lestarstöð og snerist í hringi í kringum sjálfan sig. Öll skilningarvit svo þanin að hann sundlaði. Átti erfitt með að festa augun á einum stað, fannst hávaðinn úr öllum áttum heillandi og ógnvekjandi í senn. Hann reyndi að tala við fólk, spyrja hvert hann gæti farið til að fá vinnu en þeir sem hann ávarpaði hristu bara höfuðið. Annaðhvort skildu þeir ekki frönskuhraflið hans eða vissu ekki hvert hann ætti að snúa sér. Nema þeim hafi bara verið sama? Hann hafði alveg búist við erfiðleikum, reiknað með að þurfa að ganga langar leiðir og spara við sig mat en honum hafði ekki dottið í hug að yrði svona erfitt að ná sambandi við fólk. Hann hafði líka ímyndað sér að þar sem hann var læs, ætti hann meiri möguleika en margur annar, en í Valencia þótti engum neitt til lestarkunnáttu hans koma, auk þess sem öll skilti voru með táknum sem voru ekkert lík arabisku letri. Hann hafði vitað að franska var skrifuð með öðrum táknum en arabiska og wolof en hann hafði aldrei lært að skrifa frönsku, aðeins að tala hana. Honum hafði ekki dottið í hug að öll mál í Evrópu væru rituð upp á frönsku en nú rann upp fyrir honum að hann var alls ekki læs, þegar allt kom til alls, allavega ekki á neitt mál sem gagnaðist honum á Spáni.

 

Lestarstöð í Nouadhibou

Lestarstöð í Valencia    

Mouhamed var heppinn í þetta sinn. Hann hitti mann frá Senegal, mann sem talaði tungumálið hans, wolof og hjálpaði honum að fá vinnu við appelsínutínslu. Húsnæði fygldi vinnunni, þar bjuggu margir starfsmenn saman og sváfu 2-3 í herbergi og markaður sem seldi allar nauðsynjar var rétt hjá. Mouhamed var peningalaus en nýi vinur hans lánaði honum fyrir mat. Vinnan var mun léttari en hann átti að venjast, honum var sagt að hann fengi ákveðna peningaupphæð fyrir hvern kassa sem hann fyllti og enginn barði hann eða skammaði. Hann fékk m.a.s. aðgang að internetinu og náði sambandi við systur sína sem var komin til Senegal og dvaldi hjá ættingjum mannsins sem hjálpaði þeim að flýja.

Eftir tvær vikur fékk hann fullt af peningum. Jafnvel þegar hann var búinn að endurgreiða lánið átti hann meiri peninga en hann hafði nokkurntíma séð, hvað þá handleikið. Þetta var í fyrsta sinn á ævinni sem hann átti peninga og allt í einu langaði hann að kaupa allt sem hann sá en þorði samt ekki að kaupa neitt. Hann hafði hlakkað til að eignast sitt eigið fé en þótt hann væri yfir sig hamingjusamur var hann eiginlega hálf miður sín líka. Vinur hans tók fram fyrir hendurnar á honum, fór með honum á markaðinn og kenndi honum að láta ekki féfletta sig og aðstoðaði hann við að kaupa nauðsynlegasta fatnað. Eftir næstu útborgun kom hann honum tannlæknis og hann fékk gervitennur í stað framtannanna sem hann hafði misst.  Að öðru leyti tók vinur hans launin hans í sína vörslu og skammtaði honum framfærslueyri.  Sagði honum að það væri honum lífsnauðsynlegt að safna eins miklu og hann gæti því uppskerutíminn væri stuttur og ekki á vísan að róa með vinnu að honum loknum. Mouhamed hreyfði engum mótmælum. Fann að hann réði betur við fjármálin eftir því sem hann hafði úr minnu að spila og treysti því auk þess að vinur hans vissi hvað væri honum fyrir bestu. Og vinurinn reyndist sannspár, eftir þrjá mánuði var enga vinnu að hafa lengur.

Mouhamed var algerlega óvanur aðgerðaleysi og nú þegar hann hafði engum skyldum að gegna lengur fóru að sækja á hann hugmyndir um að húsbóndinn myndi kannski hafa upp á honum. Líkurnar á því eru nú sennilega hverfandi en ótti er ekki endilega rökréttur og nú þegar hann hafði ekki vinnu, sá hann ekki fram á að geta borgað húsaleigu. Hann varð kvíðinn og svaf illa og honum varð ljóst að jafnvel í hinni ríku Evrópu hafa frjálsir menn  stundum áhyggjur af afkomu sinni. Einhver sagði honum að hann gæti lent í vandræðum í Frakklandi því yfirvöld þar væru slæm en að í Þýskalandi væri hægt að fá vinnu. Hann vissi svosem ekki hvaða áhuga yfirvöld í Frakklandi ættu að hafa á sér en dró þessar upplýsingar ekki í efa og ákvað að koma sér til Þýskalands áður en hann æti upp það litla sem honum hafði tekist að leggja fyrir. Hann hafði hreinlega ekki þekkingu til að sjá í hendi sér að atvinnumöguleikar manns sem var ólæs og skrifandi á nokkurt annað tungumál en wolof og með frönskukunnáttu sem varla dugði til að leysa flóknari verkefni en að biðja um kaffibolla, væru nánast engir, Mouhamed treysti bara því sem honum var sagt enda svosem ekkert skynsamlegra í stöðunni. Það kom sér vel að vinur hans hafði skammtað honum lífeyrinn naumlega því ferðin var dýr, mun dýrari en sjóferðin frá Nouadhibou en ólíkt þægilegra að ferðast með rútum og lestum.

Hann komst til Berlínar, án þess að vita neitt um Þýskaland nema nafn höfuðborgarinnar en hann valdi Berlín af þeirri einu ástæðu að hann vissi að í höfuðborgum er svo margt fólk að þar er auðvelt að leynast.

Í Berlín vildi enginn við hann tala. Það var of kalt til að hann festi svefn utandyra svo hann hélt til á lestarstöð á næturnar og hann var svo einmana að honum lá við örvæntingu. Hann leitaði að vinnu á daginn og þegar hann gafst upp á að reyna að ná sambandi við fólk og sat dapur á svip í sömu stellingunni langtímum saman, kom að því að fólk fór að henda til hans smápeningum. Það var út af fyrir sig ágætt en leysti náttúrulega ekki vanda hans. Eftir nokkra daga skildist honum á einhverjum starfsmanni sem gaf sig á tal við hann á lestarstöðinni að nærveru hans væri ekki óskað þar. Þá tók hann restina af peningunum sínum og fór í miðasöluna. Hann vissi ekkert hvert hann ætlaði, bað bara um miða til höfuðborgar þar sem hægt væri að fá vinnu og vonaði að miðasalinn skildi frönskuna hans. Ég veit ekki hvort peningarnir hans dugðu fyrir miða til Osló eða kannski bara í næsta úthverfi Berlínar en honum var vísað á rútustöð og einhvernveginn komst hann til Noregs.

Hann var handtekinn í Osló. Honum var ekið á lögreglustöð og þótt hann gerði sér grein fyrir því að hann væri í vandræðum upplifði hann sitt feginsamlegasta augnablik frá því hann fór frá Spáni, á lögreglustöðinni í Osló. Honum var nefnilega útvegaður túlkur sem talaði wolof og hann taldi sig ekki lítið heppinn að geta  útskýrt að hann væri enginn bófi heldur dugandi maður í atvinnuleit.

Það var fyrst þarna, á lögreglustöðinni í Osló sem Mouhamed komst að því að hann væri ólögleg manneskja og að hann ætti að hafa eitthvað sem héti vegabréf. Í hans heimi voru til  frjálsir menn og ófrjálsir. Hugtök eins og flóttamenn og mannréttindi voru honum með öllu ókunnug, hann hafði aldrei heyrt minnst á Rauða krossinn eða Sameinuðu þjóðirnar og hans hugmynd um landamæri var aðeins lína á landakorti. Hann hafði staðið á bryggju í Nouadhibou og horft út á sjóinn. Talið víst að ef hann kæmist yfir sjóinn, til Evrópu, yrði hann frjáls. Á þeim tíma hafði hann hugsað um frelsi sem það að vera ekki laminn. Fá nægan mat og hvíld, jafnvel læknishjálp ef hann veiktist. Hugmyndir hans höfðu breyst töluvert síðan þá. Hann hafði óttast eiganda sinn og hugsanlega útsendara hans á meðan hann var á Spáni en nú var hann kominn svo óralangt í burt að hann hafði ekki lengur áhyggjur af því að vera eltur. Nú var hann farinn að reikna með að hvítt fólk kæmi fram við hann eins og manneskju. Hann var farinn að gæla við möguleikann á því að velja sér starf. Vinna við húsbyggingar, rafmagn eða eitthvað annað spennandi. Hann gæti hugsanlega lært að aka bíl. Hann þyrfti bara að fá vinnu og þar með myndu öll heimsins tækifæri opnast honum. Eða það hafði hann haldið hingað til. En þetta var víst ekki alveg svona einfalt sagði túlkurinn og það fór að renna upp fyrir Mouhamed að frelsið er ekki bátur sem flytur þræla yfir opið haf, ekki appelsínubóndi sem gefur manni peninga í skiptum fyrir vinnu og ekki löng röð tækifæra til menntunar og vinnu, heldur lítil bók sem heitir vegabréf og aðeins hvítt fólk í jakkafötum getur gefið manni.

Hann hafði ekki reiknað með allt yrði fullkomið. Hann gerði sér aðeins veikar vonir um að sjá systur sína nokkurntíma framar og hann vissi að hann myndi aldrei framar sjá vini sína í Máritaníu. En það hafði ekki hvarflað að honum að hann mætti ekki ganga um götur og leita sér að vinnu í Noregi. Hvað þá að hann væri hvergi, ekki á einum einasta stað í veröldinni, velkominn.

Að skrifa nafnið sitt
Löggan rétti honum blað og túlkurinn sagði að hann ætti að skrifa nafnið sitt á það. Hann sagði honum að í skjalinu væri rakið það sem hann hefði sagt lögreglunni af högum sínum. Mouhamed skildi ekki það sem stóð á blaðinu en hann kunni að skrifa nafnið sitt og fannst sjálfsagt að gera það fyrst hann var beðinn um það enda hafði hann enga hugmynd um merkingu þess að undirrita skjal sem lögreglan réttir manni. Þeim fannst undirskriftin víst ekki nógu góð. Hann fékk annað blað og löggan teiknaði einhver tákn á miða og sagði honum að setja þau á blaðið í staðinn fyrir nafnið sitt. Hann spurði hvort þeir væru að gefa honum nýtt nafn en túlkurinn útskýrði fyrir honum að svona væri nafnið hans ritað með latnesku letri.

Mouhamed man ekki lengur hvernig honum var kennt að stafsetja nafnið sitt. Þegar hann kom til Íslands stafaði hann það Mouhamde Lo en það verður að teljast ólíklegt að lögreglan í Noregi hafi kennt honum þann rithátt. Engin lög gilda um það hvernig nöfn af arabiskum og persneskum uppruna skuli stafsett þegar þau eru rituð með okkar stafagerð en algengast er að nafnið hans sé ritað Mouhamed. Ég hef séð það ritað „Muhammed“ og „Mohamed“ en rithátt okkar manns hef ég ekki séð áður. Mér finnst líklegt að ritháttur norsku löggunnar hafi skolast til í minni hans eða jafnvel að hann hafi séð nanfið stasett á tvo vegu og blandað rithættinum saman.

Hann fékk aðstoð lögmanns til að sækja um hæli í Noregi og var komið fyrir í flóttamannabúðum þar sem hann skyldi búa þar til hann fengi svar við umsókninni. Á Spáni hafði hann kynnst þeim munaði að búa í húsi og sofa í rúmi og eftir að hafa kúldrast á bekkjum lestarstöðva, virtust honum flóttamannabúðirnar hin dásamlegasta vistarvera. Auk þess var honum sagt að hann fengi peninga til að kaupa mat enda þótt hann hafði enga vinnu og þótt hann skildi ekki alveg það fyrirkomulag var hann hættur að efast um að á Vesturlöndum væri allt mögulegt. Hann var kvalinn af tannpínu en honum var gefið verkjalyf og sagt að hann yrði sendur til tannlæknis við fyrsta tækifæri.  Þegar hann svo áttaði sig á því að í flóttamannabúðunum var maður frá Gíneu sem talaði wolof og var tilbúinn til að túlka fyrir hann, fannst honum þetta allt saman of gott til að vera satt. Í nokkra klukkutíma var hann svo hamingjusamur að hann þorði varla að trúa því að hann væri vakandi.

Þegar eitthvað virðist of gott til að geta staðist, koma skuggahliðarnar iðulega í ljós. Eftir langt spjall við aðra menn í flóttamannabúðunum, fór að renna upp fyrir honum að frelsi hans var einn allsherjar misskilningur. Hann var ekki frjáls maður heldur flóttamaður og þessi hælisumsókn var bara einhverskonar leikur. Sómalir fengju að vísu hæli og hugsanlega einn og einn frá Eþíópíu eða Súdan, var honum sagt en ekki Máritaníumenn, Senegalar eða aðrir flóttamenn frá Vestur Afríku. Hann gæti verið rólegur í nokkra mánuði en svo fengi hann synjun. Honum yrði sagt að hann gæti prófað aftur (eða eins og það var orðað, kært úrskurðinn) en það myndi ekki hafa neitt að segja. Hann gæti eins reiknað með að vera sendur burt nauðugur áður en tekin væri afstaða til kærunnar. Eina leiðin til að komast hjá því að vera sendur í hendur kvalara síns aftur, væri sú að útvega sér fölsuð skilríki.

Á næstu vikum komst hann að þeirri niðurstöðu að flóttamaður væri öfgakennd andstæða við þræl. Þrældómur merkti það að vera kúgaður til að vinna sér til óbóta án launa. Hlutskipti flóttamannsins var hinsvegar að vera kúgaður til aðgerðaleysis á launum. Enda þótt einhver vildi ráða hann, þá mátti hann ekki vinna. Og sá sem á hvergi heima í veröldinni, getur í raun fátt gert annað en að bíða. Jafnvel þótt hann hefði næg fjárráð, sem hann hafði ekki, hefði hann ekki átt kost á því að verða sér úti um menntun eða stofna heimili og nú var honum orðið ljóst að honum var heldur ekki óhætt að ferðast án vegabréfs.

Dagurinn silaðist áfram. Hann sat í stól, gekk í hringi, reykti, settist í annan stól, gekk aftur í hringi, boraði tánum í gólfið og gekk í fleiri hringi. Stundum fannst honum hann vera að missa vitið. Ári áður hafði hann séð hvíld í hillingum en nú hefði hann með ánægju dregið vatn úr brunni og hlaupið á eftr úlföldum. Þ.e.a.s. í nokkra klukkutíma, gegn því að fá nóg að borða og frí á sunnudögum. Nei, hann langaði ekki heim en hann langaði að gera eitthvað. Draga upp 10 vatnsfötur, 15 jafnvel en ekki 180 eða 217. Hann saknaði vina sinna en tilhugsunin um að vera sendur heim og hitta eiganda sinn aftur hélt honum andvaka nóttum saman. Hann yrði heppinn ef hann slyppi með geldingu.

Honum datt í hug að fara bara en félagar hans gerðu honum grein fyrir því að hann væri í lítið skárri aðstöðu til þess hér en hann hafði verið í Máritaníu. Í rauninni væri litið á það sem strok. Hann gæti hugsanlega komist til Svíþjóðar, Danmerkur, jafnvel Þýskalands án þess að vera stoppaður, en án vegabréfs gæti hann ekki gert sér vonir um að fá vinnu og það að liggja úti í Noregi að vetrarlagi væri jafn hættulegt og að ferðast einn í eyðimörk. Á endanum yrði hann handtekinn og sendur í búðirnar aftur, eða það sem verra væri, til Máritaníu.

„Það eina sem þú getur gert er að bíða og reyna svo að komast til Kanada þegar þeir vilja fara að losna við þig“ sögðu þeir og fyrst allir sögðu það sama sá Mouhamed ekki ástæðu til að draga það í efa. Hann yrði bara að bíða. Hanga á horriminni, láta hjálparstofnir um að útvega sér fatnað og stilla sig um að nota dagpeningana til að verða sér úti um afþreyingu, heldur leggja fyrir til að kaupa falsað vegabréf og flugmiða til Kanada. Og hann hélt áfram að ganga í hringi, reyndi að reykja úr sér kvíðann og biðjast fyrir. Hélt áfram að bíða, bíða allan daginn, alla daga. Einhverntíma hefði hann þegið nokkurra daga aðgerðaleysi með þökkum en mikið óskaplega var hann orðinn þreyttur á allri þessari hvíld. Eftir margra mánaða bið (hann er ekki viss en telur að hann hafi verið í Noregi í 5-7 mánuði) kom bréfið. Honum var synjað um hæli. Skýringin sem honum var gefin var sú að þrælahald væri ólöglegt í Máritaníu.

Til Íslands
Hann fór að ráðum félaga sinna. Kærði úrskurðinn en beið ekki eftir niðurstöðu. Afhenti manni sem heimsótti flóttamannabúðirnar alla peningana sína og fékk í staðinn falsað vegabréf og flugmiða til Kanada. Honum var sagt að hann myndi millilenda á Íslandi en það væri ekkert mál því þar væri ekkert vegabréfaeftirlit. Um leið og hann fékk gögnin fékk hann blað með tölustöfum og nokkrum strikum sem vöktu athygli hans. Hann spurði félaga sinn út í þetta blað og fékk þær skýringar að merki rauða krossins táknaði að tölurnar hefðu verið lagðar saman, tvö þverstrik táknuðu að talan fyrir aftan þau væri samanlögð upphæð og eitt þverstrik að upphæðin fyrir neðan hefði verið dregin frá. Þetta var víst eitt af því sem börn lærðu í skólum, var honum sagt. Og tilfinningin flóði einhvernveginn yfir hann. Þetta var einfalt. Hann skildi þetta. Samt var þetta nánast eins og galdur. Galdur sem allir Norðmenn þekktu, allir Spánverjar, margir Afríkumenn líka. Kannski allir sem einhverntíma höfðu gengið í skóla. Það eru skólar allsstaðar, líka í Kanada, hugsaði hann. Svo steig upp í flugvél í fyrsta sinn á ævinni og þegar vélin tókst á loft varð hann smeykur en kyngdi óttanum og einbeitti sér að draumnum um að kannski kæmist hann í skóla í Kanada.

Hann millilenti á Íslandi 19. desember 2010 og komst að raun um að hann hefði ekki fengið alveg réttar upplýsingar um eftirlitsleysið á Leifsstöð. Þvert á móti þótti öryggisgæslunni vegabréfið hans einkar áhugavert. Hann var handtekinn og dæmdur fyrir skjalafals, þrælborinn maður sem kunni ekki að skrifa nafnið sitt og hafði komist að því aðeins nokkrum dögum fyrr að samlagningartáknið væri ekki merki Rauða Krossins. Að vísu er skýrt tekið fram í flóttamannasamningi SÞ (sem Íslendngar eiga aðild að) að ekki megi refsa fólki sem hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, fyrir að framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum en þar sem Íslendingar hafa aldrei séð ástæðu til að virða mannréttindi einhverra halanegra sem hafa unnið sér það til óhelgi að fæðast á röngum stað, eru mannréttindabrot gegn flóttamönnum bundin í lög á Íslandi. Mouhamed var því samkvæmt þessari dásamlegu réttvísi stungið í fangelsi á þeirri forsendu að flóttamenn komi ekki til Íslands beint frá ríki þar sem lífi þeirra er ógnað.

Samkvæmt strangasta skilningi flóttamannasamningsins hefði hann átt að sækja um hæli á Spáni (það er orðið of seint núna því ef hann fer þangað aftur er hann ekki að koma beint frá Máritaníu og Spánverjar geta notað það sem réttlætingu alveg eins og útlendingastofnunin okkar.) Glæpur hans fólst þannig ekki aðeins í þeirri yfirgengilegu frekju að vilja lifa fram yfir fimmtugt og það án þess að þola ofbeldi og hungur heldur ekki síður í því að hafa fæðst til þrældóms og fáfræði.

Auðvitað á fólk sem elst upp við þessar aðstæður að hafa rænu á því
að sækja um hæli í því landi sem reglugerðir gera ráð fyrir.

 

 Í athugun …
Hæfileg refsing fyrir að neyðast til að framvísa fölsuðum skilríkjum, er að mati yfirvaldsins  30 daga fangelsi, óskilorðsbundið. Að villa á sér heimildir í því skyni að forða sér frá pyntingum og jafnvel aftöku án undangenginna réttarhalda er þannig talinn sambærilegur glæpur við líkamsárás á sofandi mann. Margir flóttamenn sem fá þennan dóm sitja þó aðeins helminginn af sér og það á við um Mouhamed. Eftir 15 daga refsivist var honum komið fyrir á Fit, flóttamannahælinu á Suðurnesjum og boðin aðstoð til að sækja um hæli.

Fit Hostel, flóttamannahælið í Reykjanesbæ. Þótt flóttamannabúðir séu ekki fangelsi í skilningi laganna, kemur orðfar okkar upp um þær hugmyndir sem raunverulega eru að baki. Í þessari frétt var t.d. upphaflega sagt að Mouhamed hefði strokið frá Fit. Síðar var því breytt í flúið.

Túlkurinn talaði frönsku. Það gerir Mouhamed hinsvegar ekki. Hrafl jú, kannski nóg til að spyrja til vegar að næstu lestarstöð en varla meira en það. Alls ekki nóg til að segja skilmerkilega frá aðstæðum sínum. Mér skilst að hann hafi játað þegar hann var spurður hvort hann væri tilbúinn til að tjá sig á frönsku. Hann man ekki til þess að sér hafi verið boðið upp á neitt annað en vera má að hann hafi hreinlega ekki skilið frönskuna nógu vel til að átta sig á því að hann gæti farið fram á að fá túlk sem talaði wolof. Auk þess var Mouhamed alinn upp sem þræll og ekkert vanur því að gera neinar kröfur. Hann sagði bara það sem til var ætlast. Ég hefði nú samt haldið að túlkurinn áttaði sig á því að frönskukunnátta Mouhameds var engan veginn nógu góð til að hægt væri að fá botn í söguna á 20 mínútum en þess má geta að þegar hann sagði mér sögu sína með góðri aðstoð túlks sem talar wolof, (vinir Mouhameds höfðu semsagt rænu á því að útvega alvörutúlk þótt það reyndist Útlendingastofnun ofviða) tók frásögnin rúma tvo klukkutíma.

Margskonar misskilningur kemur fram í hælisskýrslu Útlendingastofunar en sennilega liggur skýringin að hluta til í tungumálavandræðum, auk þess sem tíminn nægði enganveginn til að útskýra allt sem máli skiptir. T.d. kemur fram í skýrslunni að Mouhamed hafi búið við fátækt og stolið lömbum sér til matar. Hann bjó við fátækt, vissulega, örbirgð reyndar enda er Máritanía eitt af fátækustu ríkjum veraldar og hann tilheyrði allra lægstu stéttinni. Það er hinsvegar ekki rétt að hann hafi verið sauðaþjófur. Mouhamed segir að enginn þræll myndi þora að slátra lambi því það gæti kostað hann lífið. Hann tók aftur á móti úlfalda eiganda síns traustataki til þess að flýja (og það tiltæki gæti kostað hann lífið) og hugsanlega er það rót misskilningsins. Það er líka misskilningur að hann eigi á hættu að kynfærin verði skorin undan honum. Geldingin fer þannig fram að þrællinn er bundinn niður á bekk og kynfæri hans barin með priki. Hann var ekki fingurbrotinn, heldur var hann hýddur. Honum var hinsvegar hótað handarhöggi og misskilningurinn gæti legið í því að einn fingur Mouhameds er lemstraður eftir sýkingu sem ekki var meðhöndluð og lítur út fyrir að hafa brotnað.

Ekkert af þessu skiptir þó verulegu máli, því þrátt fyrir málleysið, komst til skila það sem Útlendingastofnun ætti að leggja til grundvallar við mat á því hvort taka beri hælisumsókn til greina, þ.e.a.s. að maðurinn var að flýja þrældóm og á yfir höfði sér vanvirðandi og þjáningarfulla meðferð, óafturkræft tjón á líkama og hugsanlega líflát.

Á meðan Mouhamed beið eftir úrskurði yfirvaldsins um það hvort hann teldist þess verðugur að fá að búa á Íslandi, dvaldi hann á Fit. Hann nýtti tímann þar á besta hugsanlega hátt, því þrátt fyrir að hafa aldrei notið skólagöngu eða neinna annarra tækifæra til að þroska hæfileika sína, býr Mouhamed yfir nákvæmlega því sem flóttamaður þarf til að lifa af; hann skilur nauðsyn þess að eignast vini og veit að besta leiðin til þess er að vera yndislegur. Með enskan orðaforða upp á aðeins 40-50 orð og einlægt traust á mannskepnunni, kom hann sér í kynni við Íslendinga. Hann eignaðist vini sem höfðu raunverulegar áhyggjur af örlögum hans og voru tilbúnir til að hjálpa honum að koma undir sig fótunum og aðlagast íslensku samfélagi. Hann fékk aðstoð við að sækja um vinnu og eftir hverja höfnunina á fætur annarri fékk hann að taka prufuvakt á veitingahúsi. Aldrei hafði Mouhamed unnið léttara starf. Hann gat að vísu ekki haldið uppi samræðum en hann fór með starfsfélögum sínum út í smók og leið eins og manneskju. Hann fór heim eftir vaktina alsæll, með vilyrði fyrir vinnu um leið og hann fengi atvinnuleyfi.

Ofbeldisstofnanir ríkisvaldsins koma sjaldan ánægjulega á óvart og stuttu síðar var hælisumsókn hans synjað. Hann kærði úrskurðinn en beiðni um frestun réttaráhrifa var hafnað. Og þegar tveir lögregluþjónar komu til hans og sögðu honum að hann yrði sendur nauðugur til Noregs (sem þegar hafði hafnað hælisumsókn hans) næsta dag, tók Mouhamed enn eina skynsamlega ákvörðun. Hann hafði samband við vini sína sem brugðust fljótt við og komu honum í öruggt skjól.

Mouhamed hefur nú verið í felum á Íslandi frá 8. júlí 2011. Hann er farinn að tala dálitla ensku (meiri ensku en frönsku en er þó enganveginn fær um að segja sögu sína án aðstoðar túlks.) Fjölskylda hans er látin, eini ættingi hans á lífi er systir hans í Senegal. Hún býr við frelsi en fátækt, vinnur hlutastarf í brauðgerð og kemst á netið af og til svo á meðan Mouhamed er á Vesturlöndum getur hann a.m.k. haldið stopulu internetsambandi við hana. Í Máritaníu býður hans ekkert nema hryllingur og hann þekkir engan í Noregi. Hann á aftur á móti vini á Íslandi, fólk sem hann lítur á sem fjölskyldu sína. Þar sem hann getur ekki látið sjá sig á almannafæri hefur hann þó takmarkað frelsi til að umgangast þá og drjúgan tíma dagsins situr hann og bíður þess að einhver hafi tíma til að heimsækja hann.

Mouhamed er heilbrigður, klár og duglegur. Hann er sannarlega búinn að sýna það og sanna að hann getur komist af án bóta frá hinu opinbera þannig að ef það er nískupúkinn sem yfirvaldið svíður svona mikið í, þá er óþarfi að hafa áhyggjur af því að hann verði samfélagsbaggi.  Það eina sem stendur í vegi fyrir því að hann geti lifað eðilegu lífi eru ofbeldisstofnanir ríkisvaldisins. Vinir hans munu hjálpa honum að koma sér upp heimili um leið og hann fær dvalarleyfi en á meðan hann er í felum er útilokað fyrir hann að taka húsnæði á leigu. Hann er búinn að fá annað atvinnutilboð og hann dauðlangar að vinna. Hann vantar auk þess peninga því hann þyrfti að komast til tannlæknis og eignast nauðsynlegan fatnað,  námsgögn og eitthvað sér til afþreyingar en hann má ekki vinna. Hann þyrstir í þekkingu en hann hefur aldrei lært neitt. Við höfum útvegað honum nokkrar bækur en fyrir mann sem skilur ekki tugakerfið og kann engin málfræðihugtök er bóknám án leiðsagnar flókið og seinlegt. Hann kann enga námstækni og hefur engan aðgang að námsefni á tungumáli sem hann ræður almennilega við. Þar sem það gæti orðið honum lífshættulegt að sjást á opinberum vettvangi, kemst hann ekki í skóla og verður að láta sér nægja tilsögn þeirra vina sem heimsækja hann en fáir þeirra eru færir um að annast skipulega kennslu fyrir utan það að hafa ýmsum skyldum að sinna. Honum líður mun betur í felum á Íslandi en sem þræll í Máritaníu en óvissan fer illa með hann, hann er mjög kvíðinn, sefur illa og fær oft verki sem líklega stafa af streitu.

Fyrir liggur kæra á úrskurði Útlendingastofnunar. Innanríkisráðherra hefur verið gerð grein fyrir aðstæðum mannsins og margir hafa skorað á hann að beita sér í málinu. Ég ræddi mál Mouhameds við Ögmund um miðjan nóvember. Hann var mjög skilningsríkur og sagðist hafa áhyggjur af Mouhamed. Ég benti honum á að takmarkað gagn væri af áhyggjum sem ekki leiddu til aðgerða og að það að Innanríkisráðherra Íslands hefði samúð með honum, yrði Mouhamed lítil huggun, svona rétt á meðan verið væri að berja undan honum eistun. Honum fannst ég dómhörð.

Ögmundur hefur lýst því yfir að hann taki afstöðu með þeim sem minna mega sín en hann hefur líka áhyggjur af því að mannúðleg meðferð á flóttamönnum kalli yfir okkur mikinn straum af glæpamönnum. Ég get svosem skilið þær áhyggjur en mikið óskapklega þykir mér það sorglegt stefna, sem í reynd er við lýði á Íslandi, að krefjast öfugrar sönnunarbyrði í málefnum flóttamanna. Ég vona sannarlega að Ögmundur breyti því. Að hann láti ekki glæponafóbíuna stjórna svo miklu að menn þurfi að koma með vottorð upp á þrældóm, pyntingar eða pólitískar ofsóknir til að vera ekki sjálfkrafa álitnir morðingjar eða hryðjuverkamenn. Auðvitað veit Ögmundur að flestir þeirra sem flýja heimalönd sína hafa ærnar ástæður til þess og þótt hann virðist líta á Dyflinnarákvæðið sem einhverskonar helgidóm, sagðist hann vera tilbúinn til að skoða málið. Ég er búin að skrifa honum oft síðan og spyrja um gang málsins en hann hefur ekki svarað þeim erindum. Þann 28. desember barst mér þó loksins svar. Það eina sem hann hefur um málið að segja er að það sé „í athugun“.

Í athugun já. Í sex mánuði. Hversu lengi ætli mál Henrys Turay sem fór í felur, að mig minnir í desember 2009, hafi verið í athugun?   Er það mál kannski ennþá í athugun?  Hvar er Henry í dag? Á Íslandi? Farinn til útlanda? Dauður og dysjaður í nágrenni Rauðhóla? Löggan veit það ekki. Ögmundur veit það ekki, Útlendingastofnun veit það ekki. Og ekki hafa þau spurt.

Íslendingar sem annars eiga heimsmet í nánast öllu, eiga mér vitanlega enga raðmorðingja. Ekki síðan þeir hálshjuggu Axlar Björn. En hér er góð hugmynd fyrir fólk með raðmorðingjaóra. Flóttamenn auðvitað. Enginn spyr hvað verður um þá þegar þeir hverfa.

14 thoughts on “Saga strokuþræls – sagan í heild

  1. Bakvísun: No Borders sendir út jólakort | No Borders Reykjavík

  2. Takk fyrir innleggin. Kolbrún, fleiri hafa nefnt undirskriftalista. Ég hef ekki tök á því að sjá um það ein (það er meiri vinna en maður hefði haldið) en það væri mjög gott ef einhver vildi taka að sér að útbúa og halda utan um undirskriftalista. Ég myndi sannarlega hjálpa til við það.

  3. Birnuson, takk en ég hef ekki áhuga á að verða ráðherra. Eða ef út í það er farið að starfa innan þess valdakerfis sem við búum við.

  4. Bakvísun: Ísland, best í heimi (allavega ef þú ert Íslendingur eða lítur að minnsta kosti út fyrir að geta verið það) | Vefritið

  5. Ég rakst á grein í Fréttatímanum 13-15 janúar um Mouhamde Lo. Ég geymdi greinina. Ég er alveg slegin yfir hans lífi og langar að gera allt sem ég get gert til að hjálpa honum að öðlast frelsi eins og við þekkum á Íslandi.

  6. Þakka þér fyrir Hjördís. Ef þú kannt aðferð til að koma Ögmundi Jónassyni og Höllu Gunnarsdóttur frá völdum þá endilega drífðu í því, það er það eina sem mér dettur í hug að sé hægt að gera fyrir Mohammed. Hann fær greinilega enga fyrirgreiðslu á meðan þetta pakk situr í Innanríkisráðuneytinu.

  7. Takk Ragnar. Það eru margir sem hafa komið að aðstoð við Mohammed. Sjálf bý ég í Glasgow núna og get lítið fyrir hann gert. Verst hvað ætlar að taka langan tíma að fá niðurstöðu í málið.

  8. Bakvísun: Má ekki segja sannleikann um flóttamenn? | Pistlar Evu

Lokað er á athugasemdir.