Pistill handa sjoppueigendum

softice_600_01

Á Íslandi tíðkast ekki að kenna nýju starfsfólki vinnubrögð eða gefa því þær upplýsingar sem það þarf til þess að geta veitt góða þjónustu. Á mörgum vinnustöðum er nýju fólki bara hent út í djúpu laugina og þetta á ekki síst við um fyrirtæki sem ráða aðallega kornungt, ófaglært fólk til starfa.

Á Íslandi er ekki hægt að reikna með að afgreiðslufólk í matvörubúðum þekki muninn á hænueggi og eggaldini, hvað þá að það viti hvar edikið er geymt. Það er heldur ekki hægt að reikna með að starfsfólk á veitingahúsum viti hversu lengi á að steikja franskar kartöflur.  Ennfremur virðast sjoppueigendur jafnan ganga með þá grillu í höfðinu að hæfileikinn til að afgreiða ís sé meðfæddur og/eða að það skipti engu máli hvernig það er gert. Það er ekki einu sinni hægt að reiða sig á að starfsfólk sérstakra ísbúða kunni til verka.

images

Þegar viðskiptavinur biður um ís í brauðformi á hann við eitthvað í líkingu við þetta. Hann vill ekki að unglingurinn sem afgreiðir hann segi „heyrðu hann misheppnaðist aðeins, er ekki í lagi að ég hvolfi honum í box?“ Ef viðskiptavinurinn hefði viljað ís á hvolfi í boxi þá hefði hann tekið það fram. Þegar kúnninn fellst á að fá ísinn framborinn á þennan séríslenska máta, er það ekki af því að honum finnist það góð hugmynd, heldur af því að hann skilur vandræði sjoppubarna sem eru svikin um þjálfun, vill ekki tefja hina viðskiptavinina sem bíða eða þarf að flýta sér til að aðstoða barnið sitt af því að það er í vandræðum með ís sem lítur út eins og skakki turninn í Písa og er við það að detta út úr boxinu.

Ís í boxi á að vera keilulaga en ekki eins og gosflaska í laginu og ef er ekki pláss fyrir sósuna á að nota stærra box. Sósan á ekki að flæða upp fyrir barmana. Það á heldur ekki að setja einn desilítra af sósu á móti einum desilítra af ís.

is3-225x300

van-soft-serve-cup-229x300

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef ísinn er eins og gosflaska í laginu dettur hann út á hlið eða ofan í hálsmál kúnnans. Ís í boxi að líta út eins og á hægri mydninni. Semsagt talsvert umfangsmeiri neðst en um miðjuna.

Ís í brauðformi á að nema við brún brauðformsins en ekki að leka yfir hana. Hann á að mynda fallegan kúf en ekki halla út á hlið þannig að nauðsynlegt sé að rétta hann af með skeið til að komast hjá því að hann detti niður í kjöltuna á manni. Ef ísinn er með dýfu, á hún að ná niður á brún brauðformsins en hún á ekki að sullast niður eftir því. Það getur verið fallegt að setja dýfuna aðeins á toppinn og það hentar börnum vel en ef dýfan myndar tveggja millimetra gap við brún formsins lekur ísinn undan henni.

Langar einhvern í þennan ís?

Ef starfsfólk sjoppunnar kann ekki að dýfa ís er betra að það taki það fram svo kúnninn geti gert upp við sig fyrirfram hvort hann vilji fá ísinn á hvolfi í boxi eða sleppa dýfunni.  Um daginn kom ég í ísbúð þar sem var tilkynning uppi á vegg um að ekki væri hægt að fá stóran ís með dýfu. Frekar slappt af sérverslun með ís en þó skárra en að svekkja viðskiptavini með gallaðri vöru.

Ísinn á að vera nógu stífur til þess að hægt sé að dýfa honum án þess að hann detti út á hlið en þó ekki svo kaldur að dýfan myndi hnausþykka skel. Ætlunin er að borða súkkulaðið með ísnum og þessvegna þarf dýfan að vera þunn. Ef hún er svo þykk að maður þurfi að bíta hraustlega til að komast að ísnum gerist tvennt; súkkulaðiskelin brotnar í stykki sem hrynja niður á föt viðskiptavinarins og ísinn bráðnar á meðan hann er að bryðja súkkulaðið. Sá sem ætlar að borða þykka súkkulaðiplötu með ísnum biður um síríuslengju, ekki dýfu.

is2

Allt of oft bjóða sjoppur upp á ís sem er of linur. Ef hann byrjar að leka áður en maður nær því að borga er hitastigið á vélunum ekki rétt. Það eyðileggur ánægjuna ef maður þarf að hafa sig allan við til að koma í veg fyrir að ísinn sullist niður.

Ef ísinn er borinn fram í vöffluformi er gott ráð að setja lítinn kúlulaga sælgætismola í vöffluna til að loka forminu betur því það kemur fyrir að vöfflurnar leka. Þetta ráð hefur einhver kennt ísbúðarstúlku sem afgreiddi mig í síðustu viku. Það tókst þó ekki betur til en svo að í stað þess að loka fominu með einni kúlu, setti hún hálfa matskeið af nóakroppi í vöffluna. Tvær kúlur lentu saman og mynduðu stíflu í miðri vöfflunni sem ísinn rann svo greiðlega framhjá. Það hefði verið mun skárra að sleppa þessari varnaraðgerð. Það sama gerist ef lakkrísbiti er settur í vöffluna. Ef á að nota sælgætismola til að loka forminu verður hann að vera kúlulaga og það þarf að setja eina kúlu fyrst, það er svo hægt að setja fleiri mola á eftir ef þess er óskað.