Ræða á Austurvelli

Góðir fundarmenn. Þann 6. mars sl. var Alþingi Götunnar sett hér á Austurvelli. Hvað merkir það? Jú, þing merkir fundur eða ráðstefna. Alþingi merkir þannig vettvangur sem þar allir eiga sér rödd. Alþingishús, hlýtur þar með að vera hús þar sem allir mega tjá sig. Að vísu er það háð tíma og menningu hvaða fólk það er sem telst ’allir’. Á sínum tíma töldust konur t.d. ekki með í þeim hópi.

Hverjir teljast ’allir’ í dag? Þann 8. des 2008 fékkst úr því skorið, þegar um 3 tugir almennra borgara fóru inn í Alþingishúsið og vildu láta rödd sína heyrast. Þeim var hent út, nokkrir voru handteknir og hafa nú sætt ákæru fyrir brot gegn valdstjórninni. ’Allir’ eru samkvæmt þessu nokkrir tugir fulltrúa. Fundirnir sem fara fram í þessu húsi eru ekki þing allra, heldur Fáþingi fulltrúanna og þeir sem hafa stjórnað landinu í gegnum þetta fáþingi, eru örfáir menn sem voru nógu auðugir til að panta þau lög og reglugerðir sem þeim hentaði. Þannig virkar Fáþingið og jafnvel þótt tilteknir einstaklingar misstu þau völd sem nú er verið að færa þeim aftur, kæmu bara önnur stórfyrirtæki sem koma í þeirra stað.

Alþingi götunnar er dálítið annars eðlis en Fáþingi fulltrúanna. Hér mega allir tjá sig og þótt einhver sé hávær, verður hann ekki dreginn fyrir rétt og sakaður um að hafa brotið gegn þeim sem lofuðu því að hann myndi greiða skuldir sem hann hvorki stofnaði til né gekkst í ábyrgð fyrir. Vandamálið er bara að valdið er ekkert hjá Alþingi götunnar, heldur hjá Fáþinginu og það er takmarkað gagn af því að halda þjóðfundi á meðan við höfum engin tök á að framfylgja því sem þar er rætt. Spurningin er því, hvernig færum við valdið frá Fáþingi fulltrúanna, til Alþingis götunnar?

Sumir telja að nú þurfi að taka fram pott og sleif og já við höfum séð að almenningur er þess megnugur að hrekja ríkisstjórn frá völdum. Hinsvegar dugði janúaruppreisnin 2009 ekki til þess að færa völdin til fólksins. Það helsta sem breyttist var það hverra rassar verma ráðherrastólana. Efnahagskerfið býður ennþá upp á alræði stórfyrirtækja og þeir sem sitja á Fáþingi hafa nákvæmlega sömu möguleika og áður á því að leyna almenning upplýsingum og taka ákvarðanir í þágu sérhagsmunahópa. Við getum barið potta okkur til skemmtunar en það er út í hött að beita sömu aðferð og reikna samt með annarri niðurstöðu. Við leysum ekki vandamál fáræðisins með kosningum.

Ef fólki er alvara með þessu Alþingi götunnar, þá þarf að fara fram bylting á Íslandi. Uppreisn sem leiðir til stjórnarskipta er ekki nóg, það þarf að steypa stjórnkerfinu sjálfu. Það þarf að hrifsa völdin af þessum 30 manns sem stjórna landinu og færa þau til hinna 300 þúsundanna sem engu ráða.

Og hvernig fremjum við þá byltingu ef ekki með potti og sleif? Ég hef heyrt stórbokkalegar yfirlýsingar um að nú þurfi bara að grípa til vopna. Slíkt ástand getur skapast í hverju þjóðfélagi að blóðug bylting sé óumflýjanleg en það er bara ekki uppi á teningnum hér. Við hvorki þurfum að beita svo ógeðfelldum aðferðum, né heldur höfum við mannafla til þess að standa í borgarastyrjöld. Við skulum horfast í augu við að almenningur nennir ekki að standa í baráttu fyrr en meirihlutinn er farinn að lifa við örbirgð. Og það mun ekki gerast því fyrr mun Fáþingi selja sjálfstæði okkar og allar okkar auðlindir í hendur erlendra stórfyrirtækja. Fólk verður að fara að átta sig á því hverjar afleiðingar kreppunnar verða. Fjöldinn mun ekki svelta. Þjóðin mun hinsvegar missa forræðið yfir Gullfossi og Geysi, Þjórsárverum, fiskimiðunum og vatninu.

Íslendingar segjast vera reiðir, en hvað er þjóðin að fást við þessa dagan? Jú nokkrar hræður standa í pólitískum aðgerðum t.d. er hópur sem hefur tekið sig til og gert upptækt hús á Vesturgötunni, hús í eigu eins bankann, en það eru varla meira en 100-300 manns sem halda uppi andófi. Nokkur hundruð til viðbótar sýna samhug sinn með því að mæta hér af og til en þorri fólks hamast við að tæta drasl út úr búðunum, búðum sem eru flestar í eigu fólksins sem stjórnar Fáþingi. Og þar er kjarni vandamálsins, það er almenningur sjálfur sem viðheldur þessu rotna efnahagskerfi með því að taka þátt í því.

Við þurfum ekki ofbeldi til að fremja byltingu. Við þurfum ekki einu sinni að mæta á Austurvöll. Það eina sem við þurfum að gera til að efnahagskerfið hrynji er að hætta að halda því gangandi. Já, það er rétt, ég er að tala um að stöðva hjól atvinnulífsins. Maður ekur ekki bíl á meðan maður skiptir um vél í honum. Það sem gerðist á Íslandi var það að tímareimin slitnaði en í stað þess að skipta um vél er bílnum ýtt áfram með handafli og það er verið að reyna að klastra tímareiminni saman með kennaratyggjói. Það dugar ekki lengi. Við þurfum að skipta um vél, við þurfum að steypa kerfinu. Og það eina sem við þurfum að gera til þess er að svelta svínin. Ef almenningur hætti að versla þá myndi fyrirtækjaveldið hrynja eins og spilaborg. Stjórnkerfið yrði ekki lengur starfhæft og þar með fengi almenningur tækifæri til að taka völdin og skipuleggja samfélag sitt á nýjum forsendum. Þá yrði Alþingi götunnar að veruleika.

Íslendingar geta tekið sig saman um að kaupa ekki annað en brýnustu nauðsynjar og versla þá hjá kaupmanninum á horninu en ekki hjá verslunarsamsteypum. Þeir gætu líka staðið saman um alvöru greiðsluverkfall, því greiðsluverkfall á milli eindaga er náttúrulega bara brandari, svipað og að fara í verkfall í sumarfríinu.

Ég þakka þeim sem hafa skipulagt þessa útifundi. Það er gott að efla samstöðuna með fundum en þeir einir og sér duga ekki til að knýja fram breytingar. Það er fámennt hér í dag og það er satt að segja skiljanlegt að fólk nenni ekki að standa hér og hlusta á eitthvert röfl í fólki sem hefur ekki vald til að fylgja hugmyndum sínum eftir. Beinar aðgerðir væru árangursríkari ef fleiri en 40 fengjust til að taka þátt í þeim. En jafnvel þeir sem enga áhættu vilja taka, geta bylt kerfinu og fært almenningi völdin, einfaldlega með því að gera ekki neitt. Óhlýðnast Intrum og gera ekki neitt. Hætta að versla. Hætta að borga. Hætta að vinna ef hitt tvennt dugar ekki til. Líklega eru viðskiptaverkfall og greiðsluverkfall áhrifaríkustu og fljótvirkustu aðgerðir sem hugsast getur. Fullkomlega friðsamlegar og áhættulausar aðgerðir sem hægt er að taka þátt í því með því að liggja sofandi heima hjá sér. Og í alvöru talað, á meðan Íslendingar hafa hvorki hugrekki til þess að draga það að borga af lánunum sínum, né sjálfsstjórn til að draga úr neysluæðinu, þá er hugmyndin um vopnaða uppreisn svo hlægileg að hún nær því ekki einu sinni að vekja manni viðbjóð.

Að lokum langar mig að nefna mál sem ekki tengist efnahagshruninu en er ágætur mælikvarði á siðferði þessara stjórnvalda okkar. Það er mál flóttamannsins Henrys Turay. Henry átti að verða barnahermaður. Það er vart hægt að hugsa sér mikið ógeðfelldara form af þrælahaldi. Móðir hans bjargaði honum og var drepin í kjölfaið og Henry hefur verið á flótta síðan eða í 13 ár. Henry er í lífshættu í heimalandi sínu, og hefur verið í felum á Íslandi frá því í nóvember. Í felum fyrir íslenskum valdastofnunum sem styðja stríðsglæpi og hika ekki við að senda fólk út í opinn dauðann. Henry á líf sitt undir réttlætiskennd Íslendinga og ég bið alla sem ekki vilja eiga aðild að morði um að þrýsta á allt áhrifafólk um að koma í veg fyrir brottvísun hans.